Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 18. febrúar 2021

Vesti


 Þetta vesti fékk lítill frændi minn sem fæddist í lok nóvember. Það var prjónað á ömmustrákinn minn fyrir jólin en reyndist of lítið og gerði ég annað á hann sem ég sýni hér aðeins neðar á síðunni. Stærðin er fyrir 12-18 mánaða, en nokkuð þétt prjónað hjá mér. Garnið er Drops baby merino og uppskriftin er frá Garnstudio.

fimmtudagur, 11. febrúar 2021

Husqvarna Viking Amber Air S 400

Í mörg ár var ég búin að horfa á Babylock overlockvélar á netinu sem gátu þrætt gríparana sjálfar með lofti og óskað þess að ég ætti svona vél. En þetta merki fæst ekki á Íslandi og þar með var málið úr sögunni. Þó Huskylock 936 vélin mín sé frábær, með mjög fallegt spor, saumaráðgjafa og stilli sjálf t.d. mismunaflutning og sporlengd eftir efnisgerð, þá var bara stundum rosalega erfitt og tímafrekt að þræða hana. Einstaka sinnum tókst það strax en oftar þurfti ég að gera nokkrar tilraunir. Þá miklar maður meira fyrir sér að þræða hana næst sem veldur því að hún er sjaldnar notuð og þá æfist maður minna í að þræða. Það kom oft fyrir að mér datt í hug að grípa hana, leit á tvinnann og sá að ég þyrfti að skipta og hætti við.

En...nú eru breyttir tímar, einkaleyfi Babylock á loftþræðingu er útrunnið og nú hafa aðrir framleiðendur sett þetta í sínar vélar. Fyrir um einu og hálfu ári sá ég að Husqvarna var komið með loftþrædda overlockvél. Ég trúði varla mínum eigin augum og vissi strax að ég myndi einhvern tíma kaupa mér hana. Ég beið samt aðeins og fylgdist með en fékk hana svo í lok september á síðasta ári í Pfaff.

Og hún er bara frábær!!  Ég byrjaði á að æfa mig í dúkkufatasaum, sem ég hefði aldrei gert á eldri vélinni minni. Gat meira að segja saumað stroffhring í hálsmál án vandkvæða. Ég bar saman vélarnar til að reyna að átta mig á af hverju þetta væri svona auðvelt á nýju vélinni og komst að því að hnífurinn sker heilum sentímeter nær nálunum en á gömlu vélinni og það munar öllu.

Núna er ég enga stund að græja vélina fyrir það sem ég vil sauma og skipti um tvinna eins og vindurinn. Hún er með nálaþræðara og fallegt spor sem ég þarf varla að stilla. Rúllufaldur þarf þrjár stillingar sem tekur fimm sekúndur að framkvæma. Og svo er hún bara svo falleg ❤️ Mér finnst það skipta máli.


https://youtube.com/playlist?list=PLvE6jwvXA4CFvqwi9kNxzxcBiCgTwE5Oy
 Hér er hægt að sjá mjög góð kennslumyndbönd fyrir vélina á Youtube.

sunnudagur, 7. febrúar 2021

Hárbönd


 Fyrir nokkrum vikum saumaði ég hárbönd á ömmustelpurnar þrjár. Þær eru allar með sítt hár og þurfa eitthvað til að halda hárinu frá andlitinu. Aðferðin við að gera þau er sýnd hjá @traadsnella á Instagram. Ég mjókkaði þau aðeins, skar þau 18 sm á breiddina og hafði þau ca. 3 cm styttri en ummál höfuðs, en þetta fer örugglega eitthvað eftir teygjanleika efnisins líka. Mitt efni teygist í meðallagi mikið. Fínt að nota í þetta afganga ef þeir eru til.

sunnudagur, 24. janúar 2021

Stripa

Eftir teppið í síðustu færslu hélt ég áfram að kíkja í körfuna sem geymir afgangana mína og í einum pokanum voru nokkrir hnyklar af Drops Air. Vinkona mín keypti fyrir mig norska bók í Ósló og langaði mig aðallega í hana út af einum trefli, þessum hér, og heitir uppskriftin Stripa.  Hann er einlitur í bókinni og prjónaður úr Drops Air.

Ég ákvað að nota bara afgangana í þetta og liggur við að mér finnist það bara flottara. Bókin heitir Sjal og skjerf. Strikking hele året. Hún er eftir Britta Mikkelborg. Ég byrjaði reyndar á að prjóna sjal upp úr henni og á örugglega eftir að nota hana meira. En trefillinn er mjög góður og notaður næstum daglega núna.


 

miðvikudagur, 20. janúar 2021

Dómínóteppi úr afgöngum

Fyrir nokkrum mánuðum flokkaði ég alla garnafganga vel eftir tegundum og setti í glæra poka. Ég á mikið af ungbarnagarni, og ég tók alla minnstu hnyklana og hafði þá sér og fylltu þeir alveg gráan ikea renniláspoka, eins og maður notar í eldhúsinu. Á aðventunni vantaði mig eitthvað að prjóna og greip þessa afganga og byrjaði að prjóna ferninga með dómínóprjóni, þar sem ekkert þarf að sauma saman. Ég átti nú alveg eins von á að ekkert yrði úr þessu en svona varð útkoman. Þetta er ekki stórt, 70x88 sm, en ömmustelpurnar tóku það til handargagns þegar þær voru hjá mér í vikunni og önnur þeirra lagði sig undir því. Garnið kláraðist alveg, pokinn er tómur, en ég bætti aðeins við rauða litinn í kantinum til að klára. 

þriðjudagur, 19. janúar 2021

Veski fyrir heyrnartól

Ég hef lengi ætlað að sauma svona veski fyrir símaheyrnartólin. Hver þekkir ekki að hafa heyrnartólin laus í töskunni eða hanskahólfinu í bílnum þar sem þau flækjast í það sem er þar fyrir. Þessi veski leysa málið. Saumaði núna eitt fyrir mig og annað fyrir eiginmanninn. Ég setti hring fyrir lyklakippu á þau en þess þarf ekki. Ég á haug af þessum tólum en setti þau sem ég nota mest í veskið. Læt hér fylgja tengil á myndband sem kennir aðferðina við saumaskapinn.


 

miðvikudagur, 13. janúar 2021

Náttkjólar og dúkkukjólar

Mig langaði að stinga náttfötum í jólapakka ömmubarnanna og þá kom í ljós að tvær af ömmustelpunum mínum, systurnar, vilja bara sofa í náttkjólum núorðið. Þess vegna var bara einfaldast að sauma þá sjálf og notaði ég sama snið og á leikskólakjólnum sem ég skrifaði um í síðustu færslu, Onion 20047. Efnið fékk ég í Föndru, lífræna bómull. Stærri kjólarnir eru í stærð 116 á fimm ára stelpurnar og sá minni í stærð 104 á þriggja ára dömuna. Þær sváfu allar þrjár í kjólunum sínum á jólanótt. Litli prinsinn fékk líka náttgalla en amma keypti hann.

Svo tilheyrði að sauma kjóla á dúkkubörnin í stíl. Sniðið af þeim er úr bókinni Sy og strikk dukkeklær eftir Anne Grethe Gaaserud.


 

föstudagur, 8. janúar 2021

Leikskólakjóll


 Í byrjun aðventu saumaði ég þennan kjól á eina ömmustelpuna sem átti “ekkert til að fara í” á leikskólann. Hún hafði nefnilega séð skólasystur sína í kjól sem minnti á jólin og langaði í eitthvað svipað. Pabbinn vildi leysa málið en vissi ekki hvar hann ætti að kaupa kjól og var að auki á kafi í prófum. 
Hann hringdi því í ömmuna sem reddaði málunum í hvelli, keypti efni í Litlu músinni og fékk það með pósti fljótt og vel og útkoman varð þessi kjóll. Ég vildi ekki hafa jólamótíf í munstrinu heldur nota rauðan og hvítan lit til að gera hann jólalegan. Barnaefnin frá Litlu músinni er alveg æðislega falleg og úr lífrænni bómull, meðhöndlaðri án eiturefna.
Sniðið er hið klassíska frá Onion nr. 20047, og stærðin er 116.

fimmtudagur, 10. desember 2020

Vesti


Þetta verður jólavesti á litla 15 mánaða ömmustrákinn minn. 
Fyrst gerði ég stærð á 12-18 mánaða en það varð alltof lítið á alla kanta. Sennilega hef ég prjónað það of fast, mér hættir til þess. Svo ég prjónaði annað, þetta á myndinni, og notaði stærð á tveggja ára og prjónaði lausar, á alveg von á að þetta smellpassi. Verður fínt með hvítri skyrtu og slaufu.

Ég var svo heppin að eignast lítinn frænda fyrir nokkrum dögum og ætla að klára minna vestið fyrir hann.

Ég notaði tvær dokkur af Drops baby merino.
Uppskriftin er frá Garnstudio.com.