Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 25. nóvember 2009

Nóvember

Þá er ég loksins búin að sauma nóvembermyndina, og ekki seinna vænna þegar aðeins 5 dagar eru eftir af mánuðinum. Þá eru myndirnar orðnar ellefu og ein eftir. Ég verð að viðurkenna að svona mánaðarskammtar af verkefnum eru ekki alveg minn stíll, ég fer mest eftir löngun og tilfinningu þegar ég vel mér verkefni. En ég er samt ánægð að hafa klárað þetta og gaman að geta hengt myndirnar upp á réttum tíma næstu árin.

mánudagur, 23. nóvember 2009

Flöskupeysur

Rauðvínsflöskur frá Chile komnar í íslenskan, þjóðlegan lopaklæðnað. Að sjálfsögðu er þetta prjónað úr afgöngum, og uppskriftina fann ég í Húsfreyjunni, 1. tölublaði 2009.

laugardagur, 14. nóvember 2009

Lopapeysa

Þessa lopapeysu kláraði ég sunnudaginn fyrir viku síðan, og var að fara í hana í fyrsta skipti í dag!Hún er prjónuð úr tvöföldum plötulopa á prjóna nr. 7. Litirnir koma því miður ekki alveg réttir út á myndunum, hún virðist grá og bleik, en er svört og dökkrauð með ljósgráu. Ég keypti náttúrulegar skelplötutölur í Gallerý Söru. Þær eru fisléttar miðað við stærð og fallegar. Til gamans ætla ég að geta þess að þessi færsla í dag er sú hundraðasta hjá mér.

mánudagur, 2. nóvember 2009

Fönn

Um helgina lauk ég við að ganga frá þessari léttlopapeysu á yngri son minn, sem er 25 ára.
Uppskriftin er úr Lopa 25 og heitir "Fönn".
Hún er reyndar ekki með rennilás í uppskriftinni, og ég breytti stroffum og kraga.