Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 30. desember 2009

Íslenska rósin

Þessi löber heitir "Íslenska rósin" og er sniðið eftir hana Elínu Guðjónsdóttur á Þverlæk.
Mér finnst svo frábært hvernig hún kemur íslenskum munstrum og þjóðlegum myndum inn í bútasauminn.Ég keypti sniðið í Quiltbúðinni á Akureyri í fyrra, og það eru nokkrir mánuðir síðan ég setti löberinn saman og átti í rauninni bara eftir að sauma niður kantinn og stinga. Það gerði ég milli jóla og nýárs.

Ég þurfti aðeins að velta því fyrir mér hvernig best væri að stinga, og eftir að hafa stungið í saumförin eins og venjulega varð niðurstaðan sú sem sést á myndunum.
Auðvitað freistaðist ég til að teikna rósina upp á pappír til að sauma eftir. Mér er ekki viðbjargandi þegar kemur að pappírssaum.

Reyndar áttu að vera fjórir litir í rósinni, og ætlaði ég að hafa rauðan, grænan, bláan og fjólubláan, en ég fékk ekki það jafnvægi á litina sem þurfti, og því hafði ég meira af rauða litnum, sem mér finnst bara koma vel út.
Núna er ég að sauma annan löber eftir Elínu, Þorralöber. Sýni hann þegar ég er búin.

sunnudagur, 27. desember 2009

Heklað á aðventunni

Ég datt í það að hekla á aðventunni. Þessar bjöllur gerði ég á seríur og gaf aðra þeirra.
Ég stífaði þær á frauðplastbjöllur, sem fást í föndurbúðum. Mínar voru keyptar í föndurbúð inni í Mörkinni í Reykjavík og eru 5 cm háar.
.Sykurvatnsblönduna hafði ég einn á móti einum. Seríurnar fékk ég í Garðheimum.
Svo hef ég lengi ætlað að hekla svona diskadúka. Nú lét ég verða af því og heklaði sex stykki.
Mér finnst gaman að leggja eitthvað ofan á diskana þegar ég dekka borðstofuborðið, sérstaklega þegar ég dekka fyrir aðfangadagskvöld á Þorláksmessu. Hér er uppskriftin. Ég heklaði stærri dúkinn en notaði Solberg heklugarn og nál nr. 1.75.

sunnudagur, 20. desember 2009

Heklaðar stjörnur

Þessar stjörnur heklaði ég fyrir jólin í fyrra, en nennti aldrei að ganga frá endunum. Ég heklaði milli 30 og 40 stykki. Uppskriftin er úr Hendes Verden nr. 37 2008. Þessi hjörtu gerði ég líka. Þau eru hekluð eftir uppskrift á Garnstudio.com. Núna dreif ég mig í að ganga frá endunum, og stífaði síðan allt í sykurvatni, 2 hlutum vatns á móti einum af sykri, og strekkti þær létt á einangrunarplasti með títuprjónum. Meiningin er að strá þeim yfir borðdúka og gluggakistur, og kannski eitthvað fleira. Ég hef séð svipaðar stjörnur á Garnstudio.com.

sunnudagur, 13. desember 2009

Peysa og jólasveinahúfa

Þessa peysu prjónaði ég handa minnstu frænku minni, henni Úlfhildi Sjöfn, afabarninu hans bróður míns, en hún átti tveggja ára afmæli þann 10. desember, og hélt upp á afmælið sitt á laugardaginn.
Uppskriftin er úr Lopa 29.

Svo stóðst ég ekki mátið þegar ég opnaði gluggann á jóladagatalinu mínu þann 1. desember, og gerði þessa jólasveinahúfu líka, úr alpacaull.
Mér finnst voða gaman að opna glugga á hverjum degi í desember fram að jólum.mánudagur, 7. desember 2009

Þjóðleg sería

Hef ég nokkurn tíma minnst á það hversu gaman mér þykir að prjóna úr afgöngum? Þessa uppskrift rakst ég á á netinu, og um leið og ég sá að í hana voru notaðir afgangar af léttlopa, varð ég að prófa hana. Þetta var fljótgert, og ég heklaði utan um 20 perur.
Gerist það þjóðlegra?

föstudagur, 4. desember 2009

Desember!!

Ótrúlegt en satt! Nú er ég búin með myndir fyrir alla mánuði ársins. Nóvember fékk reyndar aðeins að hanga uppi í 9 daga, en betra er seint en aldrei. Þetta var verkefni af síðunni
Ellie´s Quiltplace, ein mynd á mánuði árið 2009.

miðvikudagur, 25. nóvember 2009

Nóvember

Þá er ég loksins búin að sauma nóvembermyndina, og ekki seinna vænna þegar aðeins 5 dagar eru eftir af mánuðinum. Þá eru myndirnar orðnar ellefu og ein eftir. Ég verð að viðurkenna að svona mánaðarskammtar af verkefnum eru ekki alveg minn stíll, ég fer mest eftir löngun og tilfinningu þegar ég vel mér verkefni. En ég er samt ánægð að hafa klárað þetta og gaman að geta hengt myndirnar upp á réttum tíma næstu árin.

mánudagur, 23. nóvember 2009

Flöskupeysur

Rauðvínsflöskur frá Chile komnar í íslenskan, þjóðlegan lopaklæðnað. Að sjálfsögðu er þetta prjónað úr afgöngum, og uppskriftina fann ég í Húsfreyjunni, 1. tölublaði 2009.

laugardagur, 14. nóvember 2009

Lopapeysa

Þessa lopapeysu kláraði ég sunnudaginn fyrir viku síðan, og var að fara í hana í fyrsta skipti í dag!Hún er prjónuð úr tvöföldum plötulopa á prjóna nr. 7. Litirnir koma því miður ekki alveg réttir út á myndunum, hún virðist grá og bleik, en er svört og dökkrauð með ljósgráu. Ég keypti náttúrulegar skelplötutölur í Gallerý Söru. Þær eru fisléttar miðað við stærð og fallegar. Til gamans ætla ég að geta þess að þessi færsla í dag er sú hundraðasta hjá mér.

mánudagur, 2. nóvember 2009

Fönn

Um helgina lauk ég við að ganga frá þessari léttlopapeysu á yngri son minn, sem er 25 ára.
Uppskriftin er úr Lopa 25 og heitir "Fönn".
Hún er reyndar ekki með rennilás í uppskriftinni, og ég breytti stroffum og kraga.

laugardagur, 31. október 2009

Handtak

Ég held áfram að prjóna úr afgöngunum mínum af léttlopanum.
Þessi uppskrift er í Lopa 29 og heitir "Handtak". Í handavinnuumræðunni á Barnalandi hef ég séð að hjá nokkrum konum, sem hafa prjónað þessa vettlinga, hafa þeir orðið of stórir, en mínir smellpössuðu, og er ég þó frekar handnett. Ég prjónaði vettlingana fyrir þremur vikum, en nennti aldrei að ganga frá þeim. Skýringuna er að finna á myndinni hér að ofan, en þegar ég var búin að festa alla enda, reyndust þeir vera 98 talsins!

miðvikudagur, 28. október 2009

Prjónaður skokkur

Var að ljúka við að prjóna þennan skokk úr léttlopa. Uppskriftin heitir "Keðja" og er úr Lopa 28. Ég ákvað að hafa peysuna ermalausa, annars yrði hún of heit, og svo verð ég bara í svörtum, síðerma bol innan undir. Síddin er rétt ofan við hné.

mánudagur, 19. október 2009

Sokkar úr afgöngum

Um daginn flokkaði ég allt garnið mitt betur, og setti allt í glæra plastpoka. Ég sá að það hafði safnast aftur fyrir heilmikið af léttlopa.
Þessir sokkar á tveggja ára urðu til fyrir framan sjónvarpið á kvöldin nú í september og fram í október.

Eins og sést, þá er nóg eftir í körfunni. Uppskriftin er úr tímariti Heimilisiðnaðarfélagsins, Hug og hönd 2008. Ég reikna með að sokkarnir fari til Rauða krossins.föstudagur, 9. október 2009

Október

Þá er október kominn upp. Að þessu sinni var það dálítill höfðuverkur hvað ég ætti að gera, því munstrið frá Ellie´s quiltplace, sem hægt er að smella á hér til hliðar á blogginu, var í anda hrekkjavökunnar amerísku. Þar sem ég hef aldrei verið hrifin af þeirri hátíð eða því sem fylgir henni, þá fannst mér ég þurfa að gera eitthvað annað.
Þann 5. október varð mér litið á almanakið mitt góða, og sá þá þetta haustlauf, sem var svo vel við hæfi. Ég teiknaði það í EQ6 og saumaði með pappírssaum.


þriðjudagur, 6. október 2009

Borðklútar

Eftir að ég byrjaði að prjóna mér borðklúta, vil ég helst ekki sjá neitt annað. Mér finnast þeir bara miklu betri en búðarkeyptir. Ég er búin að prófa nokkrar uppskriftir, og ég var búin a sjá svona borðklúta á síðunni hennar Timotei. Þeir eru prjónaðir með tvílitu klukkuprjóni. Ég prjónaði þá núna í september.
Þetta munstur er svo skemmtilegt vegna þess að öðru megin er ljósi liturinn ríkjandi, og hinu megin sá dökki. Á myndinni hér að ofan snýr önnur hlið upp en á þeirri fyrir neðan, en allt í sömu röð annars.
Ég stefni að því að losa mig við þessa gömlu, og sem betur fer gat ég látið slatta af þeim fylgja syni mínum, sem er nýfarinn að búa sjálfur. Garnið sem ég nota er Mandarin petit.

þriðjudagur, 29. september 2009

Mjólk í mat - íslenskt og þjóðlegt


Þessa veggmynd saumaði ég fyrir 2-3 árum. Ég saumaði reyndar tvær, og gaf þær báðar, og er svo alltaf á leiðinni að sauma eina fyrir sjálfa mig. Á þeirri efri á ég bara eftir að setja krækiberin út á skyrið. Myndin er eftir Elínu Guðjónsdóttur á Þverlæk, og ég hef áður sýnt tvö verkefni eftir hana, sem ég hef saumað, en það voru epladúkurinn og "Vetur í bæ". Ég minnkaði munstrið niður í 70% af upphaflegri stærð, því það passaði betur því plássi sem þær voru ætlaðar. Ég hef alltaf verið hrifin af þjóðlegri handavinnu, og finnst aðdáunarvert þegar konur hanna þjóðleg verk fyrir bútasaum. Næst á dagskrá hjá mér er að sauma löber eftir Elínu, sem ber heitið "Íslenska rósin".þriðjudagur, 22. september 2009

Bútaútsaumsmyndin

Þá er ég búin að ganga frá krosssaumsmyndinni sem ég byrjaði á snemma í sumar. Ég notaði eingöngu garnafganga í bútana sjálfa og það var oft heilmikil þraut að láta litina ganga upp, því sumt kláraðist og þá varð ég að nota annað í staðinn, og svo þurfti að vera visst jafnvægi líka.
Ég er svo veik fyrir rauðu, að ég varð að stilla mig um að kaupa viðbót af þeim lit, en þurfti svo hvort sem er að kaupa lit til að sauma á milli allara bútanna sem "sashing", og þá valdi ég að sjálfsögðu rautt!
Ég stakk í höndum kringum hvern einasta bút, yfir eitt spor og undir eitt, og þá kom dálítil lyfing í bútana.
Svo setti ég bara vatt og bak, og kant eins og venjulega, og stakk þrjár umferðir í höndum í kring.