Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 4. október 2018

Allar saumavélarnar mínar fyrr og nú


 Mér finnst tími til kominn að fjalla aðeins um saumavélasögu mína. Fyrst ætla ég að skrifa um þær þrjár vélar, sem ég nota núna, og fara svo yfir þær vélar sem ég hef átt áður eða er hætt að nota.
Þetta er nýjasta, flottasta og besta vélin sem ég hef eignast, Husqvarna Viking Epic 980Q, sem kom út á þessu ári.  Þegar ég sá útsaumsvélina Designer Epic árið 2016, þessa bláu, sleppti hjartað slagi, því vélin sjálf var svo flott, en ég hef hingað til ekki haft áhuga á útsaumi í vél. Hjartað tók svo aukakipp þegar ég sá að það var komin bleik vél, sem var sama vél og hin en án útsaums. Ég var staðráðin í að eignast hana.  Ég keypti hana í Pfaff, Selma pantaði hana fyrir mig, því þau eru ekki með hana í búðinni, og fékk ég hana um miðjan ágúst.


 Það sem mér líkar best við er stærðin, hún er stór, með langan arm og hátt undir arminn, nóg pláss í kring um nálasvæðið t.d. þegar maður skiptir um fót eða nál.  Hún þræðir sig sjálf, er mjög vel lýst. Flestar aðgerðir fara fram á snertiskjá sem virkar eins og spjaldtölva, og vélin er nettengd. Í henni eru ótal myndbönd með kennslu í saumaaðferðum, spólurnar eru stærri og því þarf sjaldnar að fylla á þær.


 Það sem mér finnst líka svo flott er að hægt er að nota stór tvinnakefli á þessa vél. Hún er hljóðlát og einhvern vegin svo mjúk þegar hún vinnur.
Ég er alsæl með vélina og held að við eigum eftir að eiga mörg góð ár saman.


 Overlock vélina mína eignaðist ég árið 2009, keypti hana í Pfaff. Ég hef saumað föt á sjálfa mig í áratugi, og á börnin mín þegar þau voru lítil, en einhvern veginn lét ég aldrei verða af því að kaupa mér svona vél. 
Þessi er mjög góð, ég hef mikið saumað jersey kjóla á hana undanfarin ár, auk annars. Hún velur sjálf stillingar þegar maður er búinn að segja henni hvernig efni maður notar og hvaða saumur er valinn, svo ég þarf aldrei að eyða tíma í að stilla eitt eða neitt.

Þessa Brother 2340CV þekjusaumsvél hef ég átt í tvö ár.  Mér fannst nú algjör óþarfi að eiga svona, enda gat overlock vélin saumað þekjusaum líka, bara svolítil vinna að breyta henni fyrir það, enda nennti ég því sjaldan.
En svo ákvað ég bara að láta hana eftir mér, enda fékk ég hana með góðum afslætti á saumavéladögum hjá Pfaff, og nota hana til að falda.  Lúxus, en hún gleður mig.


Eldri vélar

 Þetta var fyrsta saumavélin mín, Singer futura.

Við mamma fórum á heimilissýningu í Laugardalshöll árið 1980, (munið þið eftir þeim?), sáum þessa vél og urðum svo hugfangnar að mamma hjálpaði mér að kaupa hana, enda var ég í skóla og átti ekki mikla peninga. Hún var dýr, kostaði hálfa milljón fyrir myntbreytingu, og var seld í Fálkanum að því að mig minnir.  Mér hefur alltaf skilist að þetta hafi verið fyrsta elektróníska saumavélin á markaðnum.  
Þessi vél hafði alveg ótrúlega marga flotta fídusa, eins og til dæmis það að ekki þurfti að taka spóluna úr til að fylla á hana, heldur spólaði hún með spóluna á sínum stað, í gegnum nálina.  Hnappagötin voru sjálfvirk, og hægt að endurtaka nákvæmlega eins hnappagat og það fyrsta, og hún mældi sjálf stærðina eftir tölunni, sem maður setti aftast í fótinn.
Þessa vél notaði ég í 22 ár, eða þar til móðurborðið gaf sig og of dýrt var að skipta um. Öll þessi ár var ég svo ánægð með vélina, að ég spáði ekkert í aðrar saumavélar. 
Vélina á ég ennþá, enda finnst mér hún vera antík.


 Þegar Singer vélin gaf sig voru góð ráð dýr, og ég þurfti að finna nýja vél í hvelli. Eftir að hafa skoðað það sem var í boði keypti ég Husqvarna Lily 545 í Völusteini, sem þá var með umboðið.  Þar með varð ég ástfangin af Husqvarna, og hef verið það síðan.  Hún var æði, ég var farin að sauma meira af bútasaum, og ég gat boðið henni alls konar tvinna í fríhendisstungu, hún réði við allt. Ég átti hana í sjö ár, en þá fannst mér tími til kominn að uppfæra hana og leita að nýrri vél, sem hentaði betur í bútasauminn. Vinkona mín keypti hana af mér og er nýhætt að nota hana.


 Einhvern tíma rétt eftir áramótinin 2009 sá ég þessa vél auglýsta í norsku blaði, og þar með var teningunum kastað.  Vinkona mín og ég fórum niður í Pfaff þegar vélarnar voru rétt nýkomnar í hús og keyptum hvor sína vél. Pfaff quilt expression 4.0 var þvílík bylting þegar ég fékk hana.  Armurinn var stór, sjálfvirkar þráðklippur, fullt af skrautsporum, hægt að stilla allt mögulegt inni í vélinni. Ég saumaði mikið á hana, og hún var full af skemmtilegum fídusum.
Maðurinn minn smíðaði borðið, sem er á myndinn fyrir ofan, svo ég gæti stungið í vélinni á sléttum fleti.  Það virkaði mjög vél.  Svo seldi ég hana.


 Mig var farið að langa aftur í Husqvarna vél. Ýmsar ástæður voru fyrir því, en ein er sú að mér finnst svo gott að geta sett góðan yfirflytjara á vélina. Árið 2016 keypti ég þessa á saumavéladögum í Pfaff. Sapphire 965Q er æðisleg vél, og mjög auðveld í notkun, flottur snertiskjár sem mjög auðvelt er að rata um, allt mjög aðgengilegt og augljóst og svo er hún mjög kröftug, saumar gegnum mörg lög eins og ekkert sé. Hún er að mörgu leyti svipað upp byggð og Epic vélin mín, þannig að af því ég kunni á hana þá var lítið mál að byrja að nota Epic vélina.
En nú var ég búin að sjá Epic 980Q vélina, og það varð ekki aftur snúið.  Eftir að hafa átt hana í tæp tvö ár keypti sama vinkona mín hana af mér og hafði keypt Husqvarna Lily vélina mína!


Svo í lokin má ég til með að sýna The Eldredge E vélina mína, sem ég hef reyndar aldrei saumað á, þarf að prófa það einhvern tíma. Hana færði yngri bróðir minn mér árið 2011 þegar hann heyrði að mig langaði svo í gamla saumavél upp á punt. Hann vissi þá að gamalli vél uppi á háalofti í húsi foreldra okkar, fann hana og gaf mér.  Sennilega er hún frá látinni föðursystur okkar.

Uppfært: svo allt sé nú satt og rétt, þá er tengill hér á bloggfærslu þar sem ég segi m.a. frá enn einni saumavélinni, sem ég er búin að kaupa.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli