Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 28. apríl 2021

Þrír prjónakjólar - Veslemor-tunika


Það kom að því að ég prjónaði þessa kjóla á stelputríóið mitt. Búin að eiga uppskriftina lengi í bókinni Klompelompe, strikk til baby, barn og voksen. Held að það sé fyrsta bókin þeirra. Langaði að prjóna þá fyrir þann aldur sem þær eru á núna, sú yngsta að verða fjögurra ára og tvær elstu að verða sex.


 Það var sérlega gaman að prjóna þá, byrjað efst og þess vegna gott að máta síddina. Ég notaði garnið sem gefið er upp í uppskriftinni, Dale Lille Lerke, keypt í A4, og prjóna nr. 3. Stærðirnar eru á 3-4 ára og 5-6 ára.

þriðjudagur, 20. apríl 2021

Veggteppi

Ég er alltaf hrifin af amerísku bútasaumskonunni Eleanor Burns. Þessi blokk er frá henni og heitir Rosebuds, eða rósaknúppar. Hún er í bókinni Egg Money Quilts.  Ég teiknaði hana upp í EQ8 bútasaumsforritinu til að geta ráðið stærðinni og saumað með pappírssaumi (kemur engum á óvart 😊). Blokkirnar eru 6,5 tommur á kant. Teppið allt er 37 x 37 tommur.


 

þriðjudagur, 13. apríl 2021

Fluffy Julie-genser


 Þessa peysu prjónaði ég á aðra tengdadótturina, að hennar beiðni. Hún er úr bókinni Klompelompe Strikkefest. Mjúk og hlý og fer henni mjög vel. Peysan er prjónuð úr Lanett og Silk Mohair frá Sandnes á prjóna nr. 5 í stærðinni XS.  Hún er frekar stutt og víð og ermarnar aðeins síðar.

sunnudagur, 4. apríl 2021

Páskahænur


Saumaði nokkrar páskahænur núna í dymbilvikunni. 


Sniðið er af heimasíðu Bernina.com/blog. Það kemur í þremur stærðum og notaði ég stærstu og miðstærðina, reyndar í 91% af réttri stærð því ég prentaði það í vitlausri stærð til að byrja með, en mér finnst stærðin á þeim nákvæmlega eins og ég vil hafa hana.