Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 11. mars 2025


Tvær ömmustelpnanna minna fengu sérherbergi fyrir síðustu jól. Þær fengu að velja sér liti á veggina sjálfar og fleira í herbergin.
 


Svo fannst þeim vanta púða í stíl við nýju litina og báðu ömmu sína að sauma fyrir þær púða sem þær teiknuðu sjálfar, eins og ég hef áður gert. Amman varð voða glöð yfir að vera beðin um þetta og hönnunarvinna systranna hófst um leið.


Aðalatriðið er að hafa teikninguna frekar einfalda með hreinar línur og engin aukastrik, allt sem sést á myndinni verður saumað. Ég fer svo sjálf ofan í blýantsstrikin með tússpenna.


Þær völdu sér efnin alveg sjálfar og líka hvar hvert efni átti að vera í hvorum púða. 
Þetta er sem sagt gert í appi frá MySewnet sem ég hleð niður í iPhone símann, vinn myndina aðeins í símanum, hreinsa aukastrik og svoleiðis, og sendi svo úr honum í útsaumsvélina, sem sér um restina.


fimmtudagur, 13. febrúar 2025

Vettlingar og sokkar




Fyrir utan kragann sem 5 ára leikskólastrákinn minn vantaði og ég sýndi í síðustu færslu, þurfti hann líka sokka og vettlinga. Amman hefur greinilega sofið á verðinum í prjónaskapnum og því var ekki um annað að ræða en að sitja dálítið við og prjóna. Vettlingarnir eru eftir uppskrift frá Storkinum sem heitir Randalíus og er frí á heimasíðu hans. Garnið er Drops merino extra fine.
 


Sokkarnir eru prjónaðir úr Fabel frá Drops eftir uppskriftinni Pitter Patter frá garnstudio.com.  Ég hef oft prjónað þessa uppskrift áður og hef sokkabolinn aðeins víðari en uppskriftin segir.



Allt sem ég prjóna á barnabörnin merki ég eins og hér að ofan, enda týnist fátt ef nokkuð.

þriðjudagur, 28. janúar 2025

Býkúpa


Ömmustrákinn vantaði nýjan kraga til að halda á sér hita í leikskólanum. Þessi heitir Býkúpa og er úr bókinni Prjónað af ást eftir Lene Holme Samsøe. Svo prjónaði ég húfu í stíl. Uppskriftin gefur upp húfu bæði með eyrnaskjólum og án.
Garnið er Drops merino extra fine (kemur engum á óvart), prjónarnir nr. 3 og 4 og stærðin passar á 6-8 ára.