Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 24. febrúar 2020

Sokkar, vettlingar og hálsaskjól


Prjónaði sokka á ömmustrákinn, næst minnstu stærðina af Snær sokkar frá Petit knitting.


Vettlingarnir eru líka frá Petit knitting og heita Sindri vettlingar.
Stærðin er á 1-2 ára.


Svo vantaði hann kraga fyrir vetrarveðrið.
Uppskriftin er aftur frá Petit knitting og heitir Skorri hálsskjól.
Ég valdi minnstu stærðina, 6-12 mánaða, en sleppti stroffi neðst. Svo hafði ég 1 sl og 1 br í kraganum sjálfum til að hann héldi betur að hálsinum, en í uppskriftinni er perluprjón.
Kraginn passar mjög vel á hann svona.

Notaði Drops merino extra fine í allt.

föstudagur, 14. febrúar 2020

Prjónaveski fyrir Addi trio prjóna


Ég er voða gamaldags hvað varðar prjónaáhöld, nota mína gömlu prjóna og er bara sátt við þá. 


Það er samt ein nýung sem ég hef fallið fyrir, og það eru Addi trio prjónarnir.
Mér hefur alltaf leiðst að nota fimm prjóna, og nú er ég á góðri leið með að skipta þeim út fyrir Addi prjónana.


Og til að hafa eitthvað yfirlit yfir prjónaeignina þurfti ég að sauma veski undir þá.
Ég stefni á að fylla þetta veski smám saman. Af sumum stærðum á ég nú þegar tvö pör, því mér finnst best að prjóna ermar, skálmar, sokka og vettlinga samtímis hvað öðru.
Ég saumaði hvítan borða á hólfin til að skrifa prjónastærðirnar á þegar ég veit betur hvað kemur í þau.
Aftari hólfin eru fyrir lengri gerðina.


Svo rúlla ég þessu saman.
Fyrirmyndin er prjónaveski sem mér var gefið fyrir nokkrum árum og ég hef notað síðan.
Efnin keypti ég á útsölu hjá Panduro í vetur.



mánudagur, 10. febrúar 2020

Tvöfaldir vettlingar


Í bókinni Leikskólaföt 2 rakst ég á vettlingauppskrift þar sem innri vettlingur var prjónaður í þann ytri til að gera hann hlýrri.
Ég prjónaði minnstu uppskriftina, á 1-2 ára.


Svona líta þeir út að innan.


Og af því að ömmustrákurinn notar ekki ennþá þumla, þá prjónaði ég aðra þumlalausa með sömu aðferð.


Uppskriftin heitir Lísa í Undralandi.
Ég notaði afganga af Lanett stærri vettlingana, og það sama í þá minni, nema innan í þeim er Mini alpakka frá Sandnes.
Stærð á prjónum: 3,5 og 4.

föstudagur, 7. febrúar 2020

Hneppt peysa


Þetta var jólaprjónið mitt að þessu sinni og lauk ég við peysuna fyrir nokkru, en átti bara eftir að festa tölur.


Peysan er á sjálfa mig, mig langaði í gollu.
Það gekk ekki alveg þrautalaust að gera hana, ég valdi stærð eftir uppgefnum málum í uppskriftinni, prjónaði tæplega upp að höndum, setti lykkjurnar á band og mátaði og peysan var hólkvíð.
Ég taldi út að stærð small yrði í lagi á mig, en það skrítna var að prjónafestan mín var alls ekki út úr korti, en samt ekki alveg rétt.


Svo þá var bara að rekja upp og byrja upp á nýtt. Ég fitjaði upp á medium peysu, en tók svo úr í hliðum með jöfnu millibili þannig að við berustykkið myndi hún verða komin í stærð small.
Bolurinn er prjónaður fram og tilbaka en ermarnar í hring, þannig að ég notaði hálfu númeri grófari prjóna fyrir ermar. Ég prjóna lausar fram og tilbaka.


Garnið er Drops cotton merino, keypt í Gallery Spuna.
Tölurnar keypti ég í Rokku.
Prjónastærðin er 4, en 4,5 í ermum.