Heildartala yfir síðuflettingar

föstudagur, 7. október 2011

Nýtt saumavélarborð

Í sumar var ég alveg með það á hreinu að mig vantaði saumavélarborð, þar sem saumavélin væri felld ofan í borðið. Mér finnst mjög vont að stinga stór teppi á þessum akrýlborðum sem fylgja vélunum sem bútasaumsborð. Það vill togast í teppin og er bara erfitt að mata vélina jafnt. Ég var búin að finna borð á netinu og ætlaði að panta þetta borð í gegnum ShopUSA. Það kostar 249 dollara en hingað komið var það á 70 þúsund!! Ég tímdi því alveg, því kosturinn við þetta borð er að það er fyrirferðarlítið og hægt að leggja það saman með örfáum handtökum.
En þá greip eiginmaðurinn inn í og bauðst til að smíða svona borð fyrir mig, enda er hann bæði einstaklega handlaginn og viljugur. Og nú er borðið tilbúið. Hann hafði stærðina á ameríska borðinu til viðmiðunar, en við gátum samt haft það aðeins lengra, eins og okkur fannst henta. Það er fest með festingum við gamla saumaborðið, og er algjörlega stöðugt fyrir vikið, og svo myndast mjög gott pláss á borðinu fyrir aftan til að taka við teppunum, því það er hornborð.
Svo vissi hann að ég vildi geta tekið borðið saman með örfáum handtökum og geymt það og því þyrfti að vera hægt að leggja fæturna saman. Ekki málið.....þá gerði hann það bara þannig.
Og rúsínan í pylsuendanum.....hann lét líka sníða heila plexíglerplötu til að ég gæti notað það sem ljósaborð þegar ég þyrfti, alveg eins og hægt er að gera á ameríska borðinu! Þetta borði kostaði sama og ekki neitt. Hann fékk MDF plötur hjá Húsasmiðjunni, fætur í IKEA og plexíglerplöturnar í Akron.

3 ummæli:

  1. Vá hvað þetta er frábært borð (og frábær eiginmaður). ;þ Ljósaborðið er náttúrulega bara það sem allar góðar saumakonur verða að eiga ;þ Það er hægt að gera svo ótrúlega margt á því. Til hamingju með þetta.

    SvaraEyða
  2. Ja hérna, ég held að hann ætti að fara að smíða í massavís, þetta borð er bara alger snilld!!! Frábært eintak af eiginmanni sem þú hefur nælt þér í ;)

    SvaraEyða
  3. Ég veit að ég var búin að setja hér inn skilaboð en þau virðast ekki hafa skilað sér svo ég segi það aftur: Heldur betur til hamingju með þetta borð. Þetta er argasta snilld.

    SvaraEyða