Heildartala yfir síðuflettingar

laugardagur, 30. nóvember 2019

Glasamottur


Ég nota glasamottur út um allt hús eins og áður hefur komið fram, og nú eru ömmustelpurnar farnar að sýna þeim áhuga. 
Ég greip þess vegna tækifærið og fann þessar myndir í útsaumsvélinni minni góðu.
Ég saumaði í hörefni frá Ikea og rósótta efnið er frá Tilda.
Kemur mér mikið á óvart hvað ég hef gaman af að nota útsaumsvélina, hélt að ég kæmist aldrei á þann stað. 


föstudagur, 22. nóvember 2019

Prjónaðar samfellur


Prjónaði samfellur á fjórða barnabarnið eins og á öll hin. Systir hans notaði svona samfellur næst sér frá því hún fæddist, og ennþá er hún í samskonar nærbolum sem ég prjónaði á hana, komin á fimmta ár.

Þetta er minnsta stærðin, og eins og alltaf prjónuð úr Alpaca Silke frá Sandnes.


þriðjudagur, 19. nóvember 2019

Buxur


Uppskriftin af þessum buxum er í Babystrik på pinde 3, 3. hefti.
Ég prjónaði þær úr Drops baby merino.
Stærðin er á 0-3 mánaða.


mánudagur, 18. nóvember 2019

Heklaðir smekkir


Áður en litli ömmustrákurinn fæddist heklaði ég tvo smekki fyrir hann.
Uppskriftin er á tinna.is, og ég notaði Mandarin petit.

mánudagur, 4. nóvember 2019

Vorlilja


Það er meira en ár síðan ég prjónaði Vorliljuna mína. Er samt bara nýbúin að þvo hana og taka í notkun. Ég keypti garnið í garngöngunni 2018. Bleiki liturinn er handlitað garn frá Héraði, en grái er Yaku frá litlu prjónabúðinni, hvort tveggja dásamlega mjúkt.
Snilldin við þetta sjal er að það er eins á réttu og röngu þrátt fyrir garðaprjón, rendur og kaðal.

Snilldarhönnun frá Auði Björtu Skúladóttur.
Uppskriftina keypti ég í Handprjóni í Hafnarfirði.


laugardagur, 2. nóvember 2019

Skogtopplue


Einhvern tíma rakst ég á þessa húfuuppskrift á netinu.
Þegar ég fór að lesa hana nýlega sá ég að það átti að nota Drops Merino Extra Fine, en ekki á uppgefna prjónastærð fyrir það garn, sem er nr. 4, heldur á prjóna 3.
Ég átti heila dokku af þessum lit og gat ekki beðið með að prófa hvernig það gengi upp.
Ég gerði hana á eins árs þótt litli gæinn minn sé bara rétt að verða tveggja mánaða.  Húfan verður bara geymd.
En hún kom mjög vel út með þessari prjónastærð, þétt og hlý, og leggst vel að höfðinu.
Uppskriftin er frí á Ravelry.