Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 27. janúar 2026

Þvottastykki



Ég saumaði að gamni mínu í nokkur þvottastykki og gaf barnabörnunum, tvö hverju. Passaði bara að ekki færu tvö eins á hvort heimili. Gott að þekkja í sundur hver á hvað.


Þessar myndir eru í lítilli Brother útsaumsvél/saumavél sem ég á og hef handa krökkunum til að sauma á ef þau langar til. Brother hefur einkarétt á Disneymyndum til útsaums og því freistaði það að hafa þetta í aukavél sem ég vil hafa í saumaherberginu. Þvottastykkin keypti ég í Ikea.


föstudagur, 23. janúar 2026

Prjónaðir pottaleppar

Þessa pottaleppa fann ég á síðu garnstudio.com. Ég prjónaði aðra eftir uppskrift á síðunni þeirra fyrir nokkrum árum og það eru með bestu pottaleppum sem ég á. Þeir eru prjónaðir í hring og lagðir tvöfaldir saman og saumaðir á endunum og verða þykkir og góðir. Ég notaði Muskat frá Gallery spuna og prjóna nr. 3.

 

sunnudagur, 28. desember 2025

Eyrnabönd


Ein ömmustelpan, tíu ára, afhenti mér þetta garn og bað mig um að prjóna eyrnaband á sig. Ég fitjað upp tíu lykkjur á prjóna nr. 10 og lét vaða, prjónaði bara þangað til það mátaðist passlegt á hana. Eina vesenið sem ég lenti í var að ganga frá endum og að sauma það saman því garnið er svo loðið að það er erfitt að draga það í gegn. Ráðið við því er að klippa pelshárin af aðalþræðinum og sauma svo. Þetta gerði ég við seinna hárbandið, þetta bleika, sem sú yngri, 8 ára, bað mig að prjóna á sig. Sú yngri er reyndar fyrirsæta á báðum myndum því hin var ekki viðlátin þegar ég myndaði.
 

Garnið heitir Sirdar Alpine og fæst í A4. Prjónastærðin sem er gefin upp er nr. 10 og uppskrift er engin.

laugardagur, 27. desember 2025

Jólajóla


Hér kemur smávegis jólalegt sem ég gerði í útsaumsvélinni. Reyndar saumaði ég þetta um og eftir síðustu jól en dró það að setja það á bloggið og fannst ekki passa að gera færslu um þetta þegar fór að draga nær páskum. Ákvað að bíða frekar næstu jóla.

 


Munstrin eru bæði fengin frá Embroidery Library. Ég minnkaði bollann aðeins í forritinu mínu en hann var  var full þéttur í útsaumi jafnvel þótt forritið fækkaði sporunum hlutfallslega. Það er miklu hepplegra að nota munstur eins og kransinn að ofan sem er miklu opnara eða þá eitthvað sem fyllir ekki svona þétt.



Þetta er líka jólamunstur, en blómin hefðu mátt vera í sterkari lit. Maður er alltaf að læra. Ég vil helst hafa viskastykki röndótt og reyni bara að finna munstur sem koma vel út í þeim. Svo þurfa þau ekki að vera glæný, það má alveg sauma í notuð viskastykki og handklæði.


Svo gerði ég smá jólatrésskraut sem prýðir annað jólatréð okkar í ár, eldgamalt tré frá tengdaforeldrum mínum sem ég hengi eingöngu skraut á sem er handgert og heimagert. Þetta er líka frá Embroidery Library.

þriðjudagur, 23. desember 2025

(Jóla)músagangur


 Ég sá pakkningu með uppskrift og garni í þessar jólalegu mýs og fannst þær svo sætar að ég varð að prjóna þær. Auðvitað hafði ég barnabörnin í huga en ég hélt samt eftir þremur fyrir mig en leyfði þeim öllum að velja sér tvær hverju.



Uppskriftin sem fylgdi var íslensk þýðing úr norsku, en ég fór fljótlega yfir í frummálið því það voru slæmar villur í þýðingunni. Að öðru leyti gekk allt vel, ég notaði ullartróð, hvítt eða rautt eftir því sem við átti. Eyrun eru stífuð með sykurvatni en þau vildu samt vísa of mikið niður og fyrir augun svo ég tók nokkur saumspor í þau til að þau tylldu betur upprétt.



Sex ára ömmustrákurinn lék sér með mýsnar á ýmsan máta þegar hann fékk þær í hendur.

Uppskriftin er frá garnstudio.com og garnið heitir Fabel.

miðvikudagur, 26. nóvember 2025

Jólahúfur




 Kennaraparið í fjölskyldunni uppgötvaði fyrir jólin í fyrra að eiginlega vantaði þau jólahúfur til að passa inn í stemminguna sem ríkir í skólanum svona rétt fyrir jólin. Ég lofaði að bæta úr því fyrir næstu jól og þetta er afraksturinn.

Uppskriftin er frá Ömmu Loppu. Garnið er frá Katia og heitir Craft Lover. Prjónarnir voru nr. 4. Ég prjónaði stærstu og næststærstu stærðina.

föstudagur, 31. október 2025

Fljúgandi gæsir


Þetta teppi varð til alveg óvart. Ég hef stundum mikla þörf fyrir að sitja bara við saumavél og sauma. Þess vegna var ég byrjuð að sauma litlar blokkir af fljúgandi gæsum sem ég vissi ekkert hvað yrði úr.
 

Þær voru (auðvitað) saumaðar með pappírssaumi og sniðið kom úr EQ8 forritinu mínu.


Þá gerðist það sem gerist næstum aldrei að ég ráfaði inn á nytjamarkað og kíkti á handavinnublöðin, fann blað frá 2004 frá McCalls og keypti það ásamt einhverju fleiru. Í þessu blaði var mynd af teppinu fyrir ofan og frásögn af því hvernig það hafði verið samvinnuverkefni kvenna sem allar komu með nokkra búta.


Ég fór nú að skoða bútana mína og sá möguleikana, taldi hversu margar gæsablokkir væru í teppinu í blaðinu og þær reyndust vera 100. Það var því ekki um annað að ræða en að spýta í lófana, prenta út pappírssniðið og halda áfram að sauma. Svo teiknaði ég teppið í EQ8 og prentaði út vinnublað til að ruglast nú ekki við samsetninguna.


Eins og sjá má eru margir ljósir ferningar á milli gæsablokkanna. Ég fann efni sem ég keypti annað hvort á bílskúrssölu eða úr dánarbúi og var búið að klippa niður í stóra ferninga. Mér tókst að fá fjóra litla ferninga úr hverjum þessara stóru svo þeir nýttust vel. Að lokum hófst ég svo handa við að gera það sem ég hef ætlað lengi að prófa en það var að stinga að hluta í útsaumsvélinni, því mér fannst að það yrði að vera eitthvað fallegt í þessum blokkum. Þetta eru 40 ferningar, auk þess sem þríhyrningarnir á jöðrunum eru líka stungnir, stakk þá eins og þeir væru heilir en fór útfyrir á vattið og skar svo af. Þannig þurfti ég að setja teppið 60 sinnum á segulrammann og í vélina. Þetta gekk ótrúlega vel, ekkert klikkaði. Tók nokkra daga en varð líka léttara með æfingunni.


Efnin eru öll afklippur og afgangar sem hafa safnast upp og virðast aldrei klárast. Útsaumsmunstrið er frá Kreativ Kiwii. Svo tek ég fram að fyrst stakk ég meðfram öllum blokkunum á venjulegan hátt.


miðvikudagur, 22. október 2025

Vorflétta



Þetta er Vorflétta eftir Auði Björt. Hún kemur í tveimur stærðum og valdi ég þá minni. Í hana átti að duga ein 100 gr. hespa, 400 metrar. Það fór aðeins meira hjá mér, um 106 grömm, en það gerði ekkert til því ég var með 150 gr. hespu frá Handprjóni, en man ekki hvað hún hét. En ég er mjög ánægð með þetta smásjal og gaman að prjóna það.

 

Það er eitt af aðalsmerkjum Auðar Bjartar að sjölin og teppin líta eins út beggja megin, það er hvorki ranga né rétta.

Þegar þetta er skrifað er bleiki dagurinn, og ég skartaði því í fyrsta sinn í dag þegar ég útréttaði um borg og bý.

miðvikudagur, 17. september 2025

Haustverkin

Hjá mér eru haustverkin ekki sláturgerð eins og áður eða berjatínsla, heldur vettlingaprjón á barnabörnin.

 

Að þessu sinni notaðist ég næstum eingöngu við afganga frá vettlingaprjóni undanfarinna missera. Það urðu margar rendur og litaskipti og þar af leiðandi margir endar að ganga frá. En það er ekki leiðinleg vinna, bara handavinna eins og annað.


Ég safna afgöngum af sama grófleika saman í poka, og blanda ekki neinu sem þófnar saman við. Þetta urðu 9 pör, tvö fyrir hverja stelpu og þrjú fyrir strákinn. Prjónaði 5-7 ára stærð á strákinn en 8-10 ára stærð á stelpurnar þrjár. Svo var allt merkt inni í stroffinu eins og ég geri alltaf.


Ég fór eftir uppskriftinni Randalíus eins og ég hef gert undanfarið, kann hana utanað, og er hún frí á heimasíðu Storksins.