Heildartala yfir síðuflettingar

föstudagur, 26. ágúst 2011

Skólataska

Mig bráðvantaði tuðru til að hafa með í vinnuna fyrir nestið, pappíra og prjónana (þeir eru nauðsynlegir á löngum fundum og námskeiðum - skerpa athyglina). Ég fann ekkert sem mér líkaði, og þá var ekki annað í boði en að sauma hana sjálf.
Ég átti efni með gamaldags skólamyndum sem ég keypti fyrir 12-14 árum í Glugghúsi í Hafnarfirði, en vissi aldrei hvað ég átti að gera við það. Ég tók það fram í gær og saumaði þessa tösku, og fór með hana í vinnuna í morgun - og er ánægð með útkomuna.
Ég er svakalega veik fyrir svona panelum, og þetta efni með saumavélunum keypti ég í Virku fyrir stuttu, og er búin að plana veggteppi með myndunum. Ég er líka svo hrifin af saumavélamótívinu sem slíku.
Svo kom ekkert annað til greina en að kaupa þetta í Quiltkörfunni í vetur, en hvað ætti ég að gera úr því? Mér dettur eitthvað í hug þótt síðar verði.
Mér finnst bara gaman að taka þetta efni upp og skoða það af og til.
Svo stóðst ég ekki mátið og keypti þetta jólaveggteppi í Bót á Selfossi í sumar. Mér finnst það bara svo fallegt, og hlakka til að búa til ramma og fá svo að stinga það af hjartans lyst.

mánudagur, 22. ágúst 2011

Mug Rug

Þessa könnumottu saumaði ég eftir pöntun. Þetta er bara önnur mottan sem ég sauma, en sú fyrri hefur verið í daglegri notkun síðan hún var saumuð. Gerði þessa eftir sama formi og hina í EQ7 en skipti bara um mynd.

sunnudagur, 14. ágúst 2011

Motta undir rokkinn

Fyrr í sumar var ég svo heppin að fá rokkinn hennar ömmu til eignar, en móðursystir mín hafði varðveitt hann. Amma var fædd árið 1899, og fékk rokkinn 15 ára gömul og spann á hann alla sína ævi. Hann er nettari en margir rokkar.
Ég heklaði mottu undir hann eins og ég sá undir rokkunum á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi í sumar. Uppskriftina fann ég í eldgömlu, sænsku heklublaði, Marks, en við mamma söfnuðum þeim hér áður fyrr og hekluðum í gríð og erg.

Hlaupastelpan á rokknum var týnd, en hún kemur ábyggilega í leitirnar síðar. Ég fékk hins vegar rokkasmið í Grafarvoginum, sem þær hjá Heimilisiðnarðarfélaginu bentu mér á, til að smíða nýja hlaupastelpu, og tókst það svona vel.
Svo fylgdi snældustokkurinn með, en ég á eftir að setja á hann hnykla.
Hér eru myndir af rokkunum frá Blönduósi,
og þar fékk ég hugmyndina að mottunni. Hún er hekluð úr léttlopa.

mánudagur, 8. ágúst 2011

Ný lopapeysa

Ég get ekki sagt að mig hafi VANTAÐ nýja lopapeysu, en bætti þó þessari í safnið í sumar af því að mig langaði í ljósa peysu. Ég prjónaði dökka í fyrra, og er hún mikið notuð. Þessi er prjónuð á prjóna nr. 7 úr tvöföldum plötulopa. Tölurnar eru úr skelplötu.

miðvikudagur, 27. júlí 2011

The Eldredge E

Ég datt heldur betur í lukkupottinn í gær. Lengi, lengi hefur mig langað í svona gamla saumavél, og helst af öllu eintak, sem hefur tilheyrt fjölskyldunni. Ég vissi af einni hérna áður fyrr, en hún var glötuð.
Ég var því aðeins farin að kíkja á vélar í antikbúðum, en langaði samt mest að fá vél tengda fölskyldunni eða öðrum kunnugum.
Í gær heyrði yngri bróðir minn mig tala um þetta, þar sem við hittumst í kaffi, og viti menn! Hann sagðist þá vera með svona vél í geymslunni hjá sér, sem hann hafði bjargað fyrir mörgum árum frá því að vera hent! Hann sótti vélina og færði mér hana!!! Hún var áður í eigu látinnar frænku okkar.
Brosið fór ekki af andlitinu á mér þegar ég ók heim með vélina í skottinu. Ég þurrkaði aðeins af henni og stillti henni upp, og er alveg rosalega ánægð með útlitið á henni, hefði ekki getað verið heppnari með eintak. Mér leið í gær eins og komin væru jól!

sunnudagur, 17. júlí 2011

Stjörnuteppi

Nú er ég búin að fá nýjan vegg, og auðvitað vantaði teppi á hann. Ég á reyndar fleiri nýja fleti sem þarf að hengja eitthvað á. Þessi veggur er hár, svo teppið varð að vera frekar langt.
Ég hef alltaf verið hrifin af stjörnum, hvort sem er í bútasaum, útsaum eða prjóni, svo það lá beint við að nota það mótív. Ég stal hugmyndinni af netinu, þar sem ég sá þetta teppi, og teiknaði blokkirnar upp í EQ7 og lengdi teppið, og bjó svo til rétta stærð fyrir mig. Stjörnurnar eru saumaðar með pappírssaumi.
Svo stakk ég allt með krákustígsspori, og var ég að prófa nýjan tvinna til að stinga fríhendis með, og gekk það eins og í lygasögu, en vélin mín er kresin með tvinna, hef lent töluvert í því að hún slítur hann, en þó hefur þetta verið mjög misjafnt. En núna var þetta bara gaman!

miðvikudagur, 6. júlí 2011

Riddari

Þessa peysu var ég að klára handa eiginmanninum. Ekki veitir af hlýjum lopafatnaði þar sem við erum á leið á Norðurlandið í sumarfrí....;)
Uppskriftin er úr Lopa 28 og heitir Riddari. Þar er hún prjónuð lokuð, en ég ákvað að hafa hana opna. Ermarnar virðast of síðar á myndinni, en eru það ekki í raun. Ég ætlaði að fara að spretta þeim upp í dag og taka úr umferðir, en þetta liggur sennilega í því að þær voru of teygðar þegar ég lagði peysuna til þerris, og dugar að bleyta þær aftur og leggja í rétt mál. Svona er að flýta sér, betra að hafa málbandið við hliðina!

föstudagur, 1. júlí 2011

Marti Mitchell í Virku

Fyrir rúmri viku kom Marti Mitchell í heimsókn í Virku. Hún var með smá námskeið og sýnikennslu, og mættu um 70 konur á svæðið, enda þröngt á þingi.
Marti Mitchell er þekkt fyrir kennslu sína og framleiðslu á stikum til að sníða eftir. Á tveimur efstu myndunum sýnir hún hvernig hægt er að gera teppi eftir tveimur mismunandi stærðum í stikusetti. Stærðirnar voru reyndar fleiri en þetta.
Ég á bókina með þessu teppi og stikurnar, og ætla að sauma það einn góðan veðurdag.
Svo keypti ég þessa stiku, Flying Geese Ruler, hún er mjög praktísk fyrir mig, þar sem þetta er eitt af uppáhalds munstrum mínum. Hins vegar er ég ekki mikil stikukona, þótt ég eigi þessa og bjálkakofastikurnar, því ég er svo mikið í pappírssaum og nota EQ7 við næstum allt sem ég geri. Mér fannst hins vegar mjög gaman að hitta þessa konu, því fyrsta bútasaumsbókin, sem ég keypti mér þegar ég var að byrja í bútasaum fyrir um 24 árum, var einmitt eftir hana. Svo hef ég horft á kennsluþætti og fleira með henni á QNNtv, og hún er svo skemmtileg, fræðandi og hógvær á allan hátt.

fimmtudagur, 23. júní 2011

Annar sumarkjóll

Fyrir síðustu helgi saumaði ég mér annan sumarkjól. Hann er saumaður eftir Onion sniði sem ég hef saumað þrjár flíkur eftir áður. Efnið keypti ég í Föndru.
Rykkingin í bakinu gerir mikið fyrir sniðið.