Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 27. júlí 2021

Veifur

Mér finnst alltaf flott að skreyta með veifum, geri samt of lítið af því. Þessar saumaði ég í sumar til að hafa í morgun- og hádegishorninu við húsið okkar. Þær fá að hanga þegar ekki er hvínandi rok og rigning 🙂

                                     Ég valdi mismunandi stórrósótt efni, eitt fyrir hverja.


 Fyrir sex árum heklaði ég þessar veifur fyrir pallinn úr alls konar bómullarafgöngum. Myndin var tekin þegar þær voru nýjar. Þær hanga uppi í sumar en eru orðnar dálítið upplitaðar, en ég held að það sé mest öðru megin, ætla að prófa að snúa þeim næsta sumar.

föstudagur, 9. júlí 2021

Dýrafjör og Småtroll húfa

Ég prjónaði peysuna Dýrafjör frá Ömmu Loppu á 22 mánaða ömmustrákinn minn. Ég valdi fílamunstrið handa honum því mér finnst það mjög fallegt, en það fylgja tvö önnur munstur í bekkinn. Hann verður tveggja ára í september, en ég hafði peysuna í stærð fyrir þriggja ára. Ég hafði líka færri lykkjur i stroffinu fremst á ermunum og fínni prjóna til að fá það þrengra. Ermarnar tolla þá betur uppi.

Svo varð þessi húfa til í vikunni líka. Ég gerði svona húfu á systur hans fyrir nokkru í bleiku, og hann var eiginlega búinn að eigna sér hana, var svo hrifinn af henni. Þá skellti amma bara í bláa handa honum. Uppskriftin er úr Klompelompe - strikk til hele familien og heitir Småtroll. Stærðin er á 3-6 ára, en aðeins grynnri en uppskriftin segir til um.


 Hann var mjög sáttur með þetta allt eins og sést á myndunum. Ég notaði Drops merino extra fine frá Gallery spuna og prjóna nr. 4, og nr. 3,5 og 3 í stroffin. 

fimmtudagur, 1. júlí 2021

Púði úr gömlum gallabuxum

Í gegnum tíðina hef ég hirt eitt og eitt par af gallabuxum til að sauma eitthvað úr því seinna.  Þessi púði varð til í vikunni. Hann á að fá það hlutverk að styðja við bakið á mér í löngum húsbílaferðum.

Ég ákvað að fegra hann aðeins með því að bródera smá í hann með útsaumsvélinni minni góðu (sem er svo skemmtilegt, ég stari hugfangin á hana á meðan hún vinnur).

Svo var ég löngu búin að ákveða að prófa að gera miðseymi líka (e. piping) því ég held að ég hafi bara aldrei á minni lífsfæddri saumaæfi gert svoleiðis, man alla vega ekki eftir því.

Ég lærði það á netinu um daginn að það er alveg hægt að líma litla búta á undirlagið í útsaumsrammanum í staðinn fyrir að spenna allt í hann. Gallaefni er þykkt og reynir kannski dálítið á rammann og svo var ég að sníða úr skálmum og erfitt að klippa stór stykki vegna saumfara. Þess vegna klippti ég alla bútana í rétta stærð fyrst og bróderaði á eftir. Ég er reyndar stórhrifin af þessum taulímpenna, nota hann mikið.

Og þetta virkaði bara mjög vel, efnið hreyfðist ekki, og límið þornar og losnar frá, og ég setti það bara á brúnirnar, alls ekki þar sem nálin fór í.

Það þarf bara að passa að finna miðjurnar á efnisbútnum og láta passa við miðjustrikin á rammanum.

Svo bjó ég til miðseymið sjálf með Amber 400 overlockvélinni minni. Það er hægt að gera svo margt fleira en að sauma saman með henni. Það er hægt að kaupa með henni tvenns konar pakka með aukafótum, annars vegar sett fyrir nytjasauma og hins vegar fyrir sauma til að skreyta með. Hérna notaði ég fót sem er ætlaður til að sauma fast miðseymi eða búa til miðseymisbönd.Hann hefur djúpa rauf á botninum sem myndar pláss fyrir snúruna þannig að raufin stýrir því sem fer í gegnum fótinn og nálin saumar fast upp við snúruna.

Þetta finnst mér bara tær snilld. Ég þarf ekkert að vera mjög nákvæm með að klippa efnið, hafði það ca. 2 tommur á breidd. Vélin sker þannig að eftir stendur alveg passlega breitt saumfar. Innan í notaði ég anorakksnúru.

Svo notaði ég rennilásfótinn til að sauma miðseymið á púðann. Ég notaði þrjár af fjórum vélunum mínum í þetta verkefni og skemmti mér vel.