Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 25. september 2023

Axolotl

Elsta ömmustelpan mín og bróðir hennar eiga heima hjá sér lifandi Axolotl eðlu í búri. Fyrir nokkru bað hún mig að sauma handa sér eðlu, en amman var frekar hugmyndasnauð og fann ekkert almennilegt við leit.

Þá dúkkaði upp á Saumaspjallinu á Facebook þessi líka flotta Axelotl eðla. Sú sem saumaði hana var svo almennileg að vísa mér á uppskriftina. Hún er frí á netinu og henni fylgir útsaumsskrá fyrir andlitið, sem ég hlóð niður líka og sendi í útsaumsvélina. Það er alveg hægt að sauma augun öðruvísi á, t.d. með filti.

Ég gerði að sjálfsögðu fjórar, og til að þær þekktust í sundur hafði ég smá litamun á augunum.

Ég keypti flísefni í Föndru og tróð vel í þær, og þær heppnuðust mjög vel.

Sniðið er hér.
 

miðvikudagur, 20. september 2023

Vettlingar fyrir veturinn

Um miðjan maí vantaði mig eitthvað að prjóna, og ákvað að kaupa garn í vettlinga á barnabörnin fjögur, sem eru 4, 6 og tvær 8 ára, og dúlla mér við að prjóna þá í sumar. Verkefnið entist þó ekki nema til maíloka.

Mér fannst sniðugt að prjóna tvö pör á hvert en hafa þau þannig að allir fjórir vettlingarnir gætu gengið hver með öðrum. Heppilegt ef einn eða tveir týnast (sem gerist reyndar nánast aldrei hjá þeim).

Þótt ég hafi lokið prjónaskapnum í vor er ég samt tiltölulega nýbúin að ganga frá þeim og afhenda þá, því ég þurfti að anda aðeins djúpt áður en ég settist niður og handskrifaði á 16 taumiða nöfnin þeirra og saumaði inn í hvern vettling (reyndar voru þeir 24 því ég merkti líka prjónaða sokka á þau öll sem ég á eftir að sýna hér). 


 Ég prjónaði úr Drops Big Delight Print, sem ég var svo heppin að ná í, því það er hætt í framleiðslu. Ég fékk rauða garnið í Gallery Spuna, en það bláa í Skartsmiðjunni.

Uppskriftin er úr Leikskólafötum, aðeins aðlöguð að mér, og snilldin er sú að vettlingurinn passar á hvort sem er hægri eða vinstri hendi, allir eins. Notaði prjóna nr. 3,5 og 4

mánudagur, 11. september 2023

Önnur Bugða

Ég fitjaði upp á öðru sjali, sömu uppskrift og síðast. Það er eitthvað við þessa uppskrift sem veldur því að það er svo gaman að prjóna hana. Gaman að prufa aðrar litasamsetningar og það er alltaf eitthvað að gerast í munstrinu. Svo er uppskriftin bara svo vel skrifuð.

Ég keypti mér líka góðan 120 cm ChiaoGoo sjalahringprjón nr. 4 úr stáli á Prjónagleðinni í sumar, og það er alveg sérlega skemmtilegt að prjóna með honum.

Garnið er héðan og þaðan, dökkfjólubláa er liturinn Madame Souris frá Rohrspatz&Wollmeise, keypt í Handprjóni. Ljósgrái er frá Hex Hex Dyeworks og heitir Ósóttar pantanir. Restin eru afgangar frá Vatnsnes Yarn.

Uppskriftin er frá Eddu Lilju í Garnbúð Eddu. 

 

föstudagur, 1. september 2023

Septemberálfur


 Septemberálfurinn mættur og er frekar haustlegur í litavali. Það þýðir þó ekki að haustið sé komið því ég ætla að halda mig við skilgreiningu Veðurstofunnar sem segir sumarmánuðina vera fjóra. Það eru júní, júlí, ágúst og september. Sumri lýkur formlega á föstudegi á tímabilinu frá 20. til 27. september. Og þá vitum við það.