Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 25. maí 2022

Önnur golftreyja -Tynn Lilly-jakke

Þessi golftreyja er á aðra tæplega sjö ára ömmustelpuna mína, en hin sem er jafngömul fékk eins peysu í fölbleikum lit. Daman valdi sjálf þennan græna lit, fannst nóg komið af bleiku í fataskápnum sínum þegar við mamma hennar stungum upp á bleikum lit, og vildi breyta til. “Öll fötin mín eru bleik, herbergið mitt er bleikt…….”

Það er byrjað á berustykkinu og svo teknar upp lykkjur fyrir hálsmál og til að prjóna niður bolinn og ermarnar. Skemmtilegt að prjóna.

Uppskriftin er úr Klompelompe - Strikkefest. Garnið er Lanett og keypt í Rokku. Prjónarnir voru nr. 2,5 og 3, og í hnappalistana hafði ég þá nr. 2. Stærðin er á 8 ára.

 

laugardagur, 14. maí 2022

Ballerínur


 Það er hægt að gera svo margt skemmtilegt í útsaumsvélinni. Ég rakst á þessar ballerínur í vélsaumshóp sem ég er í. Mátti til með að prófa að sauma þær. Hér er tengill í munstrið.

föstudagur, 13. maí 2022

Ungbarnateppi

Þessi teppi saumaði ég til að gefa í söfnun handa úkraínskum börnum sem dvelja hér vegna stríðsins.

Verslunin Pfaff á Grensásvegi sendi út beiðni og tók við þeim fyrir hönd hjálparsamtaka sem óskuðu eftir teppum í ýmsum stærðum fyrir börn, og var sérstaklega óskað eftir bútasaumsteppum. Þessi teppi eru rúmlega 80 x 100 cm. Merkimiðana aftan á þeim hafði ég viljandi í gulu og bláu fánalitunum.

Ég tók glöð þátt í þessu og veit að það gerðu fleiri því nú þegar hafa nokkrir tugir teppa verið afhentir, og verkefnið heldur áfram.

Teppin eru saumuð úr efnum frá Panduro, en það eru helstu efnin úr safninu mínu sem passa í teppi fyrir börn.