Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 25. maí 2021

Bútasaumsteppi handa systrum

Þessi tvö teppi saumaði ég handa 4 ára og tæplega 6 ára ömmustelpum sem eru systur. Áður hafði ég saumað handa systkinunum sem verða bráðum 6 ára og 2 ára. Teppin þeirra eru neðar á síðunni. Teppið hér að ofan fékk sú eldri.

Þessi tvö teppi eru mjög lík, en það munar samt einu efni, ef grannt er skoðað. En ég vildi hafa þau mjög svipuð.

Dömurnar eru nýfarnar að sofa í koju, og teppin eru í fullri stærð, ca. 2,15 x 1,40. Merkimiðann saumaði ég í útsaumsvélinni minni góðu.

Efnin keypti ég á útsölu hjá Panduro þegar þau lokuðu fyrir rúmu ári síðan, og hafði þetta munstur í huga þegar ég keypti þau.

Þetta er teppi yngri systurinnar. Bakefnið keypti ég hjá Bóthildi. Sá það á síðunni hennar og var ekki lengi að ákveða mig. Skiptir miklu máli að hafa bakefni sem passar, sérstaklega á rúmteppum sem er verið að þvælast með.

Ég stakk í öll saumför, og síðan í kross yfir allt, notaði málningarlímband til að fá beinar línur og í þær stungur notaði ég Cotty 30 stungutvinna frá Pfaff.

Nú prýða teppin kojuna og fara mjög vel þar. Nú eiga öll barnabörnin rúmteppi í fullri stærð.


 Hér fyrir neðan er sýnishorn af teppunum þeirra allra. Ég reyndi að láta litaval passa hverju og einu.


1 ummæli: