Fyrir 12 árum var ég stödd í Pfaff að læra á saumavél sem ég var nýbúin að kaupa, og vorum við Silla, Sigurlaug heitin Gröndal, sem var að kenna á vélarnar, að ræða um saumavélar og ýmislegt tengt þeim. Þá segir hún við mig: “Svo þegar þú verður eldri þá færðu þér útsaumsvél.” Ég hélt nú ekki, það væri sko ekkert fyrir mig. “Jú, þið gerið það allar þegar þið eldist.” Ég er vissulega að eldast, eins og allir, og er greinilega komin á útsaumsvélaaldurinn. Þetta byrjaði reyndar fyrir þremur árum þegar ég keypti Pfaff creative 1.5 vélina mína, sem ég hef haft ótrúlega gaman af að sauma út með. Hún er mjög fín, en mig langaði í vél með meiri möguleika og sem tæki stærri ramma.
En Pfaff vélin mín kveikti áhugann á útsaum hjá mér, og nýjustu vélarnar eru orðnar svo flottar að maður fellur í stafi yfir þeim. Þetta eru orðnar tölvur sem stjórnað er af skjánum, og margt sem áður var einungis gert í forriti á tölvu gerir maður nú á skjánum í vélinni sjálfri. Ég get sent vélinni útsaumsmunstur úr tölvunni gegnum wi-fi og saumað út. Vélin getur líka sjálf tekið við munstrum af netinu. Í haust keypti ég mér Husqvarna Designer Sapphire 85 í Pfaff. Hún er ótrúlega skemmtileg, og ég hef saumað eitthvað á hana næstum daglega síðan ég fékk hana. Hún hefur endalausa möguleika, og með henni fylgja 629 útsaumsmynstur, og auk þess er hægt að sauma öll 680 skrautsporin úr saumahlutanum í henni í rammanum, letur og meira að segja hnappagöt. Svo er hægt að hafa aðgang að 6-7000 munstrum í gegnum áskrift á MySewnet o.s.frv. Og það sem er svo frábært er að ég get gert svo til alveg það sama í þessari vél og hægt er að gera í Epic2 og Ruby 90 vélunum hvað varðar útsaumshlutann, en það eru dýrustu vélarnar, en hún tekur samt ekki breiðasta rammann. Þær eru hins vegar stærri og meiri vélar hvað varðar vélarnar sjálfar. En ég á Epic 980 Q vélina mína til að sauma á, þessa ætla ég bara að nota fyrir útsaum.
Í gegnum árin hefur það oftar en ekki farist fyrir hjá mér að merkja bútasaumsteppin mín, þó ekki alltaf. Ég tók mig því til og byrjaði að merkja þau sem eru ómerkt og gerði merkin í útsaumsvélinni. Það hefur verið fín æfing fyrir mig og hef ég lært ýmislegt á því. Merkin fyrir ofan með blóma-og hjartamunstrinu eru t.d. gerð þannig að ég valdi ákveðið form úr vélinni, hring í þessum tilfellum (líka hægt að velja ferning, stjörnur, hjörtu, blóm…) og lét vélina raða munstrum á útlínur formsins, blómum og hjörtum. Á merkinu með einfalda stjörnusporinu setti ég á sama hátt spor úr saumahluta vélarinnar á línu sem er í laginu eins og alda.
Tvö efri merkin eru í munstursafninu í vélinni en ég bætti bara stöfunum innan í. Tvö neðri eru gerð með sama hætti og þau að ofan, valdi form og lét vélina raða munstrum á þau.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli