Heildartala yfir síðuflettingar

sunnudagur, 5. febrúar 2023

Bútasaumurinn merktur


Þegar ég tók niður jólabútasauminn núna í janúar greip ég tækifærið og merkti öll ómerkt teppi sem ég gekk frá, og hélt svo bara áfram með ýmis önnur teppi. T.d. hafði ég gleymt að merkja kokkateppið sem ég gerði fyrir ári síðan, skil nú reyndar ekkert í því. Ég tók bara minnstu útgáfuna af einni myndinni og minnkaði hana ennþá meira og bjó til merkimiða.


Í janúar fannst mér alveg kominn tími til að eignast flott útsaumsforrit og keypti My Sewnet Platinum forritið í Pfaff. Síðan er ég búin að skemmta mér vel við að skoða það, og sé að ég hef nóg að læra og prófa í útsaum. Hringlaga myndirnar eru allar úr Spiral fídusnum í því, endalausir möguleikar, og letrið tekið úr forritinu líka. Jólamyndirnar eru einnig þaðan, úr Super Design, en það passar svo vel í þessar merkingar því myndirnar eru svo litlar.


Það var hins vegar þrautin þyngri að finna út úr ártölunum á teppum sem ég saumaði áður en ég hóf þetta blogg árið 2009. Bloggið er handavinnudagbókin mín og þar get ég flett upp öllu mögulegu, en bútasaumurinn á sér sögu a.m.k. 15 ár lengra aftur í tímann. Ég lagðist í rannsóknarvinnu og notaði myndaalbúmin á heimilinu til að sjá hvort ég gæti lesið eitthvað út úr þeim, og niðurstaðan varð sú  að sumt var ég nokkuð örugg með en annað varð ég bara að tímasetja eftir tilfinningu. Ég kíkti til dæmis á útgáfuár einnar bókar sem ég sneið og saumaði eftir og sá að teppið var alla vega ekki eldra en hún. Svo hafði ég notað EQ forritið við sum teppin þannig að þar hafði ég viðmið, þó ég muni ekki alveg hvaða ár ég fékk það, en það var örugglega eftir að ég fékk fyrsta saumaherbergið mitt árið 2005. En þar með er þetta bara afgreitt.
 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli