Heildartala yfir síðuflettingar

laugardagur, 20. apríl 2024

Krosssaumur Karólínu

Nú er ég loksins búin að láta ganga frá Karólínunum mínum, sem ég er löngu búin að sauma. Ég fékk tvo kassa af útsaumsefni í jólagjöf jólin 2022 og saumaði þær strax, en frágangurinn vafðist fyrir mér. Flestir setja þær í púða, en ég á svo marga útsaumaða púða að það er ekki á það bætandi. Ákvað þess vegna að láta ramma þær inn, og innrammarinn var alveg ákveðinn í að láta þær í flotramma, sem var einmitt það sem ég var búin að gera mér í hugarlund. Mjög ánægð með þær svona og búin að hengja þær saman upp á vegg. Ætti ég að sauma fleiri? Dauðlangar til þess, ekkert betra en að sitja með útsaum í höndunum og hlusta á góða sögu á Storytel.


 

þriðjudagur, 16. apríl 2024

Lítið afgangateppi

Ég á mjög erfitt með að henda litlum efnisafgöngum og hef verið dugleg að hreinsa þá upp með því að gera úr þeim afgangateppi. Nú var kominn tími til að taka til og þá varð til þetta litla teppi eða dúkur eða hvað sem á að kalla það, ekki nema 52 x 52 cm að stærð.

Hver blokk er aðeins tvær sinnum tvær tommur, og eins og sést saumuð með pappírssaumi. Ég setti hringskerann með á myndina til samanburðar.

Hér er bara hluti af afskurðinum sem ég notaði. Margir bútar voru miklu minni, og tókst mér að hreinsa vel til. Ég hætti að sauma þegar efnin voru á þrotum.

Merkið var að sjálfsögðu saumað í útsaumsvélinni, það fyrsta fyrir árið 2024. Munstrið fengið úr útsaumsforritinu.

Í teppinu eru 100 blokkir. Í hverri blokk eru 9 bútar þannig að alls eru þetta 900 bútar sem þurfti að sauma saman. Á milli setti ég Heat ‘n bond strauvatt, lét límið snúa að toppnum, og kom það mjög vel út þegar svona mikið er af saumum og saumförum. Teppið verður frekar þungt og liggur alveg marflatt. Kantinn sneið ég 1 og 1/4 tommu á breidd og saumaði hann því niður einfaldan, lærði það af Kathleen Tracy bútasaumshönnuði, sem hannar lítil teppi og finnst þetta oft passa betur á þau og er ég alveg sammála henni. Ég stakk í kringum hverja blokk og svo á ská eftir miðju blokkanna.

 

föstudagur, 5. apríl 2024

Dúkkufataprjón

Það er alltaf gaman að grípa í dúkkufataprjón. Ég sá þessa lambhúshettu á handavinnusíðu vinkonu minnar og fékk uppskriftina frá henni. Byrjaði á þessari rauðu, en hún varð bara sú fyrsta af mörgum.

Fínt að grynnka aðeins á afgöngunum sem alltaf safnast upp. Krakkarnir urðu strax hrifnir af þeim og fengu þær allar með sér heim, ein náðist ekki einu sinni á mynd.


Uppskriftin er fyrir Baby Born, en þær fóru nú samt á alls konar bangsahausa. Kormákur þvottabjörn var  mjög flottur með sína þegar hann fór heim.

Svo fengu fleiri dúkkur föt….uppskriftirnar að þessum dressum fékk ég á Ravelry með því að leita að uppskriftum á 14” og 18” dúkkur, fullt af fríum uppskriftum þar. Peysurnar eru prjónaðar eftir sömu uppskrift, önnur er með smellum að aftan, hin hneppt að framan.

Prjónastærðin var 2,5, reyndar gefið upp fyrir 2,25, en ég á þá ekki sem kemur ekki að sök því ég prjóna frekar fast.