Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 14. febrúar 2023

Love Letters

Ég tók þátt í örlitlum leynisaum nú í febrúar í hóp á fb sem Kathleen Tracy stjórnar. Hún er flottur höfundur nokkurra bútasaumsbóka og hópurinn snýst um að sauma eftir hennar hönnun. Við fengum þrjár vísbendingar en vissum að þetta væri tengt Valentínusardeginum. Gerði þetta til að setja smá gleði í dagana í þessum febrúarlægðum sem hafa dunið yfir.

Teppið er ekki stórt, en litaþemað var rautt, gjarnan með bleiku ívafi. Rautt er uppáhalds liturinn minn í bútasaumi svo það hitti vel á. Blokkirnar eiga sem sagt að tákna opin umslög með ástarbréfum, Love Letters.   Svo merkti ég strax…notaði Spiro prógrammið í forritinu mínu. Höfundurinn stakk upp á því að hafa faldinn einfaldan, þ.e. að sníða 1 og 1/4 " ræmu og sauma hana einfalda á í stað þess að sníða 2 og 1/4 " ræmu og brjóta saman áður en hún er saumuð á eins og venjulega er gert. Þetta hefur mér aldrei dottið í hug áður en passar miklu betur þegar stykkið er lítið.


 

sunnudagur, 12. febrúar 2023

Febrúarálfur


 Ég er voða skotin í svona álfum, og keypti þessa uppskrift hjá Kreative Kiwi. Hann kemur í nokkrum stærðum og saumaði ég hann í 18 x 13 cm ramma. Hann er gerður í tveimur hlutum, og í stað þess að hafa texta á húfunni eins og gert er ráð fyrir saumaði ég hjarta sem ég fann í Super designs í forritinu mínu. Svo las ég um konu nokkra á fb sem saumar einn svona álf á mánuði og sendir systur sinni, og hefur húfuna einhvern veginn á þann hátt að hún minni á mánuðinn sem um ræðir. Mér finnst það voða sniðug hugmynd og ætla því að hafa vaðið fyrir neðan mig og kalla þennan febrúarálf, og vísar þá hjartað í Valentínusardaginn, og vona svo að ég nenni að gera marsálf þegar þar að kemur. Við sjáum til.

sunnudagur, 5. febrúar 2023

Bútasaumurinn merktur


Þegar ég tók niður jólabútasauminn núna í janúar greip ég tækifærið og merkti öll ómerkt teppi sem ég gekk frá, og hélt svo bara áfram með ýmis önnur teppi. T.d. hafði ég gleymt að merkja kokkateppið sem ég gerði fyrir ári síðan, skil nú reyndar ekkert í því. Ég tók bara minnstu útgáfuna af einni myndinni og minnkaði hana ennþá meira og bjó til merkimiða.


Í janúar fannst mér alveg kominn tími til að eignast flott útsaumsforrit og keypti My Sewnet Platinum forritið í Pfaff. Síðan er ég búin að skemmta mér vel við að skoða það, og sé að ég hef nóg að læra og prófa í útsaum. Hringlaga myndirnar eru allar úr Spiral fídusnum í því, endalausir möguleikar, og letrið tekið úr forritinu líka. Jólamyndirnar eru einnig þaðan, úr Super Design, en það passar svo vel í þessar merkingar því myndirnar eru svo litlar.


Það var hins vegar þrautin þyngri að finna út úr ártölunum á teppum sem ég saumaði áður en ég hóf þetta blogg árið 2009. Bloggið er handavinnudagbókin mín og þar get ég flett upp öllu mögulegu, en bútasaumurinn á sér sögu a.m.k. 15 ár lengra aftur í tímann. Ég lagðist í rannsóknarvinnu og notaði myndaalbúmin á heimilinu til að sjá hvort ég gæti lesið eitthvað út úr þeim, og niðurstaðan varð sú  að sumt var ég nokkuð örugg með en annað varð ég bara að tímasetja eftir tilfinningu. Ég kíkti til dæmis á útgáfuár einnar bókar sem ég sneið og saumaði eftir og sá að teppið var alla vega ekki eldra en hún. Svo hafði ég notað EQ forritið við sum teppin þannig að þar hafði ég viðmið, þó ég muni ekki alveg hvaða ár ég fékk það, en það var örugglega eftir að ég fékk fyrsta saumaherbergið mitt árið 2005. En þar með er þetta bara afgreitt.
 

föstudagur, 3. febrúar 2023

Hreindýrapúði

Milli jóla og nýárs saumaði ég þennan púða. Hreindýramunstrið fékk ég í blogginu sem birtist í saumavélinni minni. Þetta er ætlað til að sauma í jólapeysu, dálítið grófgert og gisið, en mig langaði að prófa það, enda alltaf hrifin af krosssaumi. Ég minnkaði það samt töluvert.

Snúrukantinn í kringum púðann gerði ég úr venjulegu, tilbúnu skábandi sem ég átti, og notaði til þess bestu aðferðina sem ég kann, en hún er sú að renna því í gegnum overlockvélina með snúrunni sem liggur þá á hárréttum stað í snúrufætinum sem hægt er að kaupa á vélina. Hún fylgir nytjasaumspakkanum, og svo er líka til skrautsaumspakki. Þegar ég sauma svo púðann saman nota ég mjóa, langa rennilásafótinn á saumavélinni.