Heildartala yfir síðuflettingar

sunnudagur, 1. júní 2014

Stelpupeysa úr Alpakka - og síðasta bloggið.

 

Lítil frænka mín fékk þessa peysu frá mér í 2 ára afmælisgjöf.

Uppskriftin er úr prjónablaðinu Ýr nr. 42.

Nú hef ég bloggað í tæplega fimm og hálft ár um handavinnuna mína, og tekið þá ákvörðun að hætta að sinni.

Ég þakka samfylgdina ykkur, sem hafið heimsótt bloggið mitt!

 

föstudagur, 30. maí 2014

Eldhúsgardínur


Þegar maður fær nýtt, langþráð eldhús, verður að setja upp glænýjar eldhúsgardínur. Á meðan aðrir unnu baki brotnu við smíðarnar, sat frúin og heklaði.
Uppskriftin er úr eldgömlu Marks heklublaði. Við mamma keyptum þessi blöð þegar ég var unglingur, og svo sátum við saman á kvöldin og hekluðum.
Garnið heitir Satúrnus og fæst í Fjarðarkaupum, og heklunálin var nr. 2,5.
Gluggarnir eru tveir, og svo gerði ég eins fyrir þvottahúsgluggann, en hann er bara mjór.
Efnið í efri kappana fékk ég í Virku. Mér fannst það svo fallegt að ég varð að kaupa það og nota í eitthvað.

miðvikudagur, 14. maí 2014

Bollamottur í rauðu og hvítu

 


Nú er ég búin að sauma meira "redwork", bollamottur í þetta sinn.

Mér finnst ótrúlega gaman að gera þetta í saumavélinni, miklu skemmtilegra en í höndunum.

Einhvern tíma fyrir löngu keypti ég á Amazon bók, með þessum munstrum.

Ég get vel hugsað mér að gera meira af þessu og er þegar komin með hugmyndir ;).

 

laugardagur, 10. maí 2014

Ungbarnasett

Þetta er settið sem ég prjónaði á litla, nýfædda frændann sem ég minntist á í síðustu færslu.

Stærðin er á 6 mánaða, og garnið er Lanett.

 

laugardagur, 26. apríl 2014

Nýburapoki

Á næstu dögum á ég von á litlum frænda, og m.a. prjónaði ég þennan poka fyrir hann og lét foreldra hans hafa svo þau gætu notað hann strax. Pokinn heldur vel utan um nýburann, maður stingur höndunum líka ofan í. Það er sagt róandi, kemur í ljós.

Uppskriftin er á almanakinu fyrir 2014 eftir Kristínu Harðardóttur.

P.s. Drengurinn er fæddur, ég fékk símhringingu í hádeginu, hann fæddist kl. 11 í gærkvöldi. Að sögn afa og ömmu þá svínvirkar pokinn!


 

þriðjudagur, 1. apríl 2014

Kertadúkur

 

Einhvern tíma í vetur varð ég vör við það að saltsteinsstjakinn, sem stendur ofan á píanóinu, hitnar dálítið í botninn, þegar kerti logar í honum. Viðurinn í píanóinu er póleraður, svo þarna var gott tækifæri til að sauma eitthvað til að hafa undir.

Ég valdi frekar dökk efni, svo hann yrði minna áberandi.

 

 

mánudagur, 24. mars 2014

Eldhúshani

 

Um helgina saumaði ég þessa eldhúsmynd. Sniðið er úr bókinni Bútasaumur í rauðu og hvítu.

Mig hefur alltaf langað til að prófa að sauma svona mynd út í saumavélinni, og það tókst svona vel. Ég notaði grófan tvinna, 30 wt., sem ég keypti í Pfaff. Sporið sem ég notaði er styrktur, beinn saumur, þannig að vélin leggur tvinnan þrisvar í sporið.

Svo notaði ég tvö, flott bútasaumsspor úr vélinni minni til að stinga.

 

föstudagur, 21. mars 2014

Sewing Room Sue

Þessi litla veggmynd er úr bókinni Needles and Notions eftir Jaynette Huff. Það er sama bókin og ég gerði þetta teppi upp úr.

Saumað með pappírssaumi, að sjálfsögðu, og nú þarf ég bara að hengja það upp í saumaherberginu.

 

mánudagur, 17. mars 2014

Músabræður

 

Þá eru tveir músabræður mættir á svæðið.

Það er svo gaman að prjóna þessar fígúrur upp úr Litríkum lykkjum úr garðinum eftir Arne&Carlos.

Ég ætla hins vegar ekki að prjóna aftur svona röndótta smápeysu, ég kláraði hana á þrjóskunni.

Svo finnst mér afturendinn á þeim alveg dýrlegur.

Bestu vinir!

 

sunnudagur, 9. mars 2014

Blómabörn

Þessar tvær eru úr bókinni Litríkar lykkjur úr garðinum eftir þá Arne&Carlos. Gaman að prjóna þær.

Ég notaði alls konar afganga af ullargarni sem passar fyrir prjóna nr. 2,5, en fötin eru prjónuð á grófari prjóna, þó úr sama garni.

 

 

miðvikudagur, 26. febrúar 2014

Skokkur


Ég notaði tvo vetrarfrísdaga til að sauma mér skokk. Sniðið er Onion 2046, og efnið er úr Föndru. Það er mjög þykkt jerseyefni, fínt í skokk. Fékk afgang í pils. Á myndinni var ég búin að sitja í skokknum heilt kvöld, svo hann hefur krumpast aðeins fyrir myndatökuna.

 

laugardagur, 15. febrúar 2014

Eitt sokkapar í viðbót

 

Gerði annað sokkapar eins og það gráa í síðustu færslu. Liturinn kemur ekki rétt út á myndinni, þeir eru ekki svona bleikir, heldur vínrauðir. Þetta er síðbúin afmælisgjöf.

 

laugardagur, 8. febrúar 2014

Sokkar úr kambgarni

Mér finnst alltaf gaman að prjóna sokka. Þessa nota ég í vetrarskóna, og ég hafði þá með háu stroffi til að þeir sæjust vel upp úr skónum. Efri sokkarnir eru reyndar steingráir á litinn, alls ekki bláir, en svona mynduðust þeir úti í vetrarbirtunni.

Uppskriftin af hæl og framleista er mín uppáhalds, fylgir innan á miðanum á Fabel garninu, en stroffmunstrin fann ég í bókinni Sokkaprjón eftir Guðrúnu S. Magnúsdóttur. Ég notaði kambgarn og prjóna nr. 2,5.

 

mánudagur, 3. febrúar 2014

Teppi með láréttu munstri

 

Á þennan vegg vantaði teppi. Ég prófaði að búa til þessa gerð með láréttu munstri.

Blokkirnar fann ég í EQ7 forritinu mínu. Þegar ég fer að skoða þær þá sé ég að þetta eru mínar uppáhalds. Vantar reyndar "fljúgandi gæsir" en það er ekki hægt að hafa allt með.

Og.....búin að merkja.