Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 24. júní 2009

Greek Square tilbúið!

Þá er smáteppið tilbúið. Svona teppi getur maður notað sem dúka hvar sem er.
Ég ætla að hengja það upp á vegg í saumaherberginu. Þar hefur hangið vetrarmynd, sem ég er búin að setja í geymslu þar til næsta vetur.

Ég stakk í öll saumför með ljósum tvinna.

Á heilu bútana stakk ég munstur sem ég fann í EQ6. Ég dró það upp á þunnan pappír og saumaði í gegn.

Þessar blokkir eru oft látnar snúa svona, þó ég hafi valið að láta þær vera "upp á rönd" eða "on point", hvernig sem það er nú þýtt á íslensku.





föstudagur, 19. júní 2009

Smáteppi á leiðinni

Eins og ég hef áður skrifað hér þá er ég mjög hrifin af klassískum, amerískum teppum með reglulegu munstri. Mig langar til að prófa að sauma fullt af blokkum, en maður getur ekki fyllt allt af stórum teppum
Þess vegna finnast mér smáteppi eða "miniature quilts" algjör snilld. Þessi blokk heitir í EQ6 forritinu mínu Greek Square, en trúlega hefur hún fleiri nöfn. Mér finnst hún ótrúlega falleg, en mjög einföld og algeng.

Ég teiknaði teppið upp með 4 tommu blokkum, valdi liti og byrjaði að sauma.

Áfram var saumað, og svo rifið úr með frímerkjatöng að vopni. Á meðan ég gerði það horfði ég á skemmtileg vídeó í tölvunni.

Núna er ég búin að sauma kantana á og sýni það tilbúið næst.





mánudagur, 15. júní 2009

Tvær frjálsar

Ég var að ljúka við þessar 2 peysur, sem bera nafnið Frjáls. Þær eru úr Einbandsbókinni hennar Védísar Jónsdóttur hjá Ístex. Þær verða báðar seldar.

föstudagur, 12. júní 2009

Japanskur dúkur

Þennan dúk gerði ég fyrir 2-3 árum. Þá var ég áskrifandi að sýnishornum frá Bót á Selfossi. Ég náði að gera þrjú verkefni úr þessum sýnishornum, og þetta er eitt þeirra. Annað verkefni var dúkur, sem ég sýndi hér 12. mars
Ég valdi rómantísku efnin og bætti þremur við frá sjálfri mér. Bláa efnið átti ég og hafði aldrei getað notað það í neitt, en þarna smellpassaði það. Dúkurinn er alfarið handsaumaður með sömu aðferð og taskan sem ég sýndi hér á undan.
Snilldin felst auðvitað í því að dúkurinn er fullfrágenginn þegar bútarnir eru komnir saman.


sunnudagur, 7. júní 2009

Júní

Saumaði júnímyndina í dag. Vildi hafa blómlegt og grænt með vökvunarkönnunni.

fimmtudagur, 4. júní 2009

Hin taskan

Nú ætla ég að sýna tösku, sem ég saumaði í jólafríinu árið 2007.
Hún er saumuð með svokallaðri "japansk bretteteknik" eða japanskri brotaðferð. Þegar ég sá þessa uppskrift á netinu varð ég að sauma eftir henni. Ljósa efnið er hör, en það bláa er batiklitað bómullarefni. Taskan er alfarið handsaumuð, nema ég festi böndin á töskuna í saumavél. Taskan er í stöðugri notkun, því ég nota hana undir sunddótið mitt. Ekki þarf að fóðra töskuna, því allur frágangur gerist um leið og hver bútur er tilbúinn. Hér er uppskriftin.

þriðjudagur, 2. júní 2009

Meira um kjólinn

Í athugasemdunum er ég spurð að því hvernig ég hafi gengið frá hálsmálinu og ermunum á Egg kjólnum. Í Föndru fást teygjubönd til að setja á kanta á flíkum, í mörgum litum, og setti ég það á hjá mér. Ég fékk góðar leiðbeiningar í versluninni um hvernig best væri að gera það. Takk, Íris, fyrir að lesa bloggið, og ég vona að þetta komi að gagni.