Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 16. apríl 2024

Lítið afgangateppi

Ég á mjög erfitt með að henda litlum efnisafgöngum og hef verið dugleg að hreinsa þá upp með því að gera úr þeim afgangateppi. Nú var kominn tími til að taka til og þá varð til þetta litla teppi eða dúkur eða hvað sem á að kalla það, ekki nema 52 x 52 cm að stærð.

Hver blokk er aðeins tvær sinnum tvær tommur, og eins og sést saumuð með pappírssaumi. Ég setti skurðarhnífinn með á myndina til samanburðar.

Hér er bara hluti af afskurðinum sem ég notaði. Margir bútar voru miklu minni, og tókst mér að hreinsa vel til. Ég hætti að sauma þegar efnin voru á þrotum.

Merkið var að sjálfsögðu saumað í útsaumsvélinni, það fyrsta fyrir árið 2024. Munstrið fengið úr útsaumsforritinu.

Í teppinu eru 100 blokkir. Í hverri blokk eru 9 bútar þannig að alls eru þetta 900 bútar sem þurfti að sauma saman. Á milli setti ég Heat ‘n bond strauvatt, lét límið snúa að toppnum, og kom það mjög vel út þegar svona mikið er af saumum og saumförum. Teppið verður frekar þungt og liggur alveg marflatt. Kantinn sneið ég 1 og 1/4 tommu á breidd og saumaði hann því niður einfaldan, lærði það af Kathleen Tracy bútasaumshönnuði, sem hannar lítil teppi og finnst þetta oft passa betur á þau og er ég alveg sammála henni. Ég stakk í kringum hverja blokk og svo á ská eftir miðju blokkanna.

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli