Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 19. mars 2025

Northeasterly úr útsaumsgarni


Í gegnum tíðina hefur safnast upp hjá mér mikið af útsaumsgarni. Ég var búin að koma því fyrir uppi á háalofti og það pirraði mig að vita af því þarna og engin plön um að nota það.
 

Síðasta sumar vantaði mig eitthvað á prjónana til að hafa með í húsbílaferð og sótti garnið upp á háaloft. Valdi mér aftur uppskriftina Northeasterly sem ég hef prjónað áður, en hún hentar svo vel þegar garnið er allavega og mismikið af hverjum lit.


Ég notaði einungis ullargarn, geymdi allt annað. Svona leit bakhliðin út hjá mér, en uppskriftin gerir ráð fyrir að gegnið sé frá endum jafnóðum með því að vefa þá í prjónið jafnóðum, en það er ekki almennilegur frágangur í mínum huga. Hins vegar er þráðurinn í einni dokku ekki langur, ég tala nú ekki um ef búið er að taka af henni, þannig að endarnir urðu mjög margir sem ganga þurfti frá.


Ég saumaði niður hvern einasta enda. Þetta lítur ekki vel út í byrjun, en þá er bara að hefjast handa og annaðhvort hlusta eða horfa á eitthvað skemmtilegt og svo er þetta bara allt í einu búið.


Uppskriftin heitir sem sagt Northeasterly og fæst á Ravelry.

þriðjudagur, 11. mars 2025


Tvær ömmustelpnanna minna fengu sérherbergi fyrir síðustu jól. Þær fengu að velja sér liti á veggina sjálfar og fleira í herbergin.
 


Svo fannst þeim vanta púða í stíl við nýju litina og báðu ömmu sína að sauma fyrir þær púða sem þær teiknuðu sjálfar, eins og ég hef áður gert. Amman varð voða glöð yfir að vera beðin um þetta og hönnunarvinna systranna hófst um leið.


Aðalatriðið er að hafa teikninguna frekar einfalda með hreinar línur og engin aukastrik, allt sem sést á myndinni verður saumað. Ég fer svo sjálf ofan í blýantsstrikin með tússpenna.


Þær völdu sér efnin alveg sjálfar og líka hvar hvert efni átti að vera í hvorum púða. 
Þetta er sem sagt gert í appi frá MySewnet sem ég hleð niður í iPhone símann, vinn myndina aðeins í símanum, hreinsa aukastrik og svoleiðis, og sendi svo úr honum í útsaumsvélina, sem sér um restina.


fimmtudagur, 13. febrúar 2025

Vettlingar og sokkar




Fyrir utan kragann sem 5 ára leikskólastrákinn minn vantaði og ég sýndi í síðustu færslu, þurfti hann líka sokka og vettlinga. Amman hefur greinilega sofið á verðinum í prjónaskapnum og því var ekki um annað að ræða en að sitja dálítið við og prjóna. Vettlingarnir eru eftir uppskrift frá Storkinum sem heitir Randalíus og er frí á heimasíðu hans. Garnið er Drops merino extra fine.
 


Sokkarnir eru prjónaðir úr Fabel frá Drops eftir uppskriftinni Pitter Patter frá garnstudio.com.  Ég hef oft prjónað þessa uppskrift áður og hef sokkabolinn aðeins víðari en uppskriftin segir.



Allt sem ég prjóna á barnabörnin merki ég eins og hér að ofan, enda týnist fátt ef nokkuð.

þriðjudagur, 28. janúar 2025

Býkúpa


Ömmustrákinn vantaði nýjan kraga til að halda á sér hita í leikskólanum. Þessi heitir Býkúpa og er úr bókinni Prjónað af ást eftir Lene Holme Samsøe. Svo prjónaði ég húfu í stíl. Uppskriftin gefur upp húfu bæði með eyrnaskjólum og án.
Garnið er Drops merino extra fine (kemur engum á óvart), prjónarnir nr. 3 og 4 og stærðin passar á 6-8 ára.


 

þriðjudagur, 31. desember 2024

Chunky Twist eyrnabönd


 Fyrir fimm árum prjónaði ég eyrnabönd fyrir okkur stelpurnar í fjölskyldunni, sex stykki. Í haust bað ein ömmustelpan mig um að prjóna aftur hvítt eyrnaband fyrir sig, því trúlega hefur það gamla verið orðið of lítið. Það er hér að ofan. Uppskriftin heitir Chunky Twist og fæst á Ravelry.



Þegar ég svo prjónaði peysurnar á þær í haust átti ég nógan afgang í eyrnabönd í stíl við peysurnar. Heppilegt að það er gert ráð fyrir Drops Air í eyrnaböndin, sama garni og ég var með í peysunum.

miðvikudagur, 18. desember 2024

Strákavesti


Ég prjónaði vesti á ömmustrákinn eina til að vera í yfir hátíðirnar. Hann hefur gaman af því að vera fínn og herralegur.


Ég studdist við uppskriftina Smáravesti frá Ömmu Loppu að mestu leyti, en breytti stroffunum þannig að ég hafði eina og eina í stað þess að hafa tvær sléttar og tvær brugðnar. Með því móti gat ég haft fallega úrtöku í vaffinu í stað þess að leggja á misvíxl og sauma niður eins og uppskriftin gerir ráð fyrir.


 Ég fitjaði upp á stærð 5-6 ára, en drengurinn er fimm ára síðan í haust, og hafði síddina nær 6-8 ára stærðinni, því hann er frekar langur. 

Garnið er Dale Lille Lerke, blanda af ull og bómull, og prjónastærðin var nr. 4.

fimmtudagur, 12. desember 2024

Dúkkukjólar


Fyrir um ári síðan saumaði ég kjóla úr þessu efni á ömmustelpurnar þrjár. Sniðið heitir Jerseykjole med sving for barn og er einnig til í fullorðinsstærð. Það er meira að segja líka til í dúkkustærð.


Þegar ég sneið kjólana á stelpurnar passaði ég að sjálfsögðu að nýta efnið eins vel og ég gat. Og til að ekkert færi til spillis sneið ég eins mikið af dúkkufötum og hægt var úr smá bútum sem annars hefðu farið í ruslið. Svo geymdi ég þetta í marga mánuði og saumaði loksins í haust.



Ég fékk út úr þessu þrjá kjóla og einn skokk (sem ég er ekki búin að sauma) og nokkrar nærbuxur á dúkkurnar. Ef vel er að gáð liggur út og suður í þráðréttunni hjá mér, aðalatriði var að ná sem mestu út úr efninu. Kjóllinn er sem sagt úr dúkkusniðapakka frá Ida Victoria, sem ætlaður er fyrir Baby born, en í þessu tilfelli passaði hann vel á OG dúkkurnar. Nærbuxurnar eru úr sama pakka, og líka frá Kreativistine.



 

sunnudagur, 24. nóvember 2024

Skólapeysur


Það var alveg kominn tími á að prjóna nýjar peysur á litla flokkinn minn. Nú eru börnin 5, 7 og 9 ára og ég þurfti að róa aðeins á önnur mið en venjulega eftir uppskriftum út af elstu stelpunum. Fyrr á árinu keypti ég bókina Skólapeysur sem Prjónafjelagið gaf út. Stærðirnar í henni eru fyrir 6-14 ára.


Þar valdi ég uppskriftina Selás til að prjóna eftir á stelpurnar. Ég var hins vegar með fínna garn en gefið er upp þannig í stað þess að fara eftir lykkjufjölda í stærð 10 ára fitjaði ég upp fyrir stærð 12 ára á þær elstu en hélt sídd á ermum og bol fyrir 10 ára. Það sama gerði ég hjá þeirri sjö ára, fitjaði upp fyrir 10 ára en hélt sídd fyrir 8 ára. Notaði uppgefna prjónastærð, no.6.


Þetta heppnaðist, allt passaði vel á þær. Hafði hálsmálið líka lægra og víðara en í uppskriftinni.


Mér hefur aldrei fundist gaman að prjóna upphækkanir með stuttum umferðum en þessi uppskrift bæði byrjar og endar á upphækkunum. Hins vegar fann ég íslenskt vídeó með aðferð sem gekk svona svakalega vel hjá mér að nota að upphækkanirnar urðu það skemmtilegasta í prjóninu.


Fimm ára pilturinn fékk peysu eftir uppskrift úr bókinni Prjónað af ást eftir Lene Holme Samsøe. Uppskriftin heitir Uppáhaldspeysa Sveins, stærð 6 ára.


Og hér eru allir komnir í peysurnar…..


Ég notaði Drops Air í stelpupeysurnar og prjóna no.6 og Drops Merino Extrafine í strákapeysuna. Öll börnin völdu sjálf lit fyrir sig.


 

fimmtudagur, 31. október 2024

🎃 👻 Hrekkjavaka 🕷️ 🕸️ 🎃

 

Það er alltaf svolítið gaman að gera smá hrekkjavökuskraut, sérstaklega þegar maður fylgist með erlendum facebook hópum. Kreative Kiwi er með mjög virkan og skemmtilegan hóp á fésinu og þar fær maður hugmyndir. Þessi graskersstæða kemur í nokkrum stærðum, mín er 45 sm á lengd. Þetta er sama munstur og í færslunni hér aðeins neðar en þar sleppti ég andlitunum.

 

Blýantaskrautið er úr filti. Margar í hópnum saumuðu svona til að gefa börnum, sem von var á að bönkuðu upp á, í staðinn fyrir sælgæti. Ég gaf barnabörnunum mínum fjórum það sem ég gerði, fjögur á mann.


Svo stóðst ég ekki þessar sætu vofur. Þær eru bókamerki, en ég setti líka lykkju efst.


Önnur útgáfa af graskerjunum, stök í mörgum stærðum, alveg upp í diskamottustærð.


Svo bætti ég fjórum laufblöðum eftir að ég var búin að sýna fimm önnur neðar á síðunni. Læt þau fljóta hér með.


Að lokum skelli ég líka þessu hjarta með, sem ég saumaði fyrir tæpum tveimur árum en hef aldrei sett hér inn á bloggið. Þá var ég nýbúin að eignast MySewnet forritið og var að prófa allt mögulegt skemmtilegt, þar á meðal þetta. Það er sem sagt hægt að setja texta inn í margvísleg form, ég valdi hjartað. Svo raðast orðin á ýmsan hátt með ýmsum leturgerðum, og þegar maður er ánægður með það sem maður sér er vinnan fólgin í að teygja og toga stafina þannig að orðin fylli upp í flötinn. 
Að sjálfsögðu valdi ég nöfnin á litla uppáhaldsfólkinu mínu.