Heildartala yfir síðuflettingar

laugardagur, 28. desember 2013

Tvíbandavettlingar

 

Þessi fjögur vettlingapör setti ég í jólapakkana handa sonum mínum og tengdadætrum.

Þeir eru prjónaðir úr kambgarni, og eru uppskriftirnar úr Vettlingabókinni eftir Kristínu Harðardóttur.

Bókin er mjög flott, og þarna útbýr Kristín uppskriftir að vettlingum sem eru byggðar á gömlum vettlingum sem hafa varðveist.

 

föstudagur, 20. desember 2013

Hjartaklútar

Það er spurning hvort maður eigi að setja allt á bloggið sem telst til handavinnu, ég geri það ekki, en ákvað að leyfa þessu að fara.

Ég nota svona klúta stöðugt, og eru þessir prjónaðir úr afgöngum. Munstrið lærðist strax, svo þetta varð fínt sjónvarpsprjón.

Hér kemur hjartað út í sléttu prjóni.

Munstrið er úr þessu 32 ára prjónamunsturblaði. Ég fitjaði upp 57 lykkjur, þá fékk ég 5 munstur á lengdina, og 6 raðir upp.

 

laugardagur, 14. desember 2013

Hekluð bjöllusería úr Heklbók Þóru

Fyrir nokkrum vikum heklaði ég nýja bjölluseríu, og fór eftir uppskrift úr Heklbók Þóru. Uppskriftin er mjög þægileg að hekla.

Seríuna gerði ég til að hengja upp í saumaherberginu mínu. Hér fær hún selskap af jólakúlum Arne&Carlos yfir jólin, en sjálf fær hún að hanga þarna lengur.

Og hér sést inn um gluggann á Saumaherbergi Hellenar ;)

 

miðvikudagur, 27. nóvember 2013

Jólabollamottur

Fyrir tveimur árum saumaði ég tvær bollamottur, og er færslan um þær hér. Nýlega bætti ég við fjórum í viðbót. Varð pínu svekkt því þessar voru örlítið minni en hinar (örugglega bara ég sem sé það), en ég var með nokkur eintök í tölvunni og hef greinilega ekki prentað út sama snið og síðast.

 

laugardagur, 9. nóvember 2013

Prjónaðar bjöllur

Nú hef ég prjónað bjöllur í fyrsta sinn, en hef heklað fullt af þeim.

Ég notaði heklugarn nr. 10 eins og ég hef heklað úr áður.

Uppskriftin er úr jólablaði Húsfreyjunnar 2012.

 

sunnudagur, 20. október 2013

Annar toppur

Ég sé að ég hef ekkert sett á bloggið í október, þótt ýmislegt sé í gangi í saumaherberginu. Ég skelli því inn mynd af toppi, sem ég saumaði fyrir nokkrum vikum, en myndaði fyrst í dag. Hann er eftir sama sniði og þessi rósótti.

 

fimmtudagur, 19. september 2013

Enn ein peysan - prjónuð úr afgöngum

 

Ég held áfram að prjóna úr afgöngum, því eitthvað verður maður jú að hafa á prjónunum. Nú var það úr einföldum plötulopa, og ég kláraði rauða litinn áður en ég var búin með peysuna, og ég ætlaði ekki að kaupa meira. Þá var bara að róta í körfunni, og þessi grái varð endanlega fyrir valinu, og ég held bara að peysan sé betri fyrir vikið.

Uppskriftin er frá Drops.

 

mánudagur, 16. september 2013

Lítið bútasaumsstykki

 

Í þessu stykki ákvað ég að sleppa uppáhaldslitnum mínum, rauðum, og nota lit sem ég er alls ekkert fyrir, appelsínugulan. Ég held ég reyni þetta ekki aftur. Mér finnst ég stundum dálítið föst í uppáhaldslitunum mínum, en það er skemmtilegra að sauma úr þeim.

Svo stakk ég í höndum, mér finnst það alveg ótrúlega gaman.

 

mánudagur, 9. september 2013

Mr.Greenjeans - prjónuð úr uppraki

Ég rakst á þessa peysu á netinu, og varð að prjóna hana.

Uppskriftin er á Ravelry og heitir Mr.Greenjeans. Ef þetta nafn er slegið inn koma upp alls konar útgáfur af henni. Ég vildi helst hafa eitthvað annað en ull í henni, og mundi þá eftir peysu sem ég nota aldrei, og ákvað að rekja hana upp og nota garnið. Það er frá Dalegarn og er blanda úr bómull, hör og silki.

Tölurnar keypti ég hjá Heimilisiðnaðarfélaginu, en þær eru úr endurunnu efni.

Ég valdi að hafa peysuna hneppta alveg niður en uppskriftin gerir ráð fyrir einni tölu.

Þetta er peysan sem ég rakti upp.

 

mánudagur, 2. september 2013

Saumaður toppur

Þessi toppur var m.a handavinnan mín um helgina. Efnið keypti ég í Vogue, og sniðið í Föndru. Þetta er Onion snið nr. 5032. Ég ætla að sauma annan úr einlitu efni, sem ég á, því sniðið er mjög gott.

mánudagur, 26. ágúst 2013

Lopapeysan Elín - prjónuð úr afgöngum

Þegar ég lagði af stað í ferðalag í sumar tók ég með mér afgangslopa, sem ég á nóg af, og uppskrift. Hún er í Fleiri prjónaperlum, og heitir Lopapeysan Elín. Peysan er prjónuð úr einföldum lopa. Í uppskriftinni er gert ráð fyrir tveimur tölum efst, en ég get hneppt minni niður. Ég valdi líka að hafa ermarnar stuttar vegna þess að ég bretti yfirleitt upp ermar, og svo entist lopinn akkúrat í peysuna eins og hún er. Hún passar vel og er mjög þægileg.

miðvikudagur, 7. ágúst 2013

Still Light

 

Það eru margir mánuðir síðan ég prjónaði þessa peysu. Ég hef bara hvorki komið því í verk að nota hana eða sýna hana hér á blogginu. Garnið sem ég notaði heitir Rasmilla's yndlingsgarn 1 og fæst í garnbúð Gauju. Í því er 55% lambsull og 45% bómull. Þetta garn prjónast alveg óskaplega vel, og liggur alveg slétt í lykkjunum að loknu prjóni. Það lá við að óþarft væri að bleyta hana og leggja, en ég gerði það samt til að festa niður brotin í vösunum.

Uppskriftin heitir Still Light og fæst á Ravelry.

 

þriðjudagur, 30. júlí 2013

Sumarfiðrildi

 

Mér finnst alltaf gaman að skreyta eftir árstíðum, ekki bara á hátíðum. Ég heklaði nokkur svona fiðrildi nýlega, úr bómullarafgöngum. Svo set ég þau hingað og þangað, í blómapotta, á salerniskassann, í gluggakistuna o.s.frv. Uppskriftin er frá Whispering Forest Design og fæst ókeypis á Ravelry, og heitir þar Sweet Butterfly.

 

fimmtudagur, 25. júlí 2013

Ungbarnasett

 

Ég eignaðist lítinn frænda þann 29. júní, og var búin að prjóna á hann þá. Ég gerði settið á 0-3/4 mánaða, og notaði uppáhaldsgarnið mitt, Lanett. Uppskriftin er frá Prjóna Jónu, og er hún á Facebooksíðu hennar.

 

mánudagur, 15. júlí 2013

Afgangateppi à la Arne&Carlos

 

Núna í júní prjónaði ég afgangateppi eins og þeir Arne&Carlos gera í bókinni Litríkar lykkjur úr garðinum.

Ég átti haug af smárestum af garni, flest áratuga gamalt, sem var ekki hægt að gera neitt með. Þó var ég búin að saxa aðeins á hann með teppinu sem glittir aðeins í í síðustu færslu.

Það er svo gott fyrir sálina að hreinsa svona upp. Ég fitjaði upp 250 lykkjur, og prjónaði svo þar til garnið var svo til uppurið. Ég skipti bara um lit þegar endinn var búinn. Teppið varð tæplega 2 metra langt. Grófleikinn var mismunandi, og stundum prjónaði ég úr tvöföldu.

Það þarf svona snillinga til að benda manni á svona einfalda hluti.