Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 25. janúar 2022

Púðar handa barnabörnunum

Fyrir 1-2 árum horfði ég á vídeo frá Stoff og Sy í Danmörku þar sem Lene sýndi hvernig hún gat tekið mynd af einfaldri teikningu á spjaldtölvuna sína í gegnum ákveðið app, sent saumavélinni myndina sem saumaði hana síðan í útsaumsramma. Vá, hvað mér fannst þetta geggjað. Þetta var hins vegar Epic útsaumsvél og ég vissi að ég var ekki á leiðinni þangað, tvær Epic vélar væru of mikið.

Ég var hætt að hugsa um þetta þegar kona, sem tók þátt í norsku saumakeppninni fyrir þremur árum og ég fylgi á Instagram, gerðist Husqvarna sendiboði í Noregi, eða ambassador eins og þeir kalla það. Hún var að nota Sapphire 85 útsaumsvélina og í einni færslunni sýndi hún hvernig hún teiknaði mynd, saumavélin saumaði myndina og úr varð prjónapoki. Það var sem sagt búið að setja þennan fídus í ódýrari vélarnar líka! Þessi staðreynd hjálpaði mér verulega við að taka ákvörðun um að kaupa þessa vél.

Ástæðan var fyrst og fremst sú að mig langaði að taka myndir teiknaðar af barnabörnunum og sauma þær. Um daginn voru Ylfa og Una í heimsókn, ég útskýrði fyrir þeim hvað mig langaði að gera og bað þær að teikna myndir. Ég átti mynd frá Auði sem ég notaði, vissi ekki hvenær ég myndi hitta hana næst, og Bjarki er bara tveggja ára og ekki farinn að teikna myndir handa ömmu sinni, svo ég saumaði handa honum mynd systur hans.

Appið heitir QuickDesign App og fæst það ókeypis í Appstore, fæst líka fyrir Android. Maður þarf að vera skráður inn í MySewnet til að geta notað það. Ég miklaði þetta aðeins fyrir mér, hélt að eitthvað myndi klikka, en það gerðist ekki. Tók mynd, vann hana aðeins í appinu og sendi á vélina og saumaði hana! Ekkert flókið. 

Og mikið var þetta gefandi verkefni fyrir mig og börnin, þau voru hissa og þótti vænt um að fá púðana. Ég sendi þeim líka vídeó af því þegar vélin var að sauma þeirra púða.


Ég er með ýmsar hugmyndir að fleiri verkefnum með þeim, ætla smám saman að safna myndum frá þeim sem henta í þetta.

 

þriðjudagur, 18. janúar 2022

“Heklaðir” dúkar

Einhvern tíma þegar ég var stödd í Pfaff rak ég ég augun í, að ég hélt, heklaða dúka í saumavéladeildinni. Ég skildi ekki alveg samhengið, af hverju voru þeir þarna hjá saumavélunum? Jú, þeir voru ekki heklaðir, heldur gerðir í útsaumsvél! Þegar ég kom heim leitaði ég í munsturbókinni sem fylgdi vélinni minni og fann m.a. þessa tvo og prófaði að sauma þá. Sem yfirtvinna notaði ég 30 wt. bómullartvinna (fékk hann í Pfaff) og í spólunni var overlocktvinni í sama lit. Þetta gekk bara glimrandi vel, en vélin þurfti góð þrif á eftir, mikil ló af tvinnanum (svört þar að auki).  

Ég hafði þá svarta vegna þess að mig vantaði svart undirlag undir þessar flottu kertaluktir mínar, sem Guðný Hafsteinsdóttir, keramiker, gerði.

 

sunnudagur, 16. janúar 2022

Bútasaumsmerkingar

Ég notaði tækifærið þegar jólabútasaumurinn var tekinn fram og merkti nokkur teppi sem voru ómerkt. Það var ekki alveg þrautalaust að finna út úr ártalinu á þeim elstu, mikil rannsóknarvinna sem fólst m.a. í því að fletta gömlum albúmum og skoða útprentuð gögn úr tölvu. Sumt gat ég ekki staðsett í tíma með öruggri vissu, en það skiptir þá ekki höfuðmáli. Reyndi að hafa merkin jólaleg og fannst þetta bráðskemmtilegt verkefni fyrir útsaumsvélina.


 

miðvikudagur, 12. janúar 2022

Stjörnur

Milli jóla og nýárs prófaði ég að sauma út frístandandi stjörnublúndu. Þessi er í vélinni minni, svo ég notaði hana.

Ég tók frekar stóran ramma og raðaði sex stykkjum á hann, en hefði komið fyrir fleiri. Áður var ég búin að sauma eina til prufu á lítinn ramma. Ég notaði sama útsaumstvinna í spóluna og í yfirtvinna.

Þær heppnuðust bara vel, og þegar ég skolaði úr þeim vatnsleysanlega undirlagið passaði ég bara að skola hæfilega mikið úr svo þær yrðu stífar, og þurrkaði svo undir fargi.

Ég hengdi þær á jólatréð fyrir myndatökuna, en þær bíða annars næstu jóla. Ég á lítið jólatré þar sem ég hengi skraut sem ég geri sjálf, kannski fara þær þangað. 

 

sunnudagur, 9. janúar 2022

Taska með rennilás

Þessi herralega taska var hluti af jólagjöf, merkt eigandanum. Hún er fóðruð með vatti og stungin að innanverðu.


 

miðvikudagur, 5. janúar 2022

Vorlilja og Erla

Endurnýjaði kynni mín við Vorlilju og prjónaði þessa handa annarri tengdadótturinni í jólagjöf. Alltaf gaman að prjóna þessa uppskrift. Hún valdi sjálf litina, enda fara þeir henni mjög vel.

Garnið, sem er frá Rohrspatz & Wollmeise, kemur í 150 gr. hespum og þess vegna gat ég prjónað eitt par af Erlu í stíl, en það mátti ekki tæpara standa, tveir örlitlir hnyklar afgangs. Litirnir heita Krafla (sá dekkri) og Total edel (sá ljósari). Keypti garnið í Handprjóni og prjónastærðin var 3,5.


 

mánudagur, 3. janúar 2022

Trítill


 Í desember prjónaði ég vettlinga á litla flokkinn minn. Þau eru tveggja, fjögurra og tvær sex ára. Uppskriftin er Trítill úr leikskólafötum, sem mér finnst besta vettlingauppskriftin fyrir börn. Bæði passar hún vel og svo er sama á hvora hendina vettlingurinn fer, hann passar á báðar. Garnið heitir Hot Socks Lazise frá Gründl, keypt í Rokku, og prjónarnir nr. 3 og 3,5.