Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 13. október 2021

Sporabók

Ég gerði það mér til skemmtunar nú í haust að sauma öll sporin sem er að finna í Pfaff creative 1.5 útsaumsvélinni minni. Þau eru 150 talsins fyrir utan leturgerðirnar. Ég nota þessa vél nær eingöngu fyrir útsaum, hef sáralítið saumað á hana að öðru leyti, enda hef ég aðra vél til þess. En þetta var gaman, og alltaf gott að fara í gegnum það sem hægt er að gera í vélinni eins og hnappagöt og að festa tölu í vél.


 

miðvikudagur, 6. október 2021

Verkefnataska

Ég hef endalausa þörf fyrir verkefnatöskur af öllum stærðum og gerðum. Þessi varð til fyrir stuttu, og var mig lengi búið að langa til að nota þetta munstur í Pfaff 1.5 útsaumsvélinni minni góðu.

Ég notaði hör frá Ikea og bútasaumsefni í sjálfa töskuna og gamlan rennilás, sem ég átti.

Ég hafði hana svo til eins báðum megin, gerði örlitlar litabreytingar á seinni hliðinni. 

Svo setti ég vatt undir fóðrið og stakk í saumavélinni. Mér finnst alltaf betra að hafa smá fyllingu í fóðrinu.


 

fimmtudagur, 30. september 2021

Multnomah sjal

Ég hef átt uppskriftina af þessu sjali í mörg, mörg ár. Það er ekki stórt, en mér finnst gott að nota lítil sjöl eins og trefla um hálsinn. Ég átti hespu frá Vatnsnesi og notaði hana í þetta, prjónaði á prjóna nr. 3,5. Ég sé að uppskriftin fæst núna á Ravelry.

 

mánudagur, 27. september 2021

Dúkkuföt

Þegar eitthvert barnabarnanna fjögurra á afmæli gef ég þeim öllum lítinn aukapakka og stundum hafa það verið prjónuð eða saumuð dúkkuföt handa stelpunum þremur. Gaf þeim samt annað í fyrstu afmælum ársins, og sú yngsta var tvívegis búin að rukka mig um dúkkuföt: Amma, ertu búin að prjóna eitthvað?  Svo fyrir síðasta afmæli ársins hafði ég tækifæri til að bæta úr þessu og gerði þetta hér á tveimur vikum sléttum.  

Ég átti skokk úr þunnu gallaefni sem ég var hætt að nota og mér tókst að sníða úr honum þrjá dúkkuskokka. Skokkurinn minn var allur settur saman úr stykkjum og þurfti ég að láta saumana lenda á miðju fram- og bakstykki á dúkkuskokkunum. Það gekk upp.

Þó að hliðarsaumarnir væru það eina sem hægt var að sauma í overlockvélinni, gerði ég það í henni því hún er svo yndislega auðveld í notkun.

Svo skreytti ég þá aðeins í útsaumsvélinni. Ein ömmustelpan skoðaði blómin og velti fyrir sér hvernig ég hefði farið að því að nota svona mikinn tvinna í þau. Hún hefur nefnilega stundum fengið að sauma skrautspor í Epic vélinni og sá að þetta var öðruvísi. Gaman að því.

Skáböndin gerði ég sjálf í skábandajárnum sem ég á heilt sett af.

Ég lét sjást aðeins í skáböndin frá réttunni því mér fannst það punta upp á gallaefnið.

Svo er það límpenninn. Hann er frábær þegar maður þarf að láta litla fleti tolla saman rétt á meðan saumað er. Kláraði þennan reyndar í þessu verkefni og var fljót að fá mér annan.

Hér eru svo skokkarnir í þríriti. Hafði smá litamun á blómunum til að systurnar þekktu sína í sundur. Sniðið er úr bók sem ég fékk lánaða á bókasafni fyrir nokkrum árum.

Svo prjónaði ég kjóla handa öllum. Uppskriftin er úr Klompelompes vinterbarn og heitir Vinge-dukkekjole. Þeir eru prjónaðir á prjóna 2,5 og 3 úr Lanett og Drops baby merino. 

Ég get ekki sagt að það hafi verið fljótlegt að prjóna kjólana, heilmikið maus og frágangur, en uppskriftin var góð og mig langaði alltaf að prófa hana.


 

miðvikudagur, 15. september 2021

Hvítt í hvítt

Ég á mikið safn af alls konar blúndum og böndum, og draumurinn hefur lengi verið að sauma teppi í “heirloom” stíl með alls konar hvítum efnum, skrautsaumi, perlum og pallíettum.En núna ákvað ég að gera poka með blúndum og skrautsaumi, en bara í hvítu. 

Ég þurfti ekkert að kaupa nema perlurnar, allt hitt átti ég. Pokinn er eins að aftan og framan. Hann er tvöfaldur og í innri pokann notaði ég gamalt og slitið lak.

Til að sauma perlurnar á að ofan notaði ég sérstakan perlusaumsfót sem fylgir með skrautsaumasettinu (Embellishment Feet Set) sem hægt er að kaupa með Husqvarna Amber Air overlockvélinni minni. Fóturinn stýrir perlubandinu algjörlega og ég þurfti bara að stilla vélina samkvæmt leiðbeiningum og sauma. Snilld!

Svo notaði ég útsaumstvinna í allan skrautsaum til að fá glansinn á munstrið.

Loks prófaði ég fót sem ég hef átt lengi með Epic 980 vélinni minni góðu en aldrei prófað almennilega. Hann saumar lek (Pin Tuck fótur). Til að fá þau skarpari er hægt að setja þráð undir og stýrir litla járnið fyrir framan fótinn þræðinum. Ég notaði heklugarn úr bómull. Undir fætinum eru svo raufar sem stýra því hvar næsta lek er saumað. Þessi poki varð því æfing í ýmsu sem ég hef ekki gert áður, og það er svo gaman.


 

föstudagur, 10. september 2021

David jakke

Litli ömmustrákurinn, sem varð nýlega tveggja ára, er löngu vaxinn upp úr David jakke peysunni sem ég prjónaði á hann í stærð fyrir eins og hálfs árs. Hann notaði peysuna sem betri peysu, og við mamma hans vorum sammála um að best væri bara að gera aðra peysu eftir sömu uppskrift, okkur finnst hún flott. Núna hafði ég hana í 4 ára stærð, og kemur það ekki að sök þótt ermalengdin sé rífleg því þær eru frekar þröngar og haldast alveg uppi. 

Ég prjónaði úr Lanett og keypti tölurnar í Rokku. Uppskriftin er í Klompelompes sommerbarn.
 

sunnudagur, 22. ágúst 2021

Íslenskir vettlingar - Erla og Rúna

Ég datt í vettlingaprjón snemma í sumar. Mér finnst alltaf frekar krefjandi að prjóna vettlinga, sérstaklega tvíbandavettlinga, og líka að láta þá passa á eigandann. 

En þegar ég var búin með eitt par af vettlingunum Erlu úr bókinni Íslenskir vettlingar, þá langaði mig strax að prjóna annað par og svo það þriðja. Og þeir passa mjög vel á mína hendi og annarrar sem fékk þá grænu. Það er líka prjónuð útaukning, eða kíll, fyrir þumalinn, og það finnast mér bestu vettlingarnir.

Þessir hvítu, sem heita Rúna, eru úr sömu bók, en ég er ekki eins hrifin af sniðinu á þeim. Það var reyndar mjög skemmtilegt að prjóna þá, munstrið lærðist strax, en þeir eru of langir. Úrtakan á belgnum er mjög aflíðandi og löng, og erfitt að stytta hana. Ég prófaði að byrja fyrr á henni en þá urðu þeir of fljótt þröngir. En ég get alveg notað þá, bara smámunasemi hjá mér.


 Ég notaði Drops Flora frá Gallery Spuna í öll pörin, og Addi trio prjóna nr. 2, og gerði alltaf báða vettlingana samhliða, vatt bara garnið í tvo hnykla áður. Verð að hrósa bókarhöfundi fyrir afskaplega vandaða útfærslu á uppskriftum.

þriðjudagur, 27. júlí 2021

Veifur

Mér finnst alltaf flott að skreyta með veifum, geri samt of lítið af því. Þessar saumaði ég í sumar til að hafa í morgun- og hádegishorninu við húsið okkar. Þær fá að hanga þegar ekki er hvínandi rok og rigning 🙂

                                     Ég valdi mismunandi stórrósótt efni, eitt fyrir hverja.


 Fyrir sex árum heklaði ég þessar veifur fyrir pallinn úr alls konar bómullarafgöngum. Myndin var tekin þegar þær voru nýjar. Þær hanga uppi í sumar en eru orðnar dálítið upplitaðar, en ég held að það sé mest öðru megin, ætla að prófa að snúa þeim næsta sumar.

föstudagur, 9. júlí 2021

Dýrafjör og Småtroll húfa

Ég prjónaði peysuna Dýrafjör frá Ömmu Loppu á 22 mánaða ömmustrákinn minn. Ég valdi fílamunstrið handa honum því mér finnst það mjög fallegt, en það fylgja tvö önnur munstur í bekkinn. Hann verður tveggja ára í september, en ég hafði peysuna í stærð fyrir þriggja ára. Ég hafði líka færri lykkjur i stroffinu fremst á ermunum og fínni prjóna til að fá það þrengra. Ermarnar tolla þá betur uppi.

Svo varð þessi húfa til í vikunni líka. Ég gerði svona húfu á systur hans fyrir nokkru í bleiku, og hann var eiginlega búinn að eigna sér hana, var svo hrifinn af henni. Þá skellti amma bara í bláa handa honum. Uppskriftin er úr Klompelompe - strikk til hele familien og heitir Småtroll. Stærðin er á 3-6 ára, en aðeins grynnri en uppskriftin segir til um.


 Hann var mjög sáttur með þetta allt eins og sést á myndunum. Ég notaði Drops merino extra fine frá Gallery spuna og prjóna nr. 4, og nr. 3,5 og 3 í stroffin.