Heildartala yfir síðuflettingar

föstudagur, 29. apríl 2011

Rósótt

Ég keypti pakka af efnum, skornum í 5" ferninga, í Quiltkörfunni, daginn sem búðin opnaði. Þetta voru eingöngu rósótt efni, og valin af handahófi, svokallaður "charm pack".
Það var töluverð áskorun að finna verkefni þar sem ég gæti notað þessi efni eingöngu. Svo fékk ég hugmynd þegar ég sá teppi á Keepsake Quilting. Ég flokkaði þau eftir litastyrk, í ljós, meðaldökk og dökk.
Meðaldökku efnin notaði ég óbreytt að stærð í miðjuna, ljósu efnin skar ég í 4 ferninga hvern bút og notaði í hornin, og svo skar ég dökka búta í tvennt til að nota í "sashing" (veit einhver um íslenskt orð yfir þetta?).
Miðjubútana stakk ég í gegnum pappír.
Ég gataði pappírinn með saumavélinni, nokkur stykki í einu, og þá var mjög fljótlegt að búa til 16 stykki.
Og munstrið til að stinga eftir fann ég að sjálfsögðu í EQ7.

föstudagur, 22. apríl 2011

Lúruteppi

Þetta lúruteppi var ég að ljúka við. Mig langaði í teppi þar sem ég gæti notað sem mest af efnunum mínum og nýtt litla búta líka. Svo varð ég voða ánægð þegar ég fór að undirbúa að sauma kantinn í kring og sá að ég átti nóg af afskurði af gömlum kantstrimlum sem ég gat skeytt saman og þurfti ekkert til viðbótar.
Mynstrið byggist upp á því að láta ljóst og dökkt ráða til skiptis. Ég stakk teppið fríhendis.
Ég sá fyrirmyndina sem bakgrunn í þætti á QNNtv sem ég er áskrifandi að og hef verið í nokkur ár. Ég krotaði það niður og teiknaði það svo í EQ7 forritinu mínu.
Ég skar hvern einasta bút í 16 búta ferningnum niður með þessari stiku, mest einn í einu.
Þeir urðu samtals 560 talsins. Þríhyrningarnir voru heldur fljótlegri þar sem ég saumaði þá fyrst saman sem 2 ferninga og skar svo skáhallt í sundur.


Svona leit teppið út í EQ7 hjá mér.

Gleðilega páska!

mánudagur, 18. apríl 2011

Cupcakes

Ég verð öðru hverju að sauma krosssaum. Nú er ég búin að prjóna allar borðtuskurnar, og er ekki bara næst á dagskrá að sauma út í viskastykkin?
Ég er alltaf dálítið veik fyrir þessu mótívi, og langar til að applíkera það einhvern tíma líka.
Útsaumsgarnið þolir suðu svo það er í fínu lagi að nota það á suðuþvott. Ég á annað viskastykki og fleiri bollakökumunstur svo allt er tilbúið þegar krosssaumurinn bankar upp á næst. Viskastykkin fást í Fjarðarkaupum, sem er hverfisbúðin mín, og útsaumsgarnið líka.

föstudagur, 15. apríl 2011

Herrapeysa

Þessi var að detta af prjónunum hjá mér. Ég prjónaði hana á eldri son minn, sem vildi hafa hana alveg einlita, en uppskriftin heitir Sátt og er í Lopa 29. Þar er hún prjónuð úr tvöföldum plötulopa á prjóna nr. 5,5. Ég notaði hins vegar léttlopa til að fá hana þynnri, en notaði sömu prjónastærð og í uppskriftinni.
Hann vildi hafa hana þrönga og ekki of stóra, og eins og sjá má þá smellpassar hún á manninn!

laugardagur, 9. apríl 2011

Ungbarnasett og dúkkuföt

Ég varð afasystir í annað sinn þann 5. mars. Þá fæddist Salvör Veiga, og um áramótin byrjaði ég að prjóna á hana. Mamma hennar valdi litinn. Uppskriftin er í Ungbarnablaði Tinnu nr. 11.

Uppskriftirnar af þessum eru úr prjónabókinni hennar Prjónajónu, Garn og gaman.

Svo þurfti stóra systir, Úlfhildur Sjöfn, að fá eitthvað á dúkkubarnið sitt líka.

Þetta sett er prjónað eftir hinum og þessum uppskriftum, sem ég hef sankað að mér.