Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 27. júlí 2021

Veifur

Mér finnst alltaf flott að skreyta með veifum, geri samt of lítið af því. Þessar saumaði ég í sumar til að hafa í morgun- og hádegishorninu við húsið okkar. Þær fá að hanga þegar ekki er hvínandi rok og rigning 🙂

                                     Ég valdi mismunandi stórrósótt efni, eitt fyrir hverja.


 Fyrir sex árum heklaði ég þessar veifur fyrir pallinn úr alls konar bómullarafgöngum. Myndin var tekin þegar þær voru nýjar. Þær hanga uppi í sumar en eru orðnar dálítið upplitaðar, en ég held að það sé mest öðru megin, ætla að prófa að snúa þeim næsta sumar.

föstudagur, 9. júlí 2021

Dýrafjör og Småtroll húfa

Ég prjónaði peysuna Dýrafjör frá Ömmu Loppu á 22 mánaða ömmustrákinn minn. Ég valdi fílamunstrið handa honum því mér finnst það mjög fallegt, en það fylgja tvö önnur munstur í bekkinn. Hann verður tveggja ára í september, en ég hafði peysuna í stærð fyrir þriggja ára. Ég hafði líka færri lykkjur i stroffinu fremst á ermunum og fínni prjóna til að fá það þrengra. Ermarnar tolla þá betur uppi.

Svo varð þessi húfa til í vikunni líka. Ég gerði svona húfu á systur hans fyrir nokkru í bleiku, og hann var eiginlega búinn að eigna sér hana, var svo hrifinn af henni. Þá skellti amma bara í bláa handa honum. Uppskriftin er úr Klompelompe - strikk til hele familien og heitir Småtroll. Stærðin er á 3-6 ára, en aðeins grynnri en uppskriftin segir til um.


 Hann var mjög sáttur með þetta allt eins og sést á myndunum. Ég notaði Drops merino extra fine frá Gallery spuna og prjóna nr. 4, og nr. 3,5 og 3 í stroffin. 

fimmtudagur, 1. júlí 2021

Púði úr gömlum gallabuxum

Í gegnum tíðina hef ég hirt eitt og eitt par af gallabuxum til að sauma eitthvað úr því seinna.  Þessi púði varð til í vikunni. Hann á að fá það hlutverk að styðja við bakið á mér í löngum húsbílaferðum.

Ég ákvað að fegra hann aðeins með því að bródera smá í hann með útsaumsvélinni minni góðu (sem er svo skemmtilegt, ég stari hugfangin á hana á meðan hún vinnur).

Svo var ég löngu búin að ákveða að prófa að gera miðseymi líka (e. piping) því ég held að ég hafi bara aldrei á minni lífsfæddri saumaæfi gert svoleiðis, man alla vega ekki eftir því.

Ég lærði það á netinu um daginn að það er alveg hægt að líma litla búta á undirlagið í útsaumsrammanum í staðinn fyrir að spenna allt í hann. Gallaefni er þykkt og reynir kannski dálítið á rammann og svo var ég að sníða úr skálmum og erfitt að klippa stór stykki vegna saumfara. Þess vegna klippti ég alla bútana í rétta stærð fyrst og bróderaði á eftir. Ég er reyndar stórhrifin af þessum taulímpenna, nota hann mikið.

Og þetta virkaði bara mjög vel, efnið hreyfðist ekki, og límið þornar og losnar frá, og ég setti það bara á brúnirnar, alls ekki þar sem nálin fór í.

Það þarf bara að passa að finna miðjurnar á efnisbútnum og láta passa við miðjustrikin á rammanum.

Svo bjó ég til miðseymið sjálf með Amber 400 overlockvélinni minni. Það er hægt að gera svo margt fleira en að sauma saman með henni. Það er hægt að kaupa með henni tvenns konar pakka með aukafótum, annars vegar sett fyrir nytjasauma og hins vegar fyrir sauma til að skreyta með. Hérna notaði ég fót sem er ætlaður til að sauma fast miðseymi eða búa til miðseymisbönd.Hann hefur djúpa rauf á botninum sem myndar pláss fyrir snúruna þannig að raufin stýrir því sem fer í gegnum fótinn og nálin saumar fast upp við snúruna.

Þetta finnst mér bara tær snilld. Ég þarf ekkert að vera mjög nákvæm með að klippa efnið, hafði það ca. 2 tommur á breidd. Vélin sker þannig að eftir stendur alveg passlega breitt saumfar. Innan í notaði ég anorakksnúru.

Svo notaði ég rennilásfótinn til að sauma miðseymið á púðann. Ég notaði þrjár af fjórum vélunum mínum í þetta verkefni og skemmti mér vel.


 

mánudagur, 14. júní 2021

Alise finjakke

Fyrir fjórum árum prjónaði ég svona peysur á tvær eldri ömmustelpurnar. Önnur þeirra notaði sína peysu sérlega mikið, og man ég eftir henni í henni bara fyrir nokkrum mánuðum. En þær peysur voru prjónaðar í stærð fyrir tveggja ára, og stelpurnar verða sex ára í sumar! Ótrúlegt hvað peysan hefur enst lengi á henni.

Þess vegna skellti ég í aðra og hafði hana á sex ára að þessu sinni. Notaði sama garn og síðast, Mandarin petit, sem kemur mjög vel út í þessum peysum.

Bakstykkið er alveg sérlega fallegt og gaman að prjóna það. Þessi peysa er mjög fín yfir alls konar kjóla. Uppskriftin er úr Klompelompe, strikk året rundt. Ég tek það fram að peysan er snjóhvít, en einhvern veginn varð hún það ekki á myndunum, sama hvað ég reyndi.

 

fimmtudagur, 10. júní 2021

Borðmottur

Þessar borðmottur eru minni en aðrar sem ég hef saumað, enda ætlaðar í húsbílinn okkar, þar sem matborðið er lítið. En þar sem plastdiskarnir og bollarnir eiga það til að renna aðeins til á borðinu þegar við fáum okkur að borða og hallinn á bílnum kannski ekki alveg réttur, þá þurfa að vera mottur.

Ég mældi út hvað þær þyrftu að vera stórar til að rúma það sem við notum, og eru þær 35 x 21 sm. Svo á ég þetta skemmtilega munstur í útsaumsvélinni, upplagt að nota það. Öll efnin, nema einlita hörefnið, voru keypt á bílskúrssölu í Grafarvoginum í vetur og vor. Þar keypti ég falleg efni í kílóavís á frábæru verði, alls konar gömul og nýleg efni úr Virku. Fór nokkrar ferðir, dugði ekki minna. Fékk slatta af Thimbleberries efnum, sem hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá mér en eru hætt í framleiðslu.


 Svo stakk ég með nokkrum gerðum af bútasaumssporum sem eru í saumavélinni minni.

mánudagur, 31. maí 2021

Barnavettlingar


 Mér hættir til að gleyma að setja barnavettlinga hér á bloggið, sennilega af því að þetta er svo hversdagslegt og lítið verkefni. Ég á myndir af sokkum og vettlingum á barnabörnin sem aldrei hafa ratað hér inn, og þessum var ég næstum búin að gleyma. 

Við vorum að úti með ömmu- og afastrákinn og systur hans snemma í vor og þá sá ég að vettlingar sem ég hafði prjónað á hann eftir íslenskri uppskrift keyptri á netinu pössuðu engan veginn á hann, of víðir og hann tolldi ekki í þumlinum. Ég átti svo sem að geta sagt mér þetta sjálf þegar ég prjónaði þá. Ég greip því prjónana og notaði uppskrift frá Drops sem ég hafði áður aðlagað að yngstu ömmu- og afastelpunni og skrifað hjá mér allar breytingar. Passaði bara að hafa þá nógu litla og þennan þumal sem kemur út á hlið. Þannig þumlar eru bestir. Ég hef líka notað mjög góða uppskrift úr bókinni Leikskólaföt. Og viti menn, þessir vettlingar smellpössuðu á litla manninn. Þeir eru prjónaðir úr Drops Karisma.

Mér finnst yfirleitt erfiðast af öllu að prjóna vettlinga, ekki af því að prjónaskapurinn sé svo erfiður, heldur verða þeir að passa vel þeim sem á að nota þá, hvorki of víðir né þröngir, og mátulega langir.

þriðjudagur, 25. maí 2021

Bútasaumsteppi handa systrum

Þessi tvö teppi saumaði ég handa 4 ára og tæplega 6 ára ömmustelpum sem eru systur. Áður hafði ég saumað handa systkinunum sem verða bráðum 6 ára og 2 ára. Teppin þeirra eru neðar á síðunni. Teppið hér að ofan fékk sú eldri.

Þessi tvö teppi eru mjög lík, en það munar samt einu efni, ef grannt er skoðað. En ég vildi hafa þau mjög svipuð.

Dömurnar eru nýfarnar að sofa í koju, og teppin eru í fullri stærð, ca. 2,15 x 1,40. Merkimiðann saumaði ég í útsaumsvélinni minni góðu.

Efnin keypti ég á útsölu hjá Panduro þegar þau lokuðu fyrir rúmu ári síðan, og hafði þetta munstur í huga þegar ég keypti þau.

Þetta er teppi yngri systurinnar. Bakefnið keypti ég hjá Bóthildi. Sá það á síðunni hennar og var ekki lengi að ákveða mig. Skiptir miklu máli að hafa bakefni sem passar, sérstaklega á rúmteppum sem er verið að þvælast með.

Ég stakk í öll saumför, og síðan í kross yfir allt, notaði málningarlímband til að fá beinar línur og í þær stungur notaði ég Cotty 30 stungutvinna frá Pfaff.

Nú prýða teppin kojuna og fara mjög vel þar. Nú eiga öll barnabörnin rúmteppi í fullri stærð.


 Hér fyrir neðan er sýnishorn af teppunum þeirra allra. Ég reyndi að láta litaval passa hverju og einu.


miðvikudagur, 28. apríl 2021

Þrír prjónakjólar - Veslemor-tunika


Það kom að því að ég prjónaði þessa kjóla á stelputríóið mitt. Búin að eiga uppskriftina lengi í bókinni Klompelompe, strikk til baby, barn og voksen. Held að það sé fyrsta bókin þeirra. Langaði að prjóna þá fyrir þann aldur sem þær eru á núna, sú yngsta að verða fjögurra ára og tvær elstu að verða sex.


 Það var sérlega gaman að prjóna þá, byrjað efst og þess vegna gott að máta síddina. Ég notaði garnið sem gefið er upp í uppskriftinni, Dale Lille Lerke, keypt í A4, og prjóna nr. 3. Stærðirnar eru á 3-4 ára og 5-6 ára.

þriðjudagur, 20. apríl 2021

Veggteppi

Ég er alltaf hrifin af amerísku bútasaumskonunni Eleanor Burns. Þessi blokk er frá henni og heitir Rosebuds, eða rósaknúppar. Hún er í bókinni Egg Money Quilts.  Ég teiknaði hana upp í EQ8 bútasaumsforritinu til að geta ráðið stærðinni og saumað með pappírssaumi (kemur engum á óvart 😊). Blokkirnar eru 6,5 tommur á kant. Teppið allt er 37 x 37 tommur.