Heildartala yfir síðuflettingar

laugardagur, 23. desember 2017

Lille vinterkongle-jakke og Gull-lue


Ég held áfram að prjóna upp úr Klompelompebókunum, og nú úr Strikk året rundt.
 Þessi peysa fannst mér svo falleg af því hún hafði bara einn munsturlit.
Hún er prjónuð á yngstu ömmustelpuna, sem er tæplega 8 mánaða núna.


Húfan er líka úr bókinni, einföld og falleg.


Uppskriftin af treflinum er hins vegar úr heimferðasettablaði PrjónaJónu.

Í húfunni er Sandnes garn merinoull, en í peysunni og treflinum er Klompelompe tynn merinoull.

föstudagur, 22. desember 2017

Hálskragar


Prjónaði svona hálskraga á báðar tveggja ára ömmustelpurnar mínar, og þeir passa ljómandi vel.

Ég notaði sama garn og í húfunum í færslunni á undan, og sama lit, en myndin af húfunum kom allt öðruvísi út. 
Þetta er rétti liturinn.

laugardagur, 9. desember 2017

Lítill

Þetta er húfan Lítill úr Leikskólafötum. 
Ég prjónaði úr Drops Merino extra fine. 
Liturinn er miklu fjólublárri en á myndinni. Húfan passar sérlega vel á litla kolla.

mánudagur, 4. desember 2017

Klukka í saumaherbergið


Ég keypti pakka með efni í þessa klukku í Hannyrðabúðinni á Selfossi fyrir u.þ.b. þremur árum.

Hún var búin að liggja hjá mér að mestu búin í dálítinn tíma, vantaði meira af einum lit og svo finnst mér alltaf svo leiðinlegt að sauma útlínurnar í krosssaumi. En ég fann garnið sem vantaði, og þrælaði mér í afturstinginn.

Svo var hún römmuð inn í Tempó í Kópavogi og hangir nú á vegg í saumaherberginu.

laugardagur, 18. nóvember 2017

Verkefnatöskur


Nú sér maður út um allt á netinu að prjónafólk saumar sér verkefnatöskur. Þá er hver taska notuð undir eitt verkefni, og eru þá jafn margar töskur í gangi og verkefnin eru mörg.

Ég hef nú alltaf látið mér nægja körfur, en þetta er miklu þægilegra svona.

Ég grísaði nú bara á stærðina á þeirri fyrri, en var svo heppin að venjulegt prjónablað kemst auðveldlega fyrir líka.

Þá saumaði ég aðra í sömu stærð en breytti hlutföllunum á efnunum aðeins og setti blúndu.


föstudagur, 17. nóvember 2017

Billebælue

Uppskriftin af þessum sætu kanínulambhúshettum er í Klompelompe- strikk året rundt.
Þær eru prjónaðar úr tvöföldu garni, annars vegar úr Klompelompe Merinoull og hins vegar Lanett. Í uppskriftinni er gert ráð fyrir að notuð sé Klompelompe Tynn Merinoull í fínni þráðinn, en þar sem ég prjónaði þetta rétt áður en hægt var að fá það garn hér, notað ég Lanett. Það takmarkaði litavalið nokkuð, þar sem þetta voru einu litirnir sem pössuðu saman úr báðum tegundum, en ég er bara ánægð með litavalið. 
Hér eru svo dúllurnar mínar þrjár með lambhúshetturnar❤️❤️❤️

föstudagur, 3. nóvember 2017

Lítil jólasveinahúfa

Minnsta ömmustelpan mín, sem er 6 mánaða, fékk líka jólasveinahúfu.
Uppskriftin er úr Klompelompe, strikk året rundt.
Stærðin er á 6-12 mánaða.

mánudagur, 23. október 2017

Jólasveinahúfur


Ég prjónaði jólasveinahúfur á eldri ömmustelpurnar mínar tvær í sumar.  
Nú er ég líka búin að gera dúska og festa þá á, svo nú mega jólin koma.

Stelpurnar eru tveggja ára, og stærðin er á 2-5 ára.
Garnið heitir Nepal frá Drops, keypt í Gallery Spuna.
Uppskriftin er HÉR.

fimmtudagur, 19. október 2017

Alise finjakke


Þessar sparipeysur prjónaði ég á tvær eldri ömmustelpurnar mínar. 
Mér finnast þær passa vel með kjólum.

Bakstykkið finnst mér alveg æðislegt.
Vegna þess að þær eru bara tveggja ára valdi ég bómullargarn sem má þvo í vél á háum hita.

Uppskriftin er úr Klompelompe, strikk året rundt, þriðju stóru bókinni frá þeim.
Garnið, sem ég notaði er Mandarin petit, og stærðin er á tveggja ára.

miðvikudagur, 4. október 2017

Krosssaumsmynd

Ég byrjaði að sauma þessa mynd fyrir átján árum og var alls ekki lengi að klára hana, kannski eitt ár.
Það var mjög gaman að sauma hana.
En svo fór hún ofan í skúffu, og ég kom mér aldrei að því að fara með hana í innrömmun.
Öll smáatriðin í myndinni eru bara dásamleg. Spólur í öllum hornum.
En...nú er ég loksins búin að því, eftir að hafa þvegið hana og pressað. 
Hún fer upp á vegg í saumaherberginu.

miðvikudagur, 27. september 2017

Little Sister's Dress

Ég hef átt uppskriftina að þessum kjól í mörg ár, og prjónaði hann á litla frænku fyrir nokkrum árum.
Og nú var röðin komin að ömmustelpunum þremur. Stærri kjólarnir eru á tveggja ára og sá litli á eins árs.
Ég hafði þá alla eins, því ég á svo erfitt með að gera upp á milli í litum, nema ég sé beðin um ákveðna liti.
Kjóllinn er prjónaður ofanfrá og niður.
Ég notaði Mandarin petit og uppskriftin er ókeypis á Ravelry.

þriðjudagur, 19. september 2017

Leyniteppi Kathleen Tracy

Aldrei þessu vant þá tók ég þátt í leyniverkefni í fésbókarhóp Kathleen Tracy. Hún býr til snið og kennir að gera smáteppi. Hópurinn heitir Kathleen Tracy's Small Quilt Lovers. Hún er líka með blogg og er tengill í það hér til hliðar á síðunni minni.
Verkefnið byrjaði í febrúar og lauk í ágúst. Það teygði sig yfir nokkuð langan tíma, en það hafðist.
Það er kannski ekki mín sterkasta hlið að gera eitthvað svona í blindni, en ég hafði bara gott af þessu.
Reyndar notaði ég aðra aðferð en hinir, sem tóku þátt, því ég saumaði allt með pappírssaum, en sniðin voru gefin upp í málum sem átti að skera eftir. Ég teiknaði allt upp í EQ7 eftir þessum málum og prentaði út pappírssniðin. Mér finnst að svo miklu nákvæmara og þægilegra.

laugardagur, 5. ágúst 2017

Teppi úr léttlopaafgöngum

Alltaf safnast afgangar fyrir. Það eru tvö til þrjú ár síðan ég byrjaði á þessu teppi og ætlunin var að klára sem mest af léttlopanum.
Ég notaði dómínóprjón. Hef gert það áður til að nýta afganga.
Þegar teppið var búið átti ég enn afganga, og gerði þennan bleðil, hugsaði hann sem kisuteppi eða eitthvað svoleiðis.
Að lokum prjónaði ég bara allt sem eftir var í tvo bleðla í viðbót, kannski fyrir kisur líka.
Þetta er léttlopinn sem ég á núna. Þessar dokkur eru sérlitaðar, keyptar í Handprjónasambandinu, og tímdi ég ekki að setja þær í þetta.

mánudagur, 24. júlí 2017

Bella top

Lítil frænka mín varð 5 ára í júní.  Ég prjónaði handa henni skokk í afmælisgjöf.
Uppskriftin er úr bókinni Børnestrikk på pinde nr. 3,5-4 og heitir Bella top.  
Garnið heitir Sandnes Alpakka.  Stærðin er á 6 ára.

þriðjudagur, 11. júlí 2017

Nálamotta

Í mörg ár hef ég ætlað að sauma svona skipulagsmottu fyrir notuðu saumavélanálarnar mínar. Þær hafa legið hingað og þangað, og ég löngu búin að gleyma hvaða nálar voru hvað, og hverjar ég hafði notað í pappírssaum. 
Ég gerði lista yfir þær tegundir nála, sem ég á og nota, og saumaði nöfnin í saumavélinni.
Núna er allt á hreinu, og ég set títuprjón fyrir nálina, sem er í vélinni hverju sinni, í rétt hólf.

sunnudagur, 11. júní 2017

Kjóll á þá minnstu

Minnsta ömmustelpan mín, sem er um mánaðargömul fékk þennan kjól frá mér. 
Hann er með áföstum buxum, þannig að þetta er eins konar kjólasamfella.
Uppskriftin er frá Knitting for Olive, stærðin er á þriggja mánaða og garnið heitir Alba og fæst í Litlu prjónabúðinni.

miðvikudagur, 7. júní 2017

Afgangateppi

Ég hendi engum afgöngum, tími því ekki, og á þess vegna smáafganga frá síðustu þrjátíu árum.
Ég hef reyndar tekið mig til áður og gert teppi úr örsmáum afgöngum, sem ég hef ekki sett hér inn.
En stundum langar mig bara til að sauma eitthvað, þannig að ég opnaði "ruslaboxið" og skar niður litla ferninga þar sem það var hægt, og saumaði saman í blokkir. Þær lágu svo uppi á hillu í marga mánuði. 
Þá ákvað ég að setja þær saman í þetta litla teppi.
Rauða efnið á milli blokkanna og bláa efnið í kring eru afgangsræmur úr teppi sem mamma saumaði. 
Kanturinn er samsettur úr smáræmum líka.
Ég fæ mest út úr því að sauma og prjóna úr afgöngum, að láta ekkert verða að einhverju.