Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 30. desember 2009

Íslenska rósin

Þessi löber heitir "Íslenska rósin" og er sniðið eftir hana Elínu Guðjónsdóttur á Þverlæk.
Mér finnst svo frábært hvernig hún kemur íslenskum munstrum og þjóðlegum myndum inn í bútasauminn.Ég keypti sniðið í Quiltbúðinni á Akureyri í fyrra, og það eru nokkrir mánuðir síðan ég setti löberinn saman og átti í rauninni bara eftir að sauma niður kantinn og stinga. Það gerði ég milli jóla og nýárs.

Ég þurfti aðeins að velta því fyrir mér hvernig best væri að stinga, og eftir að hafa stungið í saumförin eins og venjulega varð niðurstaðan sú sem sést á myndunum.
Auðvitað freistaðist ég til að teikna rósina upp á pappír til að sauma eftir. Mér er ekki viðbjargandi þegar kemur að pappírssaum.

Reyndar áttu að vera fjórir litir í rósinni, og ætlaði ég að hafa rauðan, grænan, bláan og fjólubláan, en ég fékk ekki það jafnvægi á litina sem þurfti, og því hafði ég meira af rauða litnum, sem mér finnst bara koma vel út.
Núna er ég að sauma annan löber eftir Elínu, Þorralöber. Sýni hann þegar ég er búin.

sunnudagur, 27. desember 2009

Heklað á aðventunni

Ég datt í það að hekla á aðventunni. Þessar bjöllur gerði ég á seríur og gaf aðra þeirra.
Ég stífaði þær á frauðplastbjöllur, sem fást í föndurbúðum. Mínar voru keyptar í föndurbúð inni í Mörkinni í Reykjavík og eru 5 cm háar.
.Sykurvatnsblönduna hafði ég einn á móti einum. Seríurnar fékk ég í Garðheimum.
Svo hef ég lengi ætlað að hekla svona diskadúka. Nú lét ég verða af því og heklaði sex stykki.
Mér finnst gaman að leggja eitthvað ofan á diskana þegar ég dekka borðstofuborðið, sérstaklega þegar ég dekka fyrir aðfangadagskvöld á Þorláksmessu. Hér er uppskriftin. Ég heklaði stærri dúkinn en notaði Solberg heklugarn og nál nr. 1.75.

sunnudagur, 20. desember 2009

Heklaðar stjörnur

Þessar stjörnur heklaði ég fyrir jólin í fyrra, en nennti aldrei að ganga frá endunum. Ég heklaði milli 30 og 40 stykki. Uppskriftin er úr Hendes Verden nr. 37 2008. Þessi hjörtu gerði ég líka. Þau eru hekluð eftir uppskrift á Garnstudio.com. Núna dreif ég mig í að ganga frá endunum, og stífaði síðan allt í sykurvatni, 2 hlutum vatns á móti einum af sykri, og strekkti þær létt á einangrunarplasti með títuprjónum. Meiningin er að strá þeim yfir borðdúka og gluggakistur, og kannski eitthvað fleira. Ég hef séð svipaðar stjörnur á Garnstudio.com.

sunnudagur, 13. desember 2009

Peysa og jólasveinahúfa

Þessa peysu prjónaði ég handa minnstu frænku minni, henni Úlfhildi Sjöfn, afabarninu hans bróður míns, en hún átti tveggja ára afmæli þann 10. desember, og hélt upp á afmælið sitt á laugardaginn.
Uppskriftin er úr Lopa 29.

Svo stóðst ég ekki mátið þegar ég opnaði gluggann á jóladagatalinu mínu þann 1. desember, og gerði þessa jólasveinahúfu líka, úr alpacaull.
Mér finnst voða gaman að opna glugga á hverjum degi í desember fram að jólum.mánudagur, 7. desember 2009

Þjóðleg sería

Hef ég nokkurn tíma minnst á það hversu gaman mér þykir að prjóna úr afgöngum? Þessa uppskrift rakst ég á á netinu, og um leið og ég sá að í hana voru notaðir afgangar af léttlopa, varð ég að prófa hana. Þetta var fljótgert, og ég heklaði utan um 20 perur.
Gerist það þjóðlegra?

föstudagur, 4. desember 2009

Desember!!

Ótrúlegt en satt! Nú er ég búin með myndir fyrir alla mánuði ársins. Nóvember fékk reyndar aðeins að hanga uppi í 9 daga, en betra er seint en aldrei. Þetta var verkefni af síðunni
Ellie´s Quiltplace, ein mynd á mánuði árið 2009.