Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 29. febrúar 2024

Svunta og viskastykki

Það er vinsælt að bródera á viskastykki í útsaumsvél. Það vafðist samt eitthvað fyrir mér af því að flestir nota til þess hvít hótelviskastykki sem eru mjög verkleg og flott, en ég er bara svo lítið fyrir svona hvít. Svo á ég svo mörg viskastykki að það er ekki á það bætandi að kaupa fleiri. Þá datt mér í hug að nota bara þau sem ég á í skúffunni. Þau eru mörg röndótt eða köflótt, og þess vegna valdi ég einfaldar myndir og hafði þær einlitar eða í fáum litum.

Ég saumaði líka í svuntu sem ég keypti í Ikea fyrir jól. Ég gerði nú meira fyrir þessa svuntu svo það væri hægt að nota hana yfirleitt. Hún var með krossböndum að aftan og hékk laus á manni svo ég klippti böndin og breytti þeim þannig að svuntan hangir bæði yfir hálsinn og er bundin að aftan. 

Munstrið keypti ég einhvers staðar á Etsy, man ekki hvar. Þau eru miklu fleiri og á ég eftir að sauma þau.

 

fimmtudagur, 22. febrúar 2024

Jólaskraut í útsaumsvélinni.

Í janúar er ég oft í stuði til að gera jólaskraut og jólatengda handavinnu. Þá er mesta hátíðarannríkið búið og lífið að róast. Það er ekki seinna vænna að pósta þessu hér áður en páskarnir koma.

Ég tók smá skorpu í útsaumsvélinni að þessu sinni. Ég átti afgang af efnum sem pössuðu öll saman, eldgömul, og flest með gylltu í og ganga ekki með öðru sem ég á.  Þau voru ekki í dæmigerðum jólalitum heldur vínrauð, fjólublá, græn og ljós. Mig langaði að nota þau upp, og tókst að sauma þetta úr þeim.

Ég hafði tvinnann ýmist gylltan eða silfurlitaðan. Í stað þess að nota metaltvinna saumaði ég með polyestertvinna úr Pfaff sem gefur sömu áferð og metaltvinninn en er alveg skotheldur í saumavélina.

Nokkrar glasamottur með jötusenunni urðu líka til, prófaði nokkra liti.

Allt hér að ofan fékk ég frá Kreative Kiwi sem eru staðsettir á Nýja-Sjálandi, og eru í uppáhaldi hjá mér.

Svo sá ég að jólatréð gat alveg bætt á sig meira skrauti og saumaði þessar hvítu stjörnur. Þær fylgja vélinni minni, ég stækkaði þær nokkuð.


 Bútasaumshjörtun eru líka frá Kreative Kiwi, elska hjörtu…þessi eru lítil en þau komu í nokkrum stærðum, ætla að sauma fleiri stærðir.

þriðjudagur, 13. febrúar 2024

15 ára bloggafmæli


Um þessar mundir á handavinnubloggið mitt 15 ára afmæli. Af því tilefni ætla ég að bregða aðeins út af vananum og segja frá einhverju öðru en handavinnunni minni. Tvisvar hef ég sýnt úr saumaherberginu af svona tilefni, og væri alveg hægt að sýna ýmislegt nýtt og spennandi þaðan, en nú vil ég heldur monta mig af tveimur elstu ömmustelpunum, sem eru báðar 8 ára sonadætur mínar.


Önnur þeirra saumaði þessa mynd í skólanum síðasta vor, og finnst mér það vel af sér vikið hjá barni sem þá var í 2. bekk. Ég hef sjálf kennt börnum á þessum aldri að sauma krosssaum og veit að það vefst fyrir mörgum. Mig langaði svo að myndin hennar yrði að einhverju og bauð henni að sauma púða utan um hana, og valdi hún sjálf öll efnin og líka hvernig ég ætti að raða þeim upp. Hún var mjög ánægð með þetta og talaði sérstaklega um hvað það væri gaman að myndin væri orðin að einhverjum hlut.
Hún hefur líka hannað og sniðið Barbie föt hjá mér sem ég hjálpaði henni svo með.


Hin átta ára ömmustelpan mín er búin að læra að prjóna hjá mér, og er meira að segja örvhent, en ég kenndi henni þetta rétthent eftir að hafa ráðfært mig við hóp textílkennara á fb. Nú er hún að læra að hekla og fór heim um daginn með poka sem í voru garn og heklunál sem langamma hennar átti, hef ekki frétt af því meira.
Síðast þegar hún kom í pössun var hún ákveðin í að hún vildi fá að sauma á saumavélina, og sneið ég fyrir hana efni í hárteygjur sem hún saumaði svo sjálf.


Hún saumaði fjórar fyrir sig og systur sína, og hefði alveg getað haldið áfram hefði amman mátt vera að. En báðar fóru heim með heimasaumaðar teygjur í hárinu. Nú bíður hin átta ára daman eftir að fá að gera það sama. 


Hún sneri stykkinu sjálf við og lærði líka að fletja út sauminn með fingrunum (fannst það reyndar óþarfa pjatt), og ég hjálpaði henni að loka endunum.
Það verður spennandi að fylgjast með þeim báðum, og líka hinum tveimur sem eru sex ára stelpa og fjögurra ára strákur, sem eru ekki síður skapandi fólk. Sjálf var ég farin að prjóna og sauma á þessum aldri og á ennþá Barbieföt sem ég bjó til. Gaman að sjá barnabörnin fara í þessa átt😊
 

miðvikudagur, 31. janúar 2024

Dúkkuföt

Einhvern tíma í haust fór ég í tiltektir og fann í prjónapoka nokkrar ókláraðar prjónaflíkur á dúkkur. Ég dreif mig í að klára þær því ég þoli ekki að eiga hálfkláraða handavinnu hingað og þangað. Þetta voru sem sagt flíkurnar á myndinni hér að ofan. Ég bætti reyndar við tveimur nærbolum eins og þessum bleika.

Og fyrst ég var komin i dúkkufataprjón þá hélt ég áfram og prjónaði þrjár peysur, allar úr mismunandi garnafgöngum, og pils.

Flíkurnar efst í vinstra horninu á myndinni hér að ofan eru úr Klompelompe bókum, en peysurnar og nærbolirnir eru úr Sy&strikk dukkeklær eftir Anne Grethe Gaaserud.
 

mánudagur, 22. janúar 2024

Jólaveifur


 Um jólin skipti ég út veifum sem ég hef annars alltaf hangandi í dyraopi inn í eldhús. Ég fann teikningu af útlínum trés á netinu og saumaði eftir þeim í jólaleg efni. Efnið lagði ég saman tvöfalt með flíselíni á milli, nældi sniðið ofan á og saumaði með beinu spori í kringum það. Svo klippti ég í kring og festi allt saman með skábandi að ofan. Ætlaði ekki að tíma að taka þau niður. 

fimmtudagur, 11. janúar 2024

Þriðja Bugðan

Ég prjónaði þriðju Bugðuna í haust. Ég átti allt garnið í hana, var hálfgert í vandræðum með þennan bláa lit, keypti hann í ákveðið verkefni fyrir nokkrum árum en gat svo ekki notað hann. En með þessum litum sem ég hafði með honum varð ég mjög ánægð með útkomuna. Var svo heppin að geta gefið hana í afmælisgjöf í fjölskyldunni þar sem afmælisbarnið elskar þennan lit.

Mér finnst svo gaman að raða saman litum í þessa uppskrift. Þrír litir eru akkúrat nóg fyrir mig og mína litapallettu og alltaf spennandi að sjá útkomuna í þessu sjali.

Ljósgrái liturinn er frá Hexhex og hinir tveir frá Vatnsnesyarn. Uppskriftin er eftir Eddu Lilju í Prjónabúð Eddu. Ég notaði prjóna nr. 4.

 

sunnudagur, 7. janúar 2024

Jerseykjole med sving for barn

Ég sting oftast einhverju mjúku með í jólapakkana handa ömmubörnunum, yfirleitt náttfötum. Núna datt mér allt í einu í hug að sauma á þau öll. Ég vissi af sniði af kjól frá Ida Victoria en hafði aldrei hugsað út í að ég gæti saumað hann á stelpurnar. Sniðið er í stærðum frá 74 upp í 146. Ég dreif mig í að panta sniðið og efnið í nóvember og náði að sauma í tæka tíð.

Fjögurra ára ömmustrákurinn fékk svo bol. Ég tók mál af honum þegar hann var hjá mér án þess að hann fattaði neitt hvað væri í gangi og gat þannig haft bolinn síðari en sniðið sagði því drengurinn er frekar langur og grannur.

Þær mættu allar í kjólunum í árlegt jólaboð fjölskyldunnar milli jóla og nýárs, og sem betur fer pössuðu þeir vel. Ég á ekki mynd af piltinum í sínu því eins og sönnum herramanni sæmir kom hann í dökkum buxum, hvítri skyrtu, í vesti og með slaufu í boðið.

Sniðið er sem sagt Jerseykjole med sving for barn frá idavictoria.no og efnið pantaði ég frá stofflykke.no. Sniðið af bolnum er Onion snið 20047 (hef áður saumað nokkra kjóla á stelpurnar eftir kjólasniði úr sama pakka) og efnið fékk ég í Föndru.

Stærðin á 8 ára stelpurnar er 140 og á þá 6 ára 128. Bolurinn á 4 ára strákinn er í stærð 116.

 

mánudagur, 1. janúar 2024

Janúarálfur 🎉 Gleðilegt ár!

Gleðilegt ár! Síðasti álfurinn heilsar árinu, sá sem ég set upp á vegg í janúar. Efnið í hattinum hans minnir á stjörnubjartan himin og svo notaði ég silfraðan tvinna, af því að áramótunum fylgir jú alltaf smá glit og glimmer. Tvinninn gefur svipaða áferð og metalic tvinni en er úr polyester og mjög auðveldur í notkun. Fékk hann í Pfaff. Nú er þetta verkefni búið, komnir tólf álfar, og hver og einn fær sinn mánuð til að skreyta vegginn. 

Hér fyrir neðan eru þeir svo allir í réttri röð.



 

föstudagur, 8. desember 2023

Erlur

Ég datt aftur í vettlingaprjón og prjónaði tvö pör af Erlu úr bókinni Íslenskir vettlingar. Þetta er eina vettlingauppskriftin sem ég nenni að prjóna, alla vega um stundarsakir. Uppskriftin er vel gerð og vettlingarnir fara svo vel á hendi. Ég er með nokkur pör í gangi núna í ýmsum litum og þeir halda ágætlega hita á höndum í kuldanum.


 Garnið er eins og oftast áður Flóra frá Drops og prjónastærðin er 2,0.