Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 29. september 2009

Mjólk í mat - íslenskt og þjóðlegt


Þessa veggmynd saumaði ég fyrir 2-3 árum. Ég saumaði reyndar tvær, og gaf þær báðar, og er svo alltaf á leiðinni að sauma eina fyrir sjálfa mig. Á þeirri efri á ég bara eftir að setja krækiberin út á skyrið. Myndin er eftir Elínu Guðjónsdóttur á Þverlæk, og ég hef áður sýnt tvö verkefni eftir hana, sem ég hef saumað, en það voru epladúkurinn og "Vetur í bæ". Ég minnkaði munstrið niður í 70% af upphaflegri stærð, því það passaði betur því plássi sem þær voru ætlaðar. Ég hef alltaf verið hrifin af þjóðlegri handavinnu, og finnst aðdáunarvert þegar konur hanna þjóðleg verk fyrir bútasaum. Næst á dagskrá hjá mér er að sauma löber eftir Elínu, sem ber heitið "Íslenska rósin".



þriðjudagur, 22. september 2009

Bútaútsaumsmyndin

Þá er ég búin að ganga frá krosssaumsmyndinni sem ég byrjaði á snemma í sumar. Ég notaði eingöngu garnafganga í bútana sjálfa og það var oft heilmikil þraut að láta litina ganga upp, því sumt kláraðist og þá varð ég að nota annað í staðinn, og svo þurfti að vera visst jafnvægi líka.
Ég er svo veik fyrir rauðu, að ég varð að stilla mig um að kaupa viðbót af þeim lit, en þurfti svo hvort sem er að kaupa lit til að sauma á milli allara bútanna sem "sashing", og þá valdi ég að sjálfsögðu rautt!
Ég stakk í höndum kringum hvern einasta bút, yfir eitt spor og undir eitt, og þá kom dálítil lyfing í bútana.
Svo setti ég bara vatt og bak, og kant eins og venjulega, og stakk þrjár umferðir í höndum í kring.

sunnudagur, 20. september 2009

Frjálsar nr. 7 og 8

Það er að verða 1/2 mánuður síðan ég skilaði þessum tveimur af mér og nú nenni ég ekki að prjóna fleiri í bili, enda hef ég nóg annað að prjóna. Yngri sonurinn var að panta hjá mér rennda léttlopapeysu, sem ég ætla að byrja á fljótlega.
Mig langar tila að þakka öllum þeim sem skrifa athugasemdir á bloggið mitt, bæði þeim sem ég þekki og líka þeim sem ég þekk ekki neitt, en hafa samt fyrir því að setja inn kveðju. Þegar ég uppgötvaði handavinnubloggin fannst mér ég græða svo mikið á þeim, að ég ákvað að vera með sjálf, alla vega í einhvern tíma. Þegar maður fær athugasemd, "komment", virkar það eins og vítamínsprauta, og maður ákveður að halda áfram eitthvað enn!
Takk!!!

laugardagur, 19. september 2009

Ungbarnagalli

Anna Björg var að prjóna ungbarnasett og setti það á síðuna sína í gær. Ég prjónaði sama sett fyrir tæpum tveimur árum á litla frænku mína, og má til með að setja það á síðuna núna til að sýna Önnu Björgu. Uppskriftin er í Lanettblaði nr.8 frá Tinnu.

 

mánudagur, 14. september 2009

September

Það var ekki erfitt að velja litina í septembermyndina, sem ég lauk við í gær. Efnin stukku næstum því sjálf upp úr körfunum!

sunnudagur, 13. september 2009

Herrasokkar

Þessa ullarsokka var ég að prjóna á eldri soninn. Þeir eru úr Fabel sokkagarni, sem fæst í Föndru. Þeir eru prjónaðir á prjóna no. 2,5, og er uppskriftin innan á miðanum, sem er utan um garnið. Uppskriftin er mjög góð, og prjóna ég báða sokkana samtímis, þó ekki á sama prjóni eins og sumir gera, heldur á sitt hvoru pjónasettinu.

föstudagur, 11. september 2009

Bláa lopapeysan endurbætt

Ég ætlaði nú ekki að setja þetta á bloggið, en læt vaða. Það gerði ég líka þegar ég klippti peysuna í sundur á tveimur stöðum síðasta laugardag. Ég var ekki ánægð með síddina og víddina fyrir neðan mitti. Það var líka flái í listanum. Svo annað hvort var að henda peysunni upp í skáp eða að reyna að laga þetta. Ég klippti listana af, og klippti svo stykki úr peysunni, við mittislínuna og dálítið fyrir ofan stroffið að neðan.
Síðan tók ég upp lykkjurnar á neðsta stykkinu og prjónaði nýtt inn í eins og ég vildi hafa það. Ég tók inn miklu ofar en ég hafði gert áður, og hafði peysuna styttri. Svo lykkjaði ég neðra stykkið við efra stykkið, og gerði svo nýja lista, miklu stífari en áður og breiðari líka.
Ég er miklu ánægðari með peysuna núna og hún situr allt öðruvísi á mér.
Svo heklaði ég síðustu umferðina á listunum svarta.

fimmtudagur, 10. september 2009

Sýna og segja frá

Þessi mynd átti að fylgja síðusu færslu. Þetta eru pokar, sem ég saumaði í haust til að nota í kennslunni. Oft langar börn til að koma með ýmislegt í skólann til að sýna öðrum, en ef það er ekki beinlínis á dagskrá, getur verið erfitt að koma því við. Þess vegna fá þau nú að fara heim með pokann yfir helgi, tvö börn í einu, og finna eitthvað sem passar í pokann, þ.e. það má ekki vera stærra en pokinn, og á mánudegi fá þau að sýna og segja frá því, sem þau langaði til að koma með. Hugmyndin er auðvitað fengin frá Önnu Björgu.

sunnudagur, 6. september 2009

Kennslu(konu)gögn

Nú í haust hef ég verið að sauma kennslugögn úr filti. Annað er veggteppi þar sem hægt er að raða alls konar myndum og texta í samræmi við það sem verið er að læra hverju sinni. Nú erum við t.d. með þema um bílinn. Aftan á allt lauslegt er límdur franskur rennilás, sem festist auðveldlega við fíltið.
Önnur útgáfa er svo þessi laufblaðalengja.
Eins og sjá má er verið að leggja áherslu á plúsheiti tölunnar tíu. Allt er þetta stolið og stælt. Anna Björg fékk skemmtilegan bækling á námsgagnasýningu í Birmingham í fyrra, og þar voru svipaðar hugmyndir sýndar.

fimmtudagur, 3. september 2009

Blá lopapeysa

Þessa lopapeysu var ég að ljúka við í fyrradag. Hún er prjónuð á prjóna nr. 4,5 úr einföldum lopa og loðbandi. Mér finnst einfaldi lopinn ekki bera sig nógu vel einn og sér, fallegra að hafa loðband með.