Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 31. janúar 2024

Dúkkuföt

Einhvern tíma í haust fór ég í tiltektir og fann í prjónapoka nokkrar ókláraðar prjónaflíkur á dúkkur. Ég dreif mig í að klára þær því ég þoli ekki að eiga hálfkláraða handavinnu hingað og þangað. Þetta voru sem sagt flíkurnar á myndinni hér að ofan. Ég bætti reyndar við tveimur nærbolum eins og þessum bleika.

Og fyrst ég var komin i dúkkufataprjón þá hélt ég áfram og prjónaði þrjár peysur, allar úr mismunandi garnafgöngum, og pils.

Flíkurnar efst í vinstra horninu á myndinni hér að ofan eru úr Klompelompe bókum, en peysurnar og nærbolirnir eru úr Sy&strikk dukkeklær eftir Anne Grethe Gaaserud.
 

mánudagur, 22. janúar 2024

Jólaveifur


 Um jólin skipti ég út veifum sem ég hef annars alltaf hangandi í dyraopi inn í eldhús. Ég fann teikningu af útlínum trés á netinu og saumaði eftir þeim í jólaleg efni. Efnið lagði ég saman tvöfalt með flíselíni á milli, nældi sniðið ofan á og saumaði með beinu spori í kringum það. Svo klippti ég í kring og festi allt saman með skábandi að ofan. Ætlaði ekki að tíma að taka þau niður. 

fimmtudagur, 11. janúar 2024

Þriðja Bugðan

Ég prjónaði þriðju Bugðuna í haust. Ég átti allt garnið í hana, var hálfgert í vandræðum með þennan bláa lit, keypti hann í ákveðið verkefni fyrir nokkrum árum en gat svo ekki notað hann. En með þessum litum sem ég hafði með honum varð ég mjög ánægð með útkomuna. Var svo heppin að geta gefið hana í afmælisgjöf í fjölskyldunni þar sem afmælisbarnið elskar þennan lit.

Mér finnst svo gaman að raða saman litum í þessa uppskrift. Þrír litir eru akkúrat nóg fyrir mig og mína litapallettu og alltaf spennandi að sjá útkomuna í þessu sjali.

Ljósgrái liturinn er frá Hexhex og hinir tveir frá Vatnsnesyarn. Uppskriftin er eftir Eddu Lilju í Prjónabúð Eddu. Ég notaði prjóna nr. 4.

 

sunnudagur, 7. janúar 2024

Jerseykjole med sving for barn

Ég sting oftast einhverju mjúku með í jólapakkana handa ömmubörnunum, yfirleitt náttfötum. Núna datt mér allt í einu í hug að sauma á þau öll. Ég vissi af sniði af kjól frá Ida Victoria en hafði aldrei hugsað út í að ég gæti saumað hann á stelpurnar. Sniðið er í stærðum frá 74 upp í 146. Ég dreif mig í að panta sniðið og efnið í nóvember og náði að sauma í tæka tíð.

Fjögurra ára ömmustrákurinn fékk svo bol. Ég tók mál af honum þegar hann var hjá mér án þess að hann fattaði neitt hvað væri í gangi og gat þannig haft bolinn síðari en sniðið sagði því drengurinn er frekar langur og grannur.

Þær mættu allar í kjólunum í árlegt jólaboð fjölskyldunnar milli jóla og nýárs, og sem betur fer pössuðu þeir vel. Ég á ekki mynd af piltinum í sínu því eins og sönnum herramanni sæmir kom hann í dökkum buxum, hvítri skyrtu, í vesti og með slaufu í boðið.

Sniðið er sem sagt Jerseykjole med sving for barn frá idavictoria.no og efnið pantaði ég frá stofflykke.no. Sniðið af bolnum er Onion snið 20047 (hef áður saumað nokkra kjóla á stelpurnar eftir kjólasniði úr sama pakka) og efnið fékk ég í Föndru.

Stærðin á 8 ára stelpurnar er 140 og á þá 6 ára 128. Bolurinn á 4 ára strákinn er í stærð 116.

 

mánudagur, 1. janúar 2024

Janúarálfur 🎉 Gleðilegt ár!

Gleðilegt ár! Síðasti álfurinn heilsar árinu, sá sem ég set upp á vegg í janúar. Efnið í hattinum hans minnir á stjörnubjartan himin og svo notaði ég silfraðan tvinna, af því að áramótunum fylgir jú alltaf smá glit og glimmer. Tvinninn gefur svipaða áferð og metalic tvinni en er úr polyester og mjög auðveldur í notkun. Fékk hann í Pfaff. Nú er þetta verkefni búið, komnir tólf álfar, og hver og einn fær sinn mánuð til að skreyta vegginn. 

Hér fyrir neðan eru þeir svo allir í réttri röð.