Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 30. maí 2011

Fleiri cupcakes

Fyrir nokkru lauk ég við að sauma út annað viskustykki.
Mótífíð var það sama og síðast.
Þetta munstur fann ég á netinu. Slóðin er hér.
Svo er alveg tilvalið að applíkera bollakökur á gömul viskustykki. Sé til með það.

miðvikudagur, 25. maí 2011

Hrím

Nú er ég búin að prjóna aðra peysu úr léttlopa á eldri soninn, og í þetta sinn munstraða. Ég var talsvert lengur að prjóna þessa en þá fyrri, en hún varð eins og hann vildi hafa hana, frekar þröng. Uppskriftin er í Lopa 29, eins og hin.

þriðjudagur, 17. maí 2011

Hrærivélarhlíf

Ég hef ætlað að sauma hlíf á hrærivélina mína í 25 ár, eða frá því ég keypti hana. Svo þegar ég sá þetta snið frá henni Elínu Guðjónsdóttur, vissi ég að tíminn var kominn! Mér finnst það svo flott og vandað hjá henni í alla staði. Sniðið er hægt að kaupa hjá henni sjálfri og líka í Quiltkörfunni. Netfangið er elingu@emax.is
Sniðið passar á Kitchenaid hrærivélar, en ég á Kenwood, svo ég þurfti að breyta því aðeins. Ég saumaði fyrst prufuhlíf úr óbleikjuðu lérefti og tók ca. 5 cm neðan af hlífinni allan hringinn. Ég minnkaði sultukrukkumótívið og hænuna niður í 85% í ljósritunarvél áður er ég sneið, en lét stærðina á blómakransinum öllum halda sér. Svo hafði ég miðjustykkið hálfri tommu breiðara en uppskriftin sagði til um. Og þá smellpassar hún líka á hrærivélina mína, sem á nú loksins eitthvað til að fara í....

þriðjudagur, 3. maí 2011

Pínulítil budda

Mig vantaði svona pínulitla buddu, og á annan í páskum saumaði ég mér hana eftir uppskrift frá Timotei. Hér er hægt að finna hana.
Ég gerði hana meira að segja aðeins minni en í uppskriftinni, hafði radíusinn á hringnum, sem byrjað er að búa til, 6 cm í stað 7.