Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 18. júlí 2019

Þríhyrningateppi


Enn einu sinni er ég búin að sauma upp úr afgangakössunum mínum.
Ég held að þetta séu ein fimm teppi sem ég hef gert bara með afgöngum, og nú er lítið eftir.
Ég hendi engu, svo afgangar hafa safnast upp í áranna rás.
En mér finnst líka gaman að sauma svona, næstum án þess að hugsa.
Nú get ég farið að snúa mér að efnunum mínum í skúffunum, sem bíða mín samanbrotin og snyrtileg.

Það stóð alltaf til að prófa að gera þríhyrningateppi úr 60° þríhyrningum, því ég á stiku til þess.
Ég skar niður allt sem var nógu stórt, og lét ljóst og dökkt skiptast á.

Það, sem ekki var nógu stórt til að verða að þríhyrningi, skar ég niður í búta sem voru 2,5 tomma á breidd og saumaði saman í bindingu.


Svo skellti ég teppinu á sætisbakið í húsbílnum, bara svo það fengi að njóta sín einhvers staðar.

miðvikudagur, 26. júní 2019

Önnur Hjartapeysa


Eins og alþjóð veit þá á ég þrjár ömmustelpur. 
Tvær þær eldri eru hér um bil jafn gamlar, fæddar með þriggja vikna millibili (upp á dag, fæddust báðar um kvöld), og verða fjögurra ára í sumar.
Sú þriðja er fædd 2017 og er tveggja ára frá því í maí.
Fyrst eftir að þær eldri fæddust gerði ég allt eins á þær, kannski í mismunandi litum, en flest sambærilegt.
Nú fer ég meira eftir því hvers foreldrarnir óska, prjóna á aðra þeirra og ef hina langar í eins, þá er ekkert annað en sjálfsagt að prjóna líka á hana..
 

Ég prjónaði hjartapeysu á aðra þeirra í vor. Hin fékk að máta, og svo óskaði hún eftir eins peysu, og amma prjónaði hana.
 

Og hér er daman komin í peysuna sína, og finnst mér hún mjög fín í henni.
Stærðin er á 4 ára, garnið Lanett og prjónastærðin 3,0.
Uppskriftin er úr Prjónað af ást.

laugardagur, 15. júní 2019

Skæri


Ég hef alltaf átt góð skæri, ekki of mörg, bara vönduð og þau sem ég þarf.
Ég þurfti ekki að kaupa þessi tvö, mér finnst bara þetta nýja útlit á skærum svo rosalega flott.
Hins vegar eru þau fanta góð, blaðið er rifflað og það er eins og að klippa vatn að nota þau.
 Þau koma frá Karen Kay Buckley, og ég pantaði þau af Drop, sem áður hét Massdrop.
 

miðvikudagur, 29. maí 2019

Blómavettlingar


Uppskriftina af þessum vettlingum er ég búin að eiga í mörg ár.
Þeir eru prjónaðir úr kambgarni á prjóna nr.2.
Ég á töluvert litaúrval af kambgarnsafgöngum, svo ég þurfti bara að kaupa dökkblátt í aðallitinn.
Í staðinn fyrir að nota grænt í laufblöðin eins og ég hef oftast séð, þá notaði ég gráa liti.
Ég er frekar löt að prjóna vettlinga, en geri það samt öðru hvoru.þriðjudagur, 21. maí 2019

Northeasterly afgangateppi

  
Ég er mikið fyrir að nýta vel afganga, og hef búið til fullt af teppum, bæði prjónuðum og saumuðum, bara úr afgöngum.
Uppskriftin að þessu fæst á Ravelry, og snilldin við hana er sú að renningarnir eru prjónaðir saman jafnóðum.


Ég notaði litla hnykla af ungbarnagarni sem höfðu safnast fyrir.  Litirnir þurfa að passa nokkkuð vel saman, það gekk ekki að hafa t.d. rautt með þessum litum.  Gæti trúað að sprengt garn  í ýmsum litum kæmi best út í þessari uppskrift.
Ég prjónaði þangað til litlu hnyklarnir voru búnir, og þetta varð svona þokkalegt dúkkuteppi.

föstudagur, 17. maí 2019

Dalía litla, samfella


Uppskriftin að þessari samfellu er í bókinni Prjónað af ást.
 

Ég prjónaði úr Klompelompe tynn merinoull, og stærðin er á 6 mánaða.
Mjög gaman að prjóna hana, og er munstrið það sama og í Dalíukjólnum. 


miðvikudagur, 15. maí 2019

Púði


Kvöld eitt, fyrir skömmu, greip ég með mér gamalt bútasaumsblað til að líta í uppi í rúmi áður en ég fór að sofa.
Þar var uppskrift að þessum púða, sem ég hafði alltaf ætlað að sauma, en var búin að gleyma.
Ég vatt mér í að byrja á honum strax næsta morgun.
Ég hef prófað ýmsar aðferðir við applíkeringu, og núna notaði ég Steam-A-Seam til að líma niður með.  Fékk það í jólagjöf um þar síðustu jól og hafði aldrei prófað að nota það.  Síðan saumaði ég niður í vél með tunguspori..

Munstrið heitir Gardening Angel Pillow, og er úr hefti sem heitir Quilts of Thimble Creek.

þriðjudagur, 23. apríl 2019

Hjartapeysa


Þetta er Hjartapeysa úr Prjónað af ást.
  Hún er á ömmustelpu, sem vill helst vera í einhverju bleiku með hjörtum! 


Stærðin er á fjögurra ára og garnið er Lanett frá Sandnes. 


Ég heklaði líka takka á listann þótt það væri ekki í uppskriftinni, til að styrkja hann, því garðaprjón er svo teygjanlegt. 

miðvikudagur, 10. apríl 2019

Dalíukjóll


Þetta er kjóll á eina ömmustelpuna, sem verður fjögurra ára í júlí. Hún er kjólastelpa, vill helst alltaf vera í kjól.

Uppskriftin er úr Prjónað af ást, og garnið heitir Drops Cotton Merino, keypt í Gallery Spuna.
Það er blanda af ull og bómull, og mér skilst að það dugi mjög vel í svona leikskólaföt. Ég sá flík í búðinni sem búið var að marg þvo, og það sá varla á henni.

sunnudagur, 24. mars 2019

Fiðrildi og fugl


Ég er smám saman að prófa munstrin í útsaumsvélinni.
Ég læri af því, og núna lærði ég til dæmis að halda áfram eftir að tvinninn slitnaði án þess að ég tæki eftir því strax.  Þá þarf að bakka með sporin, og byrja aftur á réttum stað.  

Ytra byrðið er afgangur af gardínum sem voru hér í húsinu þegar við keyptum það. Ég var áður búin að sauma fjóra innkaupapoka úr þeim, og þetta var pínulítill afgangur.  Að innan er vattstungið bómullarefni.
Og að sjálfsögðu hefur þessi taska fengið hlutverk.
+


föstudagur, 22. mars 2019

Bróðir minn Ljónshjarta


Eina ömmustelpuna vantaði nýja leikskólapeysu.
Hún þolir ekkert sem stingur, og ég hef áður prjónað á hana eins peysu, sem hún vildi vera í, svo mamman bað bara um sams konar peysu aftur, bara stærri og í öðrum lit.

Uppskriftin er úr Leikskólafötum.
Stærðin er á 3-4 ára og garnið er Geilsk Tweed úr Litlu prjónabúðinni. Hvíta garnið er reyndar frá Jamieson &Smith, vantaði svo lítið og alveg hvítt.

fimmtudagur, 14. mars 2019

Lítill burðarpoki


Ég fann smábút af gömlu denim efni í kassa hjá mér, og langaði svo að prófa að sauma í það með Pfaff útsaumsvélinni minni.
 

Ég valdi þessi tvö munstur sem eru jafn stór, og notaði sömu liti í bæði.
 

Saumaði svo tösku, sem hefur nú það hlutverk að bera bækur á milli heimilis og bókasafns.

mánudagur, 11. mars 2019

Annar leikskólakjóll


Ég átti þetta rósótta jerseyefni, keypti það í Saumu til að nota í dúkkuföt.
Annarri tengdadótturinni langaði svo í kjól úr því á dóttur sína, svo amma saumaði auðvitað kjól.
Einlita efnið er úr Föndru.
Hann var nú svo sem ekki alveg nógu bleikur fyrir þá litlu, en hún notar hann samt..
Sniðið er Onion 20047, stærðin á 4 ára.

mánudagur, 18. febrúar 2019

Bollamottur


 Af því ég á bara einn ramma í útsaumsvélina ennþá, þann stærsta, þá verður stundum afgangs pláss í rammanum til að bródera meira í.
Þegar ég var að applíkera í hörinn sem ég sýndi í síðustu færslu, setti ég líka þessi blóm neðst í rammann, til að nýta efnið.

Og blómin urðu að bollamottum.
Ég nota  mikið svona mottur, þær eru út um allt hús hjá mér.

þriðjudagur, 12. febrúar 2019

Applíkeruð verkefnataska


Ég er smátt og smátt að kynnast útsaumsvélinni minni, Pfaff Creative 1,5, og prófa að sauma mynstrin sem fylgja henni.
Mig langaði að prófa þessa applíkeringu, mjög gaman að sauma hana.
 

Svo reyni ég að gera eitthvað úr prufunum.
 Hér varð það verkefnataska, sem ég er búin að fylla af garni og prjónum, sem úr eiga að verða vettlingar.
Alltaf þörf fyrir svona töskur.

laugardagur, 9. febrúar 2019

Peysan Frost


Bóndann vantaði lopapeysu, "svona bílskúrspeysu".  Hann vildi hafa hana heila, svo hann væri fljótur að skella sér í hana, en hann á nokkrar hnepptar peysur, sem ég hef prjónað.

Ég notaði tvöfaldan plötulopa og prjóna nr. 5.
Uppskriftin heitir Frost og úr Lopalist.  Stærðin er medíum.

þriðjudagur, 5. febrúar 2019

Dresden Plate


Dresden Plate blokkin er ein af mínum uppáhalds.


Stærðin er 106 x 106 sentimetrar.

Ég stakk í öll saumför, og notaði skrautspor í köflótta rammann, kappmellaði blokkina á grunninn, stakk munstur eftir stiku á ysta rammann, og stakk fríhendis allt þetta ljósa. 
Epic vélin mín er frábær í fríhendisstungu.

þriðjudagur, 29. janúar 2019

Sjaltrefill


Ég kalla þetta sjaltrefil vegna þess að formið minnir á sjal, en ég vef honum um hálsinn eins og trefli. Frábær í kuldanum því hann er ekki fyrirferðarmikill en hægt að vefja honum vandlega kringum háls og upp á andlit.
Garðaprjónið er líka svo skemmtilega teygjanlegt og fellur vel að manni.

Uppskriftin er svona:

Fitjið upp 4 lykkjur, prjónið eina umferð.
1. umferð: aukið út í byrjun umferðar með því að fara tvisvar í fyrstu lykkjuna, prjónið þar til tvær lykkjur eru eftir, prjónið þær saman.
2. umferð: prjónið út prjóninn og aukið út í síðustu lykkju með því að prjóna tvisvar í sömu lykkjuna.

Svona heldur maður áfram eins og maður vill, og lykkjurnar sem safnast á prjóninn mynda aðra langhliðina þegar fellt er af.

Ég notaði Drops baby merino, 160 grömm,  og prjóna 4, en vinkona mín, sem prjónaði sér svona og gaf mér uppskriftina var með grófara, litaskipt garn og grófari prjóna og fékk stórt og fallegt sjal.

föstudagur, 25. janúar 2019

10 ára bloggafmæli


Í dag eru tíu ár frá því ég stofnaði þetta blogg.
Þegar ég var að velta fyrir mér nafninu á því fannst sonum mínum, sem hjálpuðu mér með að setja það af stað, liggja beint við að kalla það Saumaherbergi Hellenar, þar sem ég hafði þá fyrir nokkrum árum fengið langþráðan draum uppfylltan, að fá eigið saumaherbergi.
Þá bjuggum við í öðru húsi, og það herbergi var byggt sérstaklega fyrir mig þegar við bættum nýrri hæð ofan á húsið okkar.
Nú eru liðin sjö ár síðan við fluttum þaðan og í litla húsið okkar annars staðar í Hafnarfirði.
Hingað fluttum við barnlaus, og því notum við hjónin hvort sitt barnaherbergið fyrir áhugamál okkar.

Í tilefni bloggafmælisins ætla ég því að sýna myndir úr saumaherberginu mínu eins og það lítur út núna.

Á myndinni fyrir ofan sést aðal saumaborðið mitt. Það er rafmagnsborð sem ég keypti í Hirzlunni síðastliðið vor, og er mjög gott að geta stillt hæðina eftir þörfum.  Ef ég er t.d. að stinga teppi, lækka ég það. Þá þarf ég ekki að að fella vélina niður í borð eins og ég hafði áður gert.

Þetta er sníðaborðið mitt, sem maðurinn minn smíðaði handa mér fyrir fjórtán árum, þegar ég fékk nýja herbergið.  Það er vel út hugsað og frábært að vinna á því.  Fyrst var ég með minni skurðarmottu, en fékk mér stóra í Hvítlist fyrir tveimur árum.  Straubrettið gerði ég sjálf.

Hér eru svo bútasaumsefnin, raðað eftir litum. Það er varla að þau komist fyrir lengur, enda nýbúin að fylla rækilega á eftir margar heimsóknir á útsöluna í Virku áður en hún hætti.

Hér gefur svo að líta saumavélakostinn. Þetta langa, hvíta borð setti maðurinn minn upp fyrir mig fyrir nokkrum árum, þegar þekjusaumsvélin bættist í hópinn, svo allar vélarnar væru aðgengilegar.  Reyndar hefur rauða vélin bæst við síðan þá, en þær eru aldrei allar í notkun í einu, svo ég færi þær bara til á borðinu eftir þörfum. 


Kommóðan og hillan ofan á geyma handavinnutengda hluti. Ég á alls konar útsaumsefni og garn, prjónagarn, fataefni, bækur og blöð, sem hafa safnast fyrir í áranna rás. Handavinna hefur verið áhugamál mitt frá því ég var lítil.

Eftir jólin sóttum við þennan gamla skjalaskáp, sem maðurinn minn átti úti í bílskúr, og settum hann í saumaherbergið.  Þvílíkur happafengur, ég þurfti viðbótarhirslur fyrir bútasaumsefni og ekki síst fataefnin mín, sem ég á eftir að sauma úr. Hann hefur fjórar stórar  skúffur sem ég á svo eftir að skipuleggja betur.


Þetta póstbox átti pabbi minn, og nú lét ég loksins verða af því að mála það hvítt, en það var áður viðarlitað og frekar illa farið. Það passar vel undir litlar stikur.

Svo er það nýjasti meðlimurinn í saumavélafjölskyldunni.
Þetta er Pfaff creative 1,5 útsaumsvél, keypt í desember.
Ég hef aldrei verið spennt fyrir útsaum í vél, þangað til núna.  Forsagan er sú að ein ömmustelpan, á fjórða ári, hefur sýnt saumavélum mikinn áhuga frá því hún var pínulítil.  Núna fær hún t.d. að velja munstur á Epic vélinni með því að fletta og velja, eins og á spjaldtölvu, amma saumar, og sú litla ýtir svo á klippitakkann.
En Epic vélin er ekki fyrir börn.  Hún er of aðgengileg, of kraftmikil og of sjálfvirk.  Ég var búin  að sjá fyrir mér að ég myndi kaupa ódýra vél til að hafa hérna þegar stelpurnar mínar þrjár færu að prófa að sauma sjálfar (ef það verður þannig).  Ég komst samt að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert spes að eyða tugum þúsunda í aukavél sem sæti svo bara á gólfinu þess á milli og væri til einskis gagns fyrir mig.
Þá mundi ég eftir þessari Pfaff vél, sem er ekki of aðgengileg, frekar einföld og það þarf að lyfta fætinum handvirkt o.s.frv.  En hún getur bróderað líka, og það væri þá nýtt fyrir mig og viðbót við það sem ég hafði.  Ég dreif mig því í  Pfaff til  að kaupa hana á meðan hún fengist, dyggilega studd af eiginmanninum, enda verðið alveg frábært. Og það er bara mjög skemmtilegt að bródera í vél!  
Þetta er líka fínasta saumavél og hefur fengið mjög góðar umsagnir.
Auk þess hefur hún fengið hönnunarverðlaun!

fimmtudagur, 24. janúar 2019

Saumavélarnar mínar, aftur.


Bloggfærslan um saumavélarnar mínar rataði í Fréttabréf íslenska bútasaumsfélagsins, sem kom út fyrir jól. 
Gaman að því. 


Reyndar hefur ein saumavél bæst í hópinn síðan ég gerði þessa færslu.
Meira um það síðar.