Heildartala yfir síðuflettingar

föstudagur, 30. desember 2011

Jólakönnumottur

Ég hafði nú hugsað mér að sauma svona könnumottur fyrir jól, en gerði þær í gær. Ég er líka hætt að miða alltaf við næstu jól, það koma jól á hverju ári, og hlutirnir fá bara sinn tíma til að klárast.
Ég fór eftir sniði frá Elínu Guðjónsdóttur, en af því mig langaði fyrst að búa til svona litlar mottur, þá teiknaði ég blokkina upp í EQ7, og saumaði með pappírssaumi í minni stærð en uppgefnar eru hjá henni. Svo notaði ég nokkur af þeim 222 sporum sem eru í dásamlegu saumavélinni minni, og eru þá 3 leturgerðir ekki taldar með. Þó maður noti kannski svona spor ekki mikið, þá segi ég eins og góð kona sagði: Ég vil frekar hafa öll þessi spor og þurfa aldrei að nota þau, heldur en að hafa þau ekki og þurfa á þeim að halda. Ég valdi jólalegustu mótífin.
Sniðið hennar Elínar fæst í Quiltkörfunni í Faxafeni.

þriðjudagur, 27. desember 2011

Theodóra á peysufötum

Þessa dúkku, hana Theodóru, prjónaði ég í haust að mestu, en átti svo eftir alls konar smáfrágang, sem ég var að ljúka við í dag.
Undir peysufötunum er hún í klukku og nærbuxum. Ég átti klukku þegar ég var pínulítil, og man eftir því.
Þetta eru peysufötin, og í skónum eru meira að segja íleppar! Dúkkan og flest fötin eru prjónuð úr léttlopa, en skór og sokkar, ásamt íleppunum, eru úr einbandi. Uppskriftin er keypt hér.

mánudagur, 12. desember 2011

Prjónaskapur af ýmsu tagi

Hún Úlfhildur Sjöfn, litla frænka mín, varð 4 ára þann 10. desember, og þá færði ég henni þessa lopapeysu. Uppskriftin er á heimasíðu Ístex.

Litla systir hennar, Salvör Veiga, þurfti að fá jólasveinahúfu til að vera eins og stóra systir. Ég prjónaði eins húfu á Úlfhildi Sjöfn fyrir tveimur árum. Uppskriftin er hér.

Þegar ég var búin að prjóna alla sokkana hér að neðan úr afgöngum af léttlopa, sem safnast reglulega upp hjá mér, náði ég að prjóna þetta teppi með Dómínó aðferðinni, og kláraði fullt af litlum hnyklum. Ég gerði ekki kant, því ég er að hugsa um að geyma það og bæta við það seinna þegar meiri afgangur safnast upp. Það eiga að vera takkar kringum teppið.

Þessi 12 sokkapör ásamt 7 öðrum, samtals 19 pör af sokkum á tveggja, fjögurra og sex ára, setti ég í verkefnið Jól í skókassa sem KFUM og K heldur utanum hvert ár.

Svo datt ég í jólakúluprjón og er búin að prjóna 12 kúlur. Ég prjóna eftir uppskrift frá Prjóna Jónu, sem er að finna á Facebook síðu hennar. Ég nota léttlopa og prjóna no. 4. Ég fékk þennan fallega jólarauða lit í Handprjónasambandinu, en mér skilst að þetta sé sérlitað fyrir það og bara selt þar. Það er með fleiri liti sem Ístex sérlitar fyrir það.
Ég hengi kúlurnar neðan í hringstigann okkar.


Loks er hér mynd af prjónuðum umbúðum utan um pakka, sem ég fór með á jólahlaðborð í vinnu mannsins míns. Þar var pakkaleikur, og sú sem fékk þennan var mjög ánægð með hann og það staðfesti fyrir mér að fólki finnst vænt um að fá handunna hluti.