Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 27. september 2021

Dúkkuföt

Þegar eitthvert barnabarnanna fjögurra á afmæli gef ég þeim öllum lítinn aukapakka og stundum hafa það verið prjónuð eða saumuð dúkkuföt handa stelpunum þremur. Gaf þeim samt annað í fyrstu afmælum ársins, og sú yngsta var tvívegis búin að rukka mig um dúkkuföt: Amma, ertu búin að prjóna eitthvað?  Svo fyrir síðasta afmæli ársins hafði ég tækifæri til að bæta úr þessu og gerði þetta hér á tveimur vikum sléttum.  

Ég átti skokk úr þunnu gallaefni sem ég var hætt að nota og mér tókst að sníða úr honum þrjá dúkkuskokka. Skokkurinn minn var allur settur saman úr stykkjum og þurfti ég að láta saumana lenda á miðju fram- og bakstykki á dúkkuskokkunum. Það gekk upp.

Þó að hliðarsaumarnir væru það eina sem hægt var að sauma í overlockvélinni, gerði ég það í henni því hún er svo yndislega auðveld í notkun.

Svo skreytti ég þá aðeins í útsaumsvélinni. Ein ömmustelpan skoðaði blómin og velti fyrir sér hvernig ég hefði farið að því að nota svona mikinn tvinna í þau. Hún hefur nefnilega stundum fengið að sauma skrautspor í Epic vélinni og sá að þetta var öðruvísi. Gaman að því.

Skáböndin gerði ég sjálf í skábandajárnum sem ég á heilt sett af.

Ég lét sjást aðeins í skáböndin frá réttunni því mér fannst það punta upp á gallaefnið.

Svo er það límpenninn. Hann er frábær þegar maður þarf að láta litla fleti tolla saman rétt á meðan saumað er. Kláraði þennan reyndar í þessu verkefni og var fljót að fá mér annan.

Hér eru svo skokkarnir í þríriti. Hafði smá litamun á blómunum til að systurnar þekktu sína í sundur. Sniðið er úr bók sem ég fékk lánaða á bókasafni fyrir nokkrum árum.

Svo prjónaði ég kjóla handa öllum. Uppskriftin er úr Klompelompes vinterbarn og heitir Vinge-dukkekjole. Þeir eru prjónaðir á prjóna 2,5 og 3 úr Lanett og Drops baby merino. 

Ég get ekki sagt að það hafi verið fljótlegt að prjóna kjólana, heilmikið maus og frágangur, en uppskriftin var góð og mig langaði alltaf að prófa hana.


 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli