Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 13. október 2021

Sporabók

Ég gerði það mér til skemmtunar nú í haust að sauma öll sporin sem er að finna í Pfaff creative 1.5 útsaumsvélinni minni. Þau eru 150 talsins fyrir utan leturgerðirnar. Ég nota þessa vél nær eingöngu fyrir útsaum, hef sáralítið saumað á hana að öðru leyti, enda hef ég aðra vél til þess. En þetta var gaman, og alltaf gott að fara í gegnum það sem hægt er að gera í vélinni eins og hnappagöt og að festa tölu í vél.


 

miðvikudagur, 6. október 2021

Verkefnataska

Ég hef endalausa þörf fyrir verkefnatöskur af öllum stærðum og gerðum. Þessi varð til fyrir stuttu, og var mig lengi búið að langa til að nota þetta munstur í Pfaff 1.5 útsaumsvélinni minni góðu.

Ég notaði hör frá Ikea og bútasaumsefni í sjálfa töskuna og gamlan rennilás, sem ég átti.

Ég hafði hana svo til eins báðum megin, gerði örlitlar litabreytingar á seinni hliðinni. 

Svo setti ég vatt undir fóðrið og stakk í saumavélinni. Mér finnst alltaf betra að hafa smá fyllingu í fóðrinu.