Heildartala yfir síðuflettingar

laugardagur, 22. desember 2012

Jólin koma

Ég hef ekki getað hætt að prjóna jólakúlurnar, og er búin með 80 stykki núna. En nú prjóna ég úr einbandi, og hér að ofan eru kúlur í þremur stærðum. Þær stærstu eru prjónaðar úr kambgarni á prjóna nr. 3, og framan við þær eru kúlur prjónaðar úr einbandi á prjóna nr 2. Fremstu kúlurnar eru úr sama garni og með sömu prjónastærð, en þær prjóna ég mjög fast og hengi á jólatré.

 

Svona lítur forstofuglugginn út.

Svona jólatré var á heimili foreldra minna þegar ég var að alast upp. Þetta tré fékk ég úr búi tengdaforeldra minna, og á það hengi ég bara heimagert skraut, og hef það í holinu.

Gleðileg jól!

 

þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Lambhúshetta

 

Fyrr í haust prjónaði ég þessa lambhúshettu á sjálfa mig. Ég notaði kambgarn og mohair, einn þráð af hvoru.

Uppskriftin er úr Lopa 32, og er þar prjónað úr léttlopa. Prjónafestan reyndist sú sama hjá mér og þeirri sem gefin er upp í bókinni.

 

þriðjudagur, 13. nóvember 2012

Jólakúlur a là Arne&Carlos

Undanfarið hef ég verið að prjóna jólakúlur upp úr bók þeirra Arne og Carlos, Julekuler. Ég pantaði mér hana á ensku í byrjun árs, en var ekkert farin að prjóna upp úr henni þar til nú.

Og þegar maður er byrjaður er ekki hægt að hætta. Ég er búin að prjóna allar 55 uppskriftirnar, og gerði tvær aukalega af einni þeirra. Ég set ekki lykkju í þær strax, mér finnst fallegt að láta þær liggja nokkrar saman í skál eða körfu o.s.frv. Ég notaði kambgarn og prjóna nr. 3, og fyllti þær með ullarkembu eins og höfundarnir mæla með.

Rúsínan í pylsuendanum er svo sú að mér gafst tækifæri til að hlusta á fyrirlestur þeirra í Norræna húsinu fyrir rúmri viku, þar sem þeir voru hér á landi til að fylgja eftir íslenskri þýðingu á bókinni. Ég keypti íslensku bókina þótt ég ætti hana á ensku, og fékk áritun hjá þeim á báðar bækurnar.

fimmtudagur, 1. nóvember 2012

Nýr kjóll

Þennan kjól saumaði ég mér í vetrarfríinu fyrir skömmu. Ég er kjólakona, og er yfirleitt ánægðust með þá sem ég sauma sjálf, en sparikjóla kaupi ég nú samt. Efnið er keypt í Handalín, og sniðið er frá Onion, númer 2035.

miðvikudagur, 17. október 2012

Heklaðar bjöllur

 

Þessar bjöllur heklaði ég fyrir löngu síðan. Nú er ég búin að setja þær á 20 ljósa seríu og hengja upp.

Mér finnst þær ekkert sérlega jólalegar svona hvítar, en ég var líka löngu búin að hekla 20 rauðar, sem ég er að stífa með sykurvatni núna, og þær fá að bíða aðventunnar.

 

mánudagur, 8. október 2012

Heklað utan um krukkur

Loksins kom ég því í verk að hekla utanum krukkur. Og fyrst ég er byrjuð, þá get ég ekki hætt. Hér er sýnishorn af því sem ég hef gert.

Nokkrar rauðar bíða jólanna.

Ég var búin að leita að uppskriftum um allt, fann lítið, en ákvað svo að hafa krukkurnar hjá handod.blogspot.com til hliðsjónar, því mér finnast þær flottar hjá henni. Svo er hægt að hekla eftir lagi krukkunnar með þessu munstri.

 

mánudagur, 17. september 2012

Vesti á eiginmanninn

Fyrir löngu síðan bað eiginmaðurinn mig að prjóna á sig vesti. Ég mundi eftir að hafa séð vestisuppskriftir úr fínu garni fyrir mörgum árum, en fann engar lengi vel. Þá var ég svo heppin að rekast á réttu uppskriftina á blogginu Elsku mamma, og lauk við vestið í byrjun ágúst. Garnið er Sisu og uppskriftin er í þessu blaði.

miðvikudagur, 29. ágúst 2012

Fía

Þetta er hún Fía.

Ég er búin að sjá myndir af frænkum hennar og frændum víðs vegar á netinu.

Hún er pínu pjöttuð og er hér búin að setja á sig hálsmen og eyrnalokka.

Þetta er bókin með uppskriftinni að þessari flottu dúkku og uppskriftum af alls konar fatnaði. Ég keypti hana á amazon.co.uk, og er hún eftir þessa frábæru náunga, Arne og Carlos, sem sitja fyrir framan á bókarkápunni. Á youtube er hægt að sjá mörg skemmtileg viðtöl við þá um jólakúluprjón og dúkkurnar.

miðvikudagur, 22. ágúst 2012

Zakka pennaveski

Mig vantaði nett pennaveski fyrir vinnuna til að hafa í töskunni.

 

Uppskriftina fann ég í þessari bók, sem ég pantaði á amazon.co.uk.

Ég notaði hör og efni frá Guðrúnu Erlu.

Zakka er hugmyndafræði sem gengur út á að búa til sjálfur það sem mann vantar, og til að gefa öðrum. Í bókinni eru 25 uppskriftir frá jafnmörgum höfundum.

laugardagur, 11. ágúst 2012

Hús saumuð úr afgöngum

Hér kemur afrakstur sumarsins í bútasaumi. Ég er alltaf hrifin af húsamótífum, og hér á síðunni minni er tengill í blogg sem heitir Building Houses from Scraps. Ég hef ekki skoðað síðuna mjög nákvæmlega, en mér sýnist þetta vera hópur, þar sem allar eru að sauma hús úr afgangsbútum eingöngu, og flestar í höndum. Mér skilst, að sú sem á síðuna síðuna, selji snið.

Ég fann einhvers staðar út að þetta væru 3" blokkir, og bjó mér til snið í EQ7 og saumaði með pappírssaumi. Teppið varð ca. 20x20" að stærð.

Ég var mjög samviskusöm og notaði bara búta úr afgangakassanum mínum í húsin sjálf. Sumir eru eldgamlir, og gaman að kynnast þeim aftur.

Að lokum lét ég verða af því að merkja teppið. Ég á fullt af þessum merkimiðum úr taui, og þarf að taka skurk og merkja nokkur eldri teppi og dúka. Ég er með textann í minninu á saumavélinni, svo þetta á að vera lítið mál.

mánudagur, 30. júlí 2012

Sokkar á afrískar tær


Þessir sokkar hafa verið sumarprjónaskapurinn minn þetta árið. Tilefnið er það að hópur Íslendinga rekur barnaheimili fyrir börn í Afríku á aldrinum 6 mánaða til 6 ára. Ég þekki eina í hópnum, og ætlar hún að heimsækja heimilið í haust og langar að hafa með sér sokka, því þarna verður gjarnan kalt á nóttunni.

Mig langaði að taka þátt í þessu verkefni og prjónaði 21 par, þrjár stærðir, sjö pör af hverri stærð, frá 6 mánaða til 2 ára. Ég notaði ungbarnagarn af ýmsum sortum, og uppskriftin er á garnstudio.com.

 

sunnudagur, 1. júlí 2012

Ungbarnaföt

Þetta ungbarnasett prjónaði ég í vetur á litla frænku mína, Hrafnhildi Sjöfn, sem fæddist 8. júní.

 

Mamma hennar valdi að hafa það dökkfjólublátt á litinn. Uppskriftirnar eru úr ungbarnablöðum Tinnu.

 

Uppskriftin af skónum er á netinu. Ég hef prjónað þá áður, og er færsla og tengill í uppskriftina annars staðar á blogginu.

 

miðvikudagur, 27. júní 2012

Könnumottur - mug rugs og "give away" hjá LeKaQuilt

Nú er ég búin að sauma fjórar könnumottur til viðbótar við þær sem ég átti. Það er gott að eiga nóg af þeim fyrir tefólk eins og okkur, sem berum með okkur tebolla út um allt hús.
Ég nota alltaf sama grunnsniðið, en breyti bara myndum og litum. Þá passa þær allar saman.


LeKaQuilt er með "give away" á blogginu sínu, og er með nokkra hluti sem hún hefur saumað.  Hún er ótrúlega flínk bútasaumskona, og er mjög dugleg að applíkera í höndum.  Endilega skoðið bloggið hennar.

  Hér er slóðin : http://lekaquilt.blogspot.com/