Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 9. mars 2021

Vettlingar

Eftir áramót prjónaði ég tvö pör af vettlingum. Herravettlingarnir eru eftir uppskrift úr litlu hefti sem Ístex gaf út þar sem lettnesk prjónamunstur eru aðlöguð að íslenska kambgarninu. Að sjálfsögðu notaði ég kambgarn og prjóna nr. 2 og prjónaði stærð L. Mér fundust þeir ætla að verða heldur langir svo ég stytti þá um hálft munstur eða sex umferðir og þurfti þá að teikna munstrið fremst á þeim aftur upp með nýrri úrtöku. En þeir smellpössuðu líka á eigandann.

Dömuvettlingarnir eru hins vegar upp úr nýju vettlingaprjónabókinni, Íslenskir vettlingar, sem kom út fyrir jólin og heitir uppskriftin Salka. Í þá notaði ég Drops Flora. Eigandinn er frekar handsmár svo ég notaði prjóna nr. 2,25, en þeir urðu heldur þröngir yfir hendina á móts við þumalinn, en passlega langir. Það er líka alltaf hættan þegar þumallinn er settur í án þess að aukið sé út við hann, þ.e. prjónaður kíll. Ég ætla að hafa það í huga í framtíðinni.


 

2 ummæli: