Heildartala yfir síðuflettingar

sunnudagur, 30. maí 2010

Lítil saumamotta

Ég var að fletta í gegnum bloggið hennar LeKaQuilt, sem er mjög fallegt og áhugavert, og þá sá ég mjög einfalda hugmynd, sem ég er alveg hissa á að mér skuli ekki hafa dottið sjálfri í hug. Kannist þið ekki við það þegar þið eruð að sauma í höndum, kannski í hægindastól í stofunni, að það er eins og maður geti ekki almennilega lagt frá sér skærin, nálina, tvinnann o.s.frv.?
LeKaQuilt saumaði sér litla mottu fyrir smáhlutina! Auðvitað þurfti ég að gera svona líka. Ég ákvað að hafa þríhyrninga, því ég átti fullt af þannig afskurði úr öðrum teppum.
Ég prentaði út pappírssnið í hæfilegri stærð úr EQ6, þannig að hver ferningur er ein og hálf tomma.
Svo stakk ég í saumförin og líka fríhendis og voila!!

laugardagur, 22. maí 2010

Veggteppi

Þetta veggteppi var ég að ljúka við.
Það er úr smáum bútum eins og smáteppið sem ég gerði fyrir nokkru. En nú skar ég hvern bút 1,5 tommu, þannig að þeir urðu 1 tomma saumaðir.

Svo stakk ég blóm á ljósu svæðin. Ég teiknaði þau gegnum skapalón með penna, sem eyðist.

Ég notaði applíkeringarfót í rósirnar, og sneri stykkinu í hvert skipti sem ég þurfti að beygja, og þetta voru 38 blóm!! En mér leiddist ekkert. Vélin mín er líka svo stórkostleg að hún lyftir fætinum sjálf þegar ég stoppa og lætur hann svo sjálf niður þegar ég fer af stað. Annars væru úlnliðirnir á mér búnir.
Svo prófaði ég að nota málningarlímband til að sauma eftir beinar línur, og það tókst alveg glimrandi vel.
Í skurðinn notaði ég litla mottu, lítinn hníf og litla stiku!

Þessa stiku keypti ég í fyrra í Bót á Selfossi og hún er frábær í svona litla búta.

Hér gefur að líta efnin sem ég notaði. Þetta voru eintómir smábútar, sem ekki var hægt að gera neitt við, en ég straujaði þá og skar þessa litlu ferninga út. Efnin eru eldgömul, og ég á nóg eftir.
mánudagur, 10. maí 2010

Sítrussjal

Sítrussjalið prjónaði ég fyrir stuttu. Það er úr einbandi. Uppskriftin er frá Ístex. Það er svo hlýtt úti núna á meðan ég er að skrifa þetta að ég get ekki ímyndað mér að ég noti það fyrr en í haust.

mánudagur, 3. maí 2010

Skærapokar

Þessa skærapoka saumaði ég fyrir nokkrum dögum.
Þeir eru mjög einfaldir í gerð. Tvö efni í stærðinni A4 eru lögð saman með vatt á milli, og skáband saumað í kring. Síðan er brotið eins og myndin sýnir og jaðrar á hliðum saumaðir saman í höndum.
Svo er botninn brotinn upp og saumaður fastur með flottri tölu. Auðvitað má geyma fleira, sem passar í, t.d. gleraugu, skurðarhníf o.fl.
Hugmyndina að þessum pokum fékk ég á bútasaumssýningu Skraddaralúsa í Hvalfjarðarsveit á sumardaginn fyrsta. Þangað mættum við Anna Björg snemma dags ásamt elskulegum eiginmönnum okkar, og betri sumarbyrjun er ekki hægt að hugsa sér. Sýningin var mjög skemmtileg og hafi þær þakkir fyrir framtakið.