Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 14. júní 2021

Alise finjakke

Fyrir fjórum árum prjónaði ég svona peysur á tvær eldri ömmustelpurnar. Önnur þeirra notaði sína peysu sérlega mikið, og man ég eftir henni í henni bara fyrir nokkrum mánuðum. En þær peysur voru prjónaðar í stærð fyrir tveggja ára, og stelpurnar verða sex ára í sumar! Ótrúlegt hvað peysan hefur enst lengi á henni.

Þess vegna skellti ég í aðra og hafði hana á sex ára að þessu sinni. Notaði sama garn og síðast, Mandarin petit, sem kemur mjög vel út í þessum peysum.

Bakstykkið er alveg sérlega fallegt og gaman að prjóna það. Þessi peysa er mjög fín yfir alls konar kjóla. Uppskriftin er úr Klompelompe, strikk året rundt. Ég tek það fram að peysan er snjóhvít, en einhvern veginn varð hún það ekki á myndunum, sama hvað ég reyndi.

 

fimmtudagur, 10. júní 2021

Borðmottur

Þessar borðmottur eru minni en aðrar sem ég hef saumað, enda ætlaðar í húsbílinn okkar, þar sem matborðið er lítið. En þar sem plastdiskarnir og bollarnir eiga það til að renna aðeins til á borðinu þegar við fáum okkur að borða og hallinn á bílnum kannski ekki alveg réttur, þá þurfa að vera mottur.

Ég mældi út hvað þær þyrftu að vera stórar til að rúma það sem við notum, og eru þær 35 x 21 sm. Svo á ég þetta skemmtilega munstur í útsaumsvélinni, upplagt að nota það. Öll efnin, nema einlita hörefnið, voru keypt á bílskúrssölu í Grafarvoginum í vetur og vor. Þar keypti ég falleg efni í kílóavís á frábæru verði, alls konar gömul og nýleg efni úr Virku. Fór nokkrar ferðir, dugði ekki minna. Fékk slatta af Thimbleberries efnum, sem hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá mér en eru hætt í framleiðslu.


 Svo stakk ég með nokkrum gerðum af bútasaumssporum sem eru í saumavélinni minni.