Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 27. desember 2016

Peysur á litlu dömurnar

 Litlu ömmustelpurnar mínar stækka, og þá þarf að prjóna nýjar flíkur.
Uppskriftin að gráu og bleiku peysunun er úr Klompelompe 2, og garnið í þær er keypt í Gallery Spuna, Drops Baby Merino.

Svo pantaði önnur mamman hvíta sparipeysu. Hún er prjónuð úr Lanett, keyptu í Rokku í Fjarðarkaupum.
Hvítu peysuna prjónaði ég eftir hugmyndum héðan og þaðan, og skeljamunstrið fann ég í Prjónabiblíunni.

mánudagur, 12. desember 2016

Lítil veggmynd

Ég fékk að láni bók á bókasafninu í Hafnarfirði sem heitir Here comes winter eftir Jeanne Large og Shelley Wicks, og sá meðal annars þessa litlu jólalegu vetrarmynd. Ég skellti mér í að sauma hana, líka til að æfa mig á nýju saumavélina mína, sem ég keypti í haust. Ég hengdi hana upp sem jólamynd en kannski fær hún að hanga aðeins áfram sem vetrarmynd.

föstudagur, 11. nóvember 2016

Bionic Gear Bag 2

Þá er ég búin að sauma tösku handa eiginmanninum, eins og ég sagði frá í síðustu færslu.

Ég var mikið fljótari núna, og valdi litina með hann í huga, hafði þá dálítið dempaða og dökka.

þriðjudagur, 1. nóvember 2016

Bionic Gear Bag

Sniðið af þessari tösku keypti ég fyrir mörgum mánuðum. Leiðbeiningarnar eru á mörgum blaðsíðum, svo mér óx í augum að sauma hana. Tók mér góðan tíma, og hér er hún.
Ég er strax byrjuð á annarri því eiginmaðurinn pantaði eina til að nota á ferðalögum undir snúrur, græjur, lesbrettið og þess háttar.
Efnin í ytra byrðinu keypti ég í Edinborg fyrir fimm árum, komin tími til að nota þau. Þetta var pakki með 5" bútum frá Moda.
Sniðið fæst á craftsy.com.

þriðjudagur, 4. október 2016

föstudagur, 30. september 2016

Rumputuski

 

Já, það er skrítið nafnið á þessum krögum.

En uppskriftin er úr bókinni Leikskólaföt, og eru þeir prjónaðir úr tvöfaldri Englaull frá Litlu prjónabúðinni.

Og að sjálfsögðu eru þeir gerðir á Ylfu Karlottu og Auði Kötlu, ársgömlu ömmustelpurnar mínar.

 

þriðjudagur, 13. september 2016

föstudagur, 2. september 2016

Heimferðarsett úr Klompelompe

 

Í sumar eignaðist ég lítinn frænda, varð afasystir eina ferðina enn :)

Ég prjónaði heimferðarsett upp úr Klompelompe.

Garnið keypti ég í Gallery Spuna í Grindavík, Drops baby merino.

 

sunnudagur, 21. ágúst 2016

Bróðir minn Ljónshjarta

 

Litlu ömmustelpurnar mínar eru duglegar við allt, líka að stækka.

Þær þurftu því nýjar peysur fyrir veturinn.

Fyrir valinu varð uppskriftin Bróðir minn Ljónshjarta úr bókinni Leikskólaföt. Garnið heitir Geilsk tweed og fæst í Litlu prjónabúðinni.

Ég valdi stærð á tveggja ára þótt þær séu báðar nýorðnar eins árs, en það var ekki svo mikill stærðarmunur á stærðunum á eins og tveggja ára. Ermarnar verða bara brettar upp til að byrja með.

 

mánudagur, 15. ágúst 2016

Prjónagallar

 

Mér skilst að öll lítil börn þurfi að eiga svona prjónagalla núna.

Ömmustelpurnar mínar, báðar nýorðnar eins árs, þurftu því að fá sinn gallann hvor.

Ég valdi að sleppa lopanum en notaði Karisma ullargarn frá Drops, keypt í Gallerý Spuna í Keflavík.

Uppskriftin sem ég studdist að mestu við er frí á heimasíðu Ístex, en munsturbekkinn fann ég í Lopa 28.

 

fimmtudagur, 28. júlí 2016

Gullgutten-genser

 

Úlfur Darri, frændi minn, fékk þessa peysu frá mér í afmælisgjöf þegar hann varð tveggja ára í apríl.

Uppskriftin er úr Klompelompe, og ég notaði garnið sem gefið er upp í peysuna, Sandnes alpakka.

Stærðina hafði ég á 3-4 ára.

 

sunnudagur, 26. júní 2016

Blöðrubuxur

 

Þessar blöðrubuxur, eða Ballon bukser prjónaði ég á ömmustelpurnar mínar. Þær eru ótrúlega sætar á litlum bleyjurössum;)

Uppskriftin er úr bókinni Babystrik 0-18 mdr. eftir Susie Haumann.

Garnið heitir Geilsk bomuld og uld, frá Litlu prjónabúðinni, og þar fæst bókin líka.

Stærðin er á 6-12 mánaða.

 

þriðjudagur, 7. júní 2016

Stærri samfellur

 

Barnið vex en brókin ekki.

Mamman pantaði stærri samfellur á aðra ömmustelpuna mína, en sú hefur verið í svona samfellu næst sér frá fæðingu.

Þetta er þriðja stærðin sem ég prjóna á hana, stærð 74/80.

Eins og síðast notaði ég Sandnes alpakka.

Uppskriftin er frá askeladen.dk, og ég veit að hún fæst á netinu hjá þeim, og heitir Body i Silkeuld.

 

sunnudagur, 29. maí 2016

Trultemor-buksedress

 

Þessar smekkbuxur prjónaði ég á ömmustelpurnar mínar. Stærðin er á eins árs.

Uppskriftin er úr norsku bókinni Klompelompe, sem ég eignaðist í vetur og er búin að prjóna nokkrar flíkur upp úr.

Garnið er frá Drops, keypt í Gallerý Spuna. Bleiku buxurnar eru úr Drops Belle, og þær bláu úr Drops Cotton Merino.

 

mánudagur, 4. apríl 2016

Alda

 

Þetta er kjóllinn Alda. Hann er prjónaður úr Alba sem fæst í Litlu prjónabúðinni.

Uppskriftin er líka í 1. tölublaði Húsfreyjunnar frá 2014, og notaði ég hana.

Stærðin er bara upp í 9 mánaða, svo ég dreif mig í að prjóna kjólana. Þegar maður á tvær jafngamlar ömmustelpur, verður maður að gera eins á báðar, og ég á mjög erfitt með að velja mismunandi liti handa þeim. Það gerist bara ef foreldrarnir velja litinn.