Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 22. október 2020

Snær sokkar


 Ég hef áður prjónað eftir þessari uppskrift á ömmustrákinn en mamman vildi fá sömu sokka aftur, bara aðeins stærri. Ég ákvað þá að prjóna bara á öll börnin fyrir veturinn.

 Uppskriftin er frá Petit Knitting. Ég prjónaði úr Drops merio extra fine. Uppgefin prjónastærð er nr. 4 og prjónaði ég fyrst allan sokkinn með þeim, en leistinn varð alltof laus þannig. Þess vegna hafði ég legginn með prjónum nr. 4 en leistann með 3,5, og svo var bara mátað. Þetta eru frekar þykkir sokkar, en fínir innan í rúm stígvél eða kuldaskó.

mánudagur, 19. október 2020

Heimferðarsett

Þetta heimferðarsett prjónaði ég í september fyrir lítið skyldmenni sem væntanlegt er í heiminn eftir örfáar vikur.  Þetta er fimmta barnabarn yngri bróður míns, og kynið opinberast fyrst við fæðingu.  Móðirin valdi litinn og ég valdi uppskrift sem mér finnst passa á bæði kynin. Uppskriftin er úr Klompelompe - strikk til hele familien, nema hjálmhúfan, sem er úr Babystrik på pinde 3 og hin húfan er úr Ungbarnahefti Prjónajónu. Grunnurinn að sokkunum er reyndar frá henni líka, en ég hef breytt þeirri uppskrift aðeins.  Garnið er frá Gallery Spuna, Drops baby merino, og réttu tölurnar finn ég alltaf í Litlu Prjónabúðinni.


 

þriðjudagur, 13. október 2020

Bútasaumsteppi á vegginn

Mig hefur vantað eitthvað fallegt á vegginn í forstofunni sem passaði í stærð.
Einhvers staðar á netinu sá ég svona blokkir og féll alveg fyrir þeim.
Ég veit ekki hvaðan þær eru eða hvað þær heita, en ég teiknaði svipaðar upp i EQ8 forritinu mínu og saumaði með pappírssaum.

Þær urðu 90 talsins.
Ég ákvað lika að hafa þetta svokallað “charm quilt” en þá er ekkert efni notað tvisvar.
Það þýddi að ég þurfti að taka fram 270 búta til að sníða úr auk efna í himinn, kant og bak, samtals 273 tegundir af efnum.

En það var gaman að sauma þetta og teppið lífgar svo sannarlega upp á vegginn í forstofunni.
Ég stakk í öll saumför og stakk svo með krákustíg með marglitum Gunold útsaumstvinna úr Pfaff.
Teppið er 101x147 cm að stærð.



 

sunnudagur, 4. október 2020

Myrull sjal

Þetta sjal prjónaði ég síðsumars. 

Það er úr norskri bók, sem heitir Sjal og skjerf, strikking hele året, eftir Bitta Mikkelborg. Ljósgráa garnið er frá Vatnsnesyarn, liturinn heitir Brot, og það svarta er Yaku frá Litlu prjónabúðinni. Fyrst fannst mér full mikið af gulum lit í ljósa garninu, en þegar ég setti svart með fannst mér þetta smella saman. Prjónarnir voru nr. 4. 

 

 


 

fimmtudagur, 1. október 2020

Dúkkuföt


Núna datt ég í smá dúkkufatasaum. 
Dúkkunum hefur fjölgað á heimilinu, því ekki dugir að eiga eina dúkku þegar ömmustelpurnar þrjár koma í heimsókn. Nú deilist líka fataeignin á þrjár dúkkur svo ég verð að eiga meira til skiptanna. 
Efnin sem ég notaði eru afgangar af kjólunum mínum og gamlir bolir af okkur hjónum.

Sniðin eru úr bókinni Sy & strikk dukkeklær eftir Anne Grethe Gaaserud.