Heildartala yfir síðuflettingar

föstudagur, 20. nóvember 2020

Verkefnataska


Enn ein verkefnataskan orðin til. Ég hef alltaf þörf fyrir þessar undir prjónadót og ýmislegt annað.  Þessi er stór og góð.

Munstrið saumaði ég í útsaumsvélinni minni góðu í hör, og er það eins framan og aftan á töskunni. 


 

sunnudagur, 15. nóvember 2020

Barnasokkar úr Fabel


 Þá eru öll barnabörnin búin að fá ullarsokka fyrir veturinn.  Ég fór eftir uppskrift frá Garnstudio.com og notaði Fabel garn eins og gefið er upp í uppskriftinni. Stroffið er hátt og gott, en sokkbolurinn varð alltof þröngur miðað við lengd, svo ég fækkaði verulega úrtökum eftir stroffið og hælinn. Þá urðu þeir fínir. Þeir eru á tvær fimm ára og eina þriggja ára skvísur og ársgamlan gæja.

Uppskriftin er hér.

þriðjudagur, 10. nóvember 2020

Dúkkukjólar


 Dúkkurnar fengu aftur föt fyrir nokkru. Efnin eru öll afgangar af kjólum sem ég saumaði á ömmustelpurnar. Ég vatt mér í þetta til að prófa nýja overlockvél sem ég fékk mér fyrir rúmum mánuði. Segi betur frá henni seinna. En þetta var ágætis æfing. Dúkkufötin hér aðeins neðar á síðunni voru líka saumuð næstum alfarið á þessari nýju vél.
Sniðið af kjólunum er frá Norlin.

miðvikudagur, 4. nóvember 2020

Vörðuklettur

Ég tók þátt í samprjóni Svalra sjala á fb í september. Mjög skemmtilegt samprjón sem er reyndar nýlokið, en ég var frekar fljót með sjalið. Garnið keypti ég hjá Kristínu í Vatnesyarn í sumar, ætlaði reyndar að prjónað annað úr því en fannst það passa vel í þetta sjal. Mjög ánægð með afraksturinn og nota það mikið.