Heildartala yfir síðuflettingar

föstudagur, 30. desember 2011

Jólakönnumottur

Ég hafði nú hugsað mér að sauma svona könnumottur fyrir jól, en gerði þær í gær. Ég er líka hætt að miða alltaf við næstu jól, það koma jól á hverju ári, og hlutirnir fá bara sinn tíma til að klárast.
Ég fór eftir sniði frá Elínu Guðjónsdóttur, en af því mig langaði fyrst að búa til svona litlar mottur, þá teiknaði ég blokkina upp í EQ7, og saumaði með pappírssaumi í minni stærð en uppgefnar eru hjá henni. Svo notaði ég nokkur af þeim 222 sporum sem eru í dásamlegu saumavélinni minni, og eru þá 3 leturgerðir ekki taldar með. Þó maður noti kannski svona spor ekki mikið, þá segi ég eins og góð kona sagði: Ég vil frekar hafa öll þessi spor og þurfa aldrei að nota þau, heldur en að hafa þau ekki og þurfa á þeim að halda. Ég valdi jólalegustu mótífin.
Sniðið hennar Elínar fæst í Quiltkörfunni í Faxafeni.

þriðjudagur, 27. desember 2011

Theodóra á peysufötum

Þessa dúkku, hana Theodóru, prjónaði ég í haust að mestu, en átti svo eftir alls konar smáfrágang, sem ég var að ljúka við í dag.
Undir peysufötunum er hún í klukku og nærbuxum. Ég átti klukku þegar ég var pínulítil, og man eftir því.
Þetta eru peysufötin, og í skónum eru meira að segja íleppar! Dúkkan og flest fötin eru prjónuð úr léttlopa, en skór og sokkar, ásamt íleppunum, eru úr einbandi. Uppskriftin er keypt hér.

mánudagur, 12. desember 2011

Prjónaskapur af ýmsu tagi

Hún Úlfhildur Sjöfn, litla frænka mín, varð 4 ára þann 10. desember, og þá færði ég henni þessa lopapeysu. Uppskriftin er á heimasíðu Ístex.

Litla systir hennar, Salvör Veiga, þurfti að fá jólasveinahúfu til að vera eins og stóra systir. Ég prjónaði eins húfu á Úlfhildi Sjöfn fyrir tveimur árum. Uppskriftin er hér.

Þegar ég var búin að prjóna alla sokkana hér að neðan úr afgöngum af léttlopa, sem safnast reglulega upp hjá mér, náði ég að prjóna þetta teppi með Dómínó aðferðinni, og kláraði fullt af litlum hnyklum. Ég gerði ekki kant, því ég er að hugsa um að geyma það og bæta við það seinna þegar meiri afgangur safnast upp. Það eiga að vera takkar kringum teppið.

Þessi 12 sokkapör ásamt 7 öðrum, samtals 19 pör af sokkum á tveggja, fjögurra og sex ára, setti ég í verkefnið Jól í skókassa sem KFUM og K heldur utanum hvert ár.

Svo datt ég í jólakúluprjón og er búin að prjóna 12 kúlur. Ég prjóna eftir uppskrift frá Prjóna Jónu, sem er að finna á Facebook síðu hennar. Ég nota léttlopa og prjóna no. 4. Ég fékk þennan fallega jólarauða lit í Handprjónasambandinu, en mér skilst að þetta sé sérlitað fyrir það og bara selt þar. Það er með fleiri liti sem Ístex sérlitar fyrir það.
Ég hengi kúlurnar neðan í hringstigann okkar.


Loks er hér mynd af prjónuðum umbúðum utan um pakka, sem ég fór með á jólahlaðborð í vinnu mannsins míns. Þar var pakkaleikur, og sú sem fékk þennan var mjög ánægð með hann og það staðfesti fyrir mér að fólki finnst vænt um að fá handunna hluti.

 

sunnudagur, 27. nóvember 2011

Jóladúkur

Þennan jóladúk var ég að sauma og á hann að vera á eldhúsborðinu.
Sniðið fann ég í blaði sem fæst ennþá í Eymundsson og heitir Quilting Celebrations.
Það er gefið út af Patrick Lose, og hef ég verið að horfa á hann á QNN. Þótt ég sé ekki hrifin af öllu sem hann gerir er líka margt áhugavert hjá honum. Hann applíkerar mikið í saumavél, og notar gjarnan satínsporið til þess eins og ég hef gert hérna, en í þessum dúk bregður hann út af vananum og lætur gera það fyrir sig í höndunum. Með öllu þessu má fylgjast á QNN í nýjustu þáttunum hans.

laugardagur, 12. nóvember 2011

Teppi á nýjan vegg

Hugmyndina að þessu teppi fékk ég í tímariti á bókasafninu fyrir nokkrum árum. Ég geymdi hana í EQ og nú er ég loksins búin að sauma það.
Það er samt nokkuð breytt, og blokkirnar fékk ég úr EQ7.

mánudagur, 10. október 2011

Skólateppi

Hvað er meira viðeigandi fyrir kennara en að sauma lítið veggteppi, sem minnir á skólabyrjun að
hausti?
Teppið er af sama diski og það, sem ég sýndi í þar síðustu færslu.
Ég þurfti reyndar að breyta stærðinni, og gerði það með hjálp EQ7. Ég minnkaði teppið töluvert til að láta það passa á þann vegg, sem ég ætlaði því.
Þetta var fyrsta verkefnið sem ég stakk á nýja saumaborðinu, og það var æði.

föstudagur, 7. október 2011

Nýtt saumavélarborð

Í sumar var ég alveg með það á hreinu að mig vantaði saumavélarborð, þar sem saumavélin væri felld ofan í borðið. Mér finnst mjög vont að stinga stór teppi á þessum akrýlborðum sem fylgja vélunum sem bútasaumsborð. Það vill togast í teppin og er bara erfitt að mata vélina jafnt. Ég var búin að finna borð á netinu og ætlaði að panta þetta borð í gegnum ShopUSA. Það kostar 249 dollara en hingað komið var það á 70 þúsund!! Ég tímdi því alveg, því kosturinn við þetta borð er að það er fyrirferðarlítið og hægt að leggja það saman með örfáum handtökum.
En þá greip eiginmaðurinn inn í og bauðst til að smíða svona borð fyrir mig, enda er hann bæði einstaklega handlaginn og viljugur. Og nú er borðið tilbúið. Hann hafði stærðina á ameríska borðinu til viðmiðunar, en við gátum samt haft það aðeins lengra, eins og okkur fannst henta. Það er fest með festingum við gamla saumaborðið, og er algjörlega stöðugt fyrir vikið, og svo myndast mjög gott pláss á borðinu fyrir aftan til að taka við teppunum, því það er hornborð.
Svo vissi hann að ég vildi geta tekið borðið saman með örfáum handtökum og geymt það og því þyrfti að vera hægt að leggja fæturna saman. Ekki málið.....þá gerði hann það bara þannig.
Og rúsínan í pylsuendanum.....hann lét líka sníða heila plexíglerplötu til að ég gæti notað það sem ljósaborð þegar ég þyrfti, alveg eins og hægt er að gera á ameríska borðinu! Þetta borði kostaði sama og ekki neitt. Hann fékk MDF plötur hjá Húsasmiðjunni, fætur í IKEA og plexíglerplöturnar í Akron.

miðvikudagur, 5. október 2011

Starry Night

Þetta litla, haustlega veggteppi var ég að klára og hengdi það upp í eldhúsinu. Munstrið er fengið af diski, sem ég pantaði frá Electric Quilt Company, og hefur að geyma snið og leiðbeiningar að bútasaumsmyndum eftir þær Cori Dereksen og Myra Harder.
Ég hef áður saumað eftir munstri frá þeim og er mjög hrifin af þeim. Það leið ekki nema rúm vika frá því ég pantaði diskinn og þar til hann var kominn í hús.

mánudagur, 3. október 2011

Vesti

Þetta vesti prjónaði ég fyrir nokkrum vikum. Það er úr Lopa og bandi, nýja blaðinu sem gefið var út í haust.
Í stroffið er notaður tvöfaldur plötulopi, en í bolinn einfaldur plötulopi og einband.

mánudagur, 12. september 2011

Haustlöber

Þennan dúk sá ég í blaðinu "Fons and Porter´s Love of Quilting", nýjasta tölublaðinu.
Hann er applíkeraður í vél með tunguspori.
Hann liggur nú á sófaborðinu mínu og gefur stofunni smá haustblæ.

sunnudagur, 4. september 2011

Bleiubuxur

Þegar ég fór í sumarbústað í sumar hafði ég með mér garn og uppskrift að bleiubuxum. Ég byrjaði sem sagt að prjóna þær þar og hélt svo áfram fram eftir sumri. Mér fannst skemmtilegt að prjóna þetta og uppskriftin lærist fljótlega.

Ég sendi þær allar í Rauðakrossinn til að styðja þetta verkefni RKÍ. Ég prjónaði 20 stykki, helminginn á 3ja mánaða og hinn hlutann á 9 mánaða. Uppskriftin er úr "Garn og gaman" eftir Prjónajónu. Ég notaði ungbarnagarn úr ull af ýmsum tegundum, aðallega Lanett, Smart og Trysil.

 

föstudagur, 26. ágúst 2011

Skólataska

Mig bráðvantaði tuðru til að hafa með í vinnuna fyrir nestið, pappíra og prjónana (þeir eru nauðsynlegir á löngum fundum og námskeiðum - skerpa athyglina). Ég fann ekkert sem mér líkaði, og þá var ekki annað í boði en að sauma hana sjálf.
Ég átti efni með gamaldags skólamyndum sem ég keypti fyrir 12-14 árum í Glugghúsi í Hafnarfirði, en vissi aldrei hvað ég átti að gera við það. Ég tók það fram í gær og saumaði þessa tösku, og fór með hana í vinnuna í morgun - og er ánægð með útkomuna.
Ég er svakalega veik fyrir svona panelum, og þetta efni með saumavélunum keypti ég í Virku fyrir stuttu, og er búin að plana veggteppi með myndunum. Ég er líka svo hrifin af saumavélamótívinu sem slíku.
Svo kom ekkert annað til greina en að kaupa þetta í Quiltkörfunni í vetur, en hvað ætti ég að gera úr því? Mér dettur eitthvað í hug þótt síðar verði.
Mér finnst bara gaman að taka þetta efni upp og skoða það af og til.
Svo stóðst ég ekki mátið og keypti þetta jólaveggteppi í Bót á Selfossi í sumar. Mér finnst það bara svo fallegt, og hlakka til að búa til ramma og fá svo að stinga það af hjartans lyst.

mánudagur, 22. ágúst 2011

Mug Rug

Þessa könnumottu saumaði ég eftir pöntun. Þetta er bara önnur mottan sem ég sauma, en sú fyrri hefur verið í daglegri notkun síðan hún var saumuð. Gerði þessa eftir sama formi og hina í EQ7 en skipti bara um mynd.

sunnudagur, 14. ágúst 2011

Motta undir rokkinn

Fyrr í sumar var ég svo heppin að fá rokkinn hennar ömmu til eignar, en móðursystir mín hafði varðveitt hann. Amma var fædd árið 1899, og fékk rokkinn 15 ára gömul og spann á hann alla sína ævi. Hann er nettari en margir rokkar.
Ég heklaði mottu undir hann eins og ég sá undir rokkunum á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi í sumar. Uppskriftina fann ég í eldgömlu, sænsku heklublaði, Marks, en við mamma söfnuðum þeim hér áður fyrr og hekluðum í gríð og erg.

Hlaupastelpan á rokknum var týnd, en hún kemur ábyggilega í leitirnar síðar. Ég fékk hins vegar rokkasmið í Grafarvoginum, sem þær hjá Heimilisiðnarðarfélaginu bentu mér á, til að smíða nýja hlaupastelpu, og tókst það svona vel.
Svo fylgdi snældustokkurinn með, en ég á eftir að setja á hann hnykla.
Hér eru myndir af rokkunum frá Blönduósi,
og þar fékk ég hugmyndina að mottunni. Hún er hekluð úr léttlopa.

mánudagur, 8. ágúst 2011

Ný lopapeysa

Ég get ekki sagt að mig hafi VANTAÐ nýja lopapeysu, en bætti þó þessari í safnið í sumar af því að mig langaði í ljósa peysu. Ég prjónaði dökka í fyrra, og er hún mikið notuð. Þessi er prjónuð á prjóna nr. 7 úr tvöföldum plötulopa. Tölurnar eru úr skelplötu.