Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 17. desember 2019

Prjónaður stelpukjóll


Ég var að ljúka við að prjóna jólakjólinn á yngstu ömmustelpuna mína.
Hún er rúmlega tveggja og hálfs árs.
Í Klompelompe strikkefest er uppskrift af peysu, og það var hugmynd tengdadóttur minnar að ég tæki þá uppskrift og síkkaði þannig að úr yrði kjóll.
Ég prjónaði stærð þriggja ára, en fitjaði upp á fyrir stærð fjögurra ára til að fá meiri vídd í pilsið, en tók svo bara meira úr fyrir berustykkið og prjónaði það ásamt ermum fyrir þriggja ára stærðina.


Í uppskriftinni er notað ullargarn, en við vildum hafa hann úr bómull, og Mandarin petit er eina bómullargarnið sem ég þekki sem er gott að nota í staðinn fyrir ullargarn á prjóna nr. 3.
Það er uppáhaldsbómullargarnið í raun og hef ég prjónað úr því í áratugi.


föstudagur, 13. desember 2019

Húfur


Fyrir nokkrum vikum prjónaði ég húfur á systkinin, ömmubörnin mín.
Á hana prjónaði ég Utsira lue sem er í Klompelompes strikkefest. Í hana notaði ég Drops Merino extra fine og stærðin er á 3-6 ára.  Hún er mjög smart á henni, hangir aðeins niður á kollinum, og það var ákveðið að hafa ekki dúsk á þessari.


Hann fékk Bøkebladslue sem er líka í Klompelompes strikkefest, stærðin er á 1-3 mánaða. Mér fannst  hann vanta húfu sem héldi vel um ennið og eyrun.
Ég notaði afganga af Lanett frá Sandnes.

fimmtudagur, 12. desember 2019

Pottaleppar


Um síðustu jól vantaði mig eitthvað að prjóna og fitjaði upp á þessum pottaleppum, prjónaði þá en gekk aldrei frá þeim. 
Það gerði ég hinsvegar í gærkvöldi.

Uppskriftin er hér.
Garnið, Mandarin Naturell, keypti ég í Fjarðarkaupum.

miðvikudagur, 11. desember 2019

Chunky Twist


Við stelpurnar í fjölskyldunni viljum gjarnan tolla í tískunni.
Þess vegna prjónaði ég svona eyrnabönd á okkur allar sex eftir að önnur tengdadóttirin benti mér á að allir væru með svona núna og hvort ég gæti ekki gert svona fyrir hana og dæturnar.
Þær fengu þessi á myndinni fyrir ofan.


Hinar mæðgurnar ákváðu að vera báðar með sama lit á sínu.


Þetta er svo mitt.
Ég átti afgang af gráu frá því ég prjónaði mér peysu, hefði samt trúlega keypt þennan lit líka.

Öll eru prjónuð úr Drops Air, og eru dásamlega mjúk.
Uppskriftin heitir Chunky Twist og fæst á Ravelry.
Garnið keypti ég í Freistingasjoppunni á Selfossi og Skartsmiðjunni í Reykjanesbæ, og afgangsgarnið mitt var frá Gallery Spuna.

þriðjudagur, 10. desember 2019

Vesti


Þegar elstu ömmustelpurnar mínar fæddust prjónaði ég á þær Lillies top.
Tengdadóttir mín bað mig um að prjóna vesti á litla soninn með sama munstri, sem ég gerði með gleði.
Ég hafði það styttra og án þess að taka inn í hliðunum.
Stærðin er á 0-3 mánaða, en svona vesti vaxa aðeins með börnunum.
Ég er farin að safna vestisuppskriftum núna til að eiga handa honum fyrir næstu ár. Mér finnast strákar svo fínir í vestum og svo er þetta svo hlýtt.


mánudagur, 9. desember 2019

Jaki Romper



Jaki Romper frá Petit Knitting, prjónaður á ömmustrákinn. Ég hafði stærðina á sex mánaða, verður fínn um jólin.
Ég notaði uppgefið garn, sem er Dale Lerke, sem ég keypti hjá Rifssaumi á Ólafsvík í sumar.



Ég breytti uppskriftinni aðeins að aftan. Það átti að leggja böndin yfir strenginn og festa með tölum, en mér fannst það alltof þykkt til að þægilegt væri fyrir barnið að liggja á því, þannig að ég saumaði böndin bara við brún og sleppti tölum.


Það varð afgangur af garninu þegar buxurnar voru búnar, og ég náði að gera sokka í stíl.
Uppskriftin heitir Tykke Lubbe og er úr Klompelompes vinterbarn, stærð 3-6 mánaða.

laugardagur, 30. nóvember 2019

Glasamottur


Ég nota glasamottur út um allt hús eins og áður hefur komið fram, og nú eru ömmustelpurnar farnar að sýna þeim áhuga. 
Ég greip þess vegna tækifærið og fann þessar myndir í útsaumsvélinni minni góðu.
Ég saumaði í hörefni frá Ikea og rósótta efnið er frá Tilda.
Kemur mér mikið á óvart hvað ég hef gaman af að nota útsaumsvélina, hélt að ég kæmist aldrei á þann stað. 


föstudagur, 22. nóvember 2019

Prjónaðar samfellur


Prjónaði samfellur á fjórða barnabarnið eins og á öll hin. Systir hans notaði svona samfellur næst sér frá því hún fæddist, og ennþá er hún í samskonar nærbolum sem ég prjónaði á hana, komin á fimmta ár.

Þetta er minnsta stærðin, og eins og alltaf prjónuð úr Alpaca Silke frá Sandnes.


þriðjudagur, 19. nóvember 2019

Buxur


Uppskriftin af þessum buxum er í Babystrik på pinde 3, 3. hefti.
Ég prjónaði þær úr Drops baby merino.
Stærðin er á 0-3 mánaða.


mánudagur, 18. nóvember 2019

Heklaðir smekkir


Áður en litli ömmustrákurinn fæddist heklaði ég tvo smekki fyrir hann.
Uppskriftin er á tinna.is, og ég notaði Mandarin petit.

mánudagur, 4. nóvember 2019

Vorlilja


Það er meira en ár síðan ég prjónaði Vorliljuna mína. Er samt bara nýbúin að þvo hana og taka í notkun. Ég keypti garnið í garngöngunni 2018. Bleiki liturinn er handlitað garn frá Héraði, en grái er Yaku frá litlu prjónabúðinni, hvort tveggja dásamlega mjúkt.
Snilldin við þetta sjal er að það er eins á réttu og röngu þrátt fyrir garðaprjón, rendur og kaðal.

Snilldarhönnun frá Auði Björtu Skúladóttur.
Uppskriftina keypti ég í Handprjóni í Hafnarfirði.


laugardagur, 2. nóvember 2019

Skogtopplue


Einhvern tíma rakst ég á þessa húfuuppskrift á netinu.
Þegar ég fór að lesa hana nýlega sá ég að það átti að nota Drops Merino Extra Fine, en ekki á uppgefna prjónastærð fyrir það garn, sem er nr. 4, heldur á prjóna 3.
Ég átti heila dokku af þessum lit og gat ekki beðið með að prófa hvernig það gengi upp.
Ég gerði hana á eins árs þótt litli gæinn minn sé bara rétt að verða tveggja mánaða.  Húfan verður bara geymd.
En hún kom mjög vel út með þessari prjónastærð, þétt og hlý, og leggst vel að höfðinu.
Uppskriftin er frí á Ravelry.

fimmtudagur, 31. október 2019

Hrekkjavökubollamottur


Ég er nú ekki mikil hrekkjavökukona, en freistaðist samt til að föndra aðeins í tilefni hrekkjavökunnar.
Munstrin í mottunum hér fyrir ofan komu með Pfaff creative 1.5 útsaumsvélinni minni, og ég varð að prófa þau. Mikið var gaman að sauma þau út, og til að myndirnar yrðu að einhverju, þá bjó ég til bollamottur.


Í fyrra gáfu þau hjá Husqvarna eigendum Epic saumavéla graskerssporið, ég hlóð því niður af netinu.  Í ár fengum við svo kóngulóarsporið, og þessi spor saumaði ég núna í bollamottur líka.


Svo á ég EQ8 bútasaumsforritið, og þar er fullt af hrekkjavökusniðum.
Ég valdi nokkuð sakleysislegt grasker, og saumaði með pappírssaum.
Ég saumaði það reyndar fyrst og varð þessi motta minnst, hinar þurftu svo að vera stærri út af útsaumnum, sem þurfti meira pláss. Pirrar mig aðeins að allar séu ekki jafn stórar, en það verður að hafa það.
 

föstudagur, 25. október 2019

Viggos vest


Ég prjónaði vesti á litla ömmustrákinn til að nota núna í haust, þegar kólnar í veðri.
Uppskriftin er í Babystrik på pinde 3, 1. hefti.
Stærðin er á 0-3 mánaða og ég prjónaði úr Lanett.
 

Hér kúrir hann í vestinu, og er í sokkum af systur sinni.  Þeir eru reyndar að verða of litlir á hann, svo amma prjónar bara stærri.

sunnudagur, 20. október 2019

Ruteshorts


Þetta eru stuttbuxur úr Klompelompe strikk året rundt.
Garnið keypti ég í Litlu prjónabúðinni, en er alveg búin að gleyma hvað það heitir.  Þetta er bómullar/ullarblanda, mjög skemmtilegt garn..
Stærðin er á 3-6 mánaða.
 

Og að sjálfsögðu eru þær prjónaðar á litla ömmustrákinn okkar, sem er að verða sjö vikna.

mánudagur, 23. september 2019

Davidromper


Þessar buxur prjónaði ég á ömmustrákinn í sumar, áður en hann fæddist.
Uppskriftin er í Klompelompe - sommerbarn.
Stærðin er á 3 mánaða.
 

Í sömu bók er líka uppskrift af eins buxum fyrir dúkkuna, svo stóra systir fær föt í stíl á dúkkubarnið.


Mér finnst þetta svo krúttlegt á dúkkunni.
 

laugardagur, 21. september 2019

Húfur á fjögurra ára


Fjögurra ára ömmustelpurnar vantaði húfur.
Nú eru þær orðnar svo stórar að þær vilja gjarnan hafa húfur án banda.
Þessi bleika heitir Småtroll-lue og er uppskriftin í Klompelompe - strikk til hele familien.


Sú græna er úr nýjustu bókinni, Klompelompe - Strikkefest.
Hún heitir Lillemors duskelue.
 

Ég notaði Dorps Merino Extra Fine í þær báðar, keypti garnið í Gallery Spuna og dúskana líka.

miðvikudagur, 18. september 2019

Rúnni Júl


Ég prjónaði Rúnna Júl peysu á elstu ömmustelpuna fyrr í sumar, en hún varð of stór.  Bæði varð axlastykkið of sítt og peysan of víð. 
Ég ákvað því að gera aðra á hana sem passaði, og svo ætlaði ég alltaf að prjóna þær líka á hinar tvær ömmustelpurnar.  Svo bættist ömmustrákur í hópinn fyrir 2 vikum, og hann varð auðvitað að vera með, en peysan hans verður passleg á hann eftir u.þ.b. ár.


Ég notaði annað garn en í fyrra skiptið, Drops Cotton Merino.
Í stað þess að prjóna axlastykkið í ákveðna sídd, þá setti ég lykkjur á band fyrir ermar strax að lokinni síðustu útaukningu.  Smellpassaði á stelpurnar.
Eins mældi ég bakhlutann á peysunum í stað þess að mæla í hliðum.  Ég fann bara út hversu síðar ég vildi hafa þær að aftan, rétt niður fyrir rass, og þær eru æðislega flottar þannig.

Ég fitjaði líka upp á stærð fyrir 3 ára fyrir 4 ára stelpurnar, þá var víddin fín, og fyrir þá ömmustelpu sem er tæplega tveggja og hálfs, þá fitjaði ég upp á fyrir 2 ára og fyrir eins árs handa stráknum.
Varðandi síddina þá munaði stroffbreidd fyrir hverja stærð. 
Ég mátaði peysurnar oft á meðan á prjónaskapnum stóð, það er kosturinn við að prjóna ofan frá og niður, og þannig fékk ég þær til að passa vel.

Uppskriftin fæst hér.
Dorps Cotton Merino keypti ég í Gallery Spuna.

mánudagur, 16. september 2019

Gromguttbukse


Gromguttbukse heita þessar strákalegu buxur, sem ömmustrákurinn fékk.
Þær eru á 3 mánaða.
Garnið er Merinoull frá Sandnes og uppskriftin er úr Klompelompe - strikk til hele familien.
 

sunnudagur, 15. september 2019

Heimferð


Þetta er peysan Heimferð úr bókinni Prjónað af ást.
Það var alveg sérlega gaman að prjóna hana.  Uppskriftin er mjög skýr, þurfti aldrei að rekja neitt upp. Ég ákvað að hafa hana í stærð 6 mánaða, og auðvitað er hún prjónuð á litla ömmustrákinn minn.
 

Svo passaði að gera lestarsokka og hjálmhúfu í stíl, og stærð húfunnar er líka á 6 mánaða.


Ég prjónaði úr Drops baby merino frá Gallery Spuna.

laugardagur, 14. september 2019

Garngönguhúfan 2019


Ég prjónaði mér garngönguhúfuna í ágúst, skömmu eftir að uppskriftin kom út.
Ég notaði Kambgarn og prjóna 3,5, og passar hún mér ágætlega.
Þetta var ágætis kennsla í stuttum umferðum, og  uppskriftin mælti með að nota "German Short Rows".  Mér finnst sú aðferð koma ótrúlega vel út.
Ég komst hins vegar ekki í garngönguna að þessu sinni, en ætla að nota húfuna þegar fer að kólna.

þriðjudagur, 10. september 2019

Heimferðarsett


Fjórða barnabarnið okkar hjóna bættist í hópinn þann 4. september.
Í þetta sinn var það drengur, en við eigum þrjár stelpur fyrir.
Foreldrarnir völdu uppskriftir og liti í heimferðarsettið.
Peysan, buxurnar, vettlingarnir og  húfan með tölunum er úr Klompelompe bókunum, hjálmhúfan úr Babystrik pa pinde 3 og sokkarnir og trefillinn eru í grunninn frá Prjóna Jónu, en með munstrinu úr peysunni, og eins hef ég sokkana aðeins grynnri en uppskriftin segir til um.
Drengurinn fór heim í fötunum, þau eru aðeins of stór ennþá, en hann vex fljótlega upp í þau og upp úr þeim.

mánudagur, 2. september 2019

Sporabók - Stitch Bible


Fyrir nokkru saumaði ég öll sporin sem eru í Husqvarna Epic 980Q saumavélinni minni.
Ég hef gert þetta áður með aðrar vélar sem ég hef átt, en ekki svona skipulega.

Vélin hefur helling af saumum, og í þessu verkefni kom í ljós að ég á allt sem ég þarf til að geta saumað það sem hún býður upp á.

Svo er gott að fara í gegnum alla sauma. 
Maður lærir af því, og er þá búinn að prófa allt.


Sporunum er skipt í 19 flokka í saumavélinni.

Þeir eru merktir með bókstöfum.

Ég notaði ákveðinn lit á tvinna fyrir hvern flokk, og setti bókstafinn fremstan þegar nýr flokkur byrjaði. Ég hafði alltaf flíselín undir efninu.
Þegar öll sporin voru saumuð þá saumaði ég saman tvö spjöld, þannig að til varð framhlið og bakhlið.


Hér að ofan eru spor sem gera ráð fyrir litlum steinum sem maður límir á efnið.
Keypti þá í Twill í nokkrum litum.

Svo eru pallíettuspor, vélin saumar pallíettuna á.
Lenti reyndar í vandræðum með að finna réttar pallíettur, hún tekur ekki kúptar, og ég fann hvergi annað en þannig í búðunum hér.  Endaði á að kaupa sléttar á Ebay.

Ég get saumað þvottaleiðbeiningar.....

Svo er hægt að sauma í ýmsar áttir án þess að snúa efninu.

Og hér er eitt dæmi um hvað hægt er að gera, notaði grófan ullarþráð.

Hér geymi ég svo allar prufurnar.