Þetta teppi varð til alveg óvart. Ég hef stundum mikla þörf fyrir að sitja bara við saumavél og sauma. Þess vegna var ég byrjuð að sauma litlar blokkir af fljúgandi gæsum sem ég vissi ekkert hvað yrði úr.
Þær voru (auðvitað) saumaðar með pappírssaumi og sniðið kom úr EQ8 forritinu mínu.
Þá gerðist það sem gerist næstum aldrei að ég ráfaði inn á nytjamarkað og kíkti á handavinnublöðin, fann blað frá 2004 frá McCalls og keypti það ásamt einhverju fleiru. Í þessu blaði var mynd af teppinu fyrir ofan og frásögn af því hvernig það hafði verið samvinnuverkefni kvenna sem allar komu með nokkra búta.
Ég fór nú að skoða bútana mína og sá möguleikana, taldi hversu margar gæsablokkir væru í teppinu í blaðinu og þeir reyndust vera 100. Það var því ekki um annað að ræða en að spýta í lófana, prenta út pappírssniðið og halda áfram að sauma. Svo teiknaði ég teppið í EQ8 og prentaði út vinnublað til að ruglast nú ekki við samsetninguna.
Eins og sjá má eru margir ljósir ferningar á milli gæsablokkanna. Ég fann efni sem ég keypti annað hvort á bílskúrssölu eða úr dánarbúi og var búið að klippa niður í stóra ferninga. Mér tókst að fá fjóra litla ferninga úr hverjum þessara stóru svo þeir nýttust vel. Að lokum hófst ég svo handa við að gera það sem ég hef ætlað lengi að prófa en það var að stinga að hluta í útsaumsvélinni, því mér fannst að það yrði að vera eitthvað fallegt í þessum blokkum. Þetta eru 40 ferningar, auk þess sem þríhyrningarnir á jöðrunum eru líka stungnir, stakk þá eins og þeir væru heilir en fór útfyrir á vattið og skar svo af. Þannig þurfti ég að setja teppið 60 sinnum á segulrammann og í vélina. Þetta gekk ótrúlega vel, ekkert klikkaði. Tók nokkra daga en varð líka léttara með æfingunni.
Efnin eru öll afklippur og afgangar sem hafa safnast upp og virðist aldrei klárast. Útsaumsmunstrið er frá Kreativ Kiwii. Svo tek ég fram að fyrst stakk ég meðfram öllum blokkunum á venjulegan hátt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli