Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 30. mars 2021

Húfan Ösp

Um áramótin sá ég að húfan Ösp, sem ég prjónaði á litla ömmustrákinn fyrir ári síðan, var orðin alltof lítil svo ég prjónaði aðra í janúar. Hana hafði ég í stærðinni 1-3 ára, enda er hann að verða 19 mánaða. Ég prjónaði úr Drops merino extra fine og uppskriftin er frá Knillax. Dúskinn af gömlu húfunni endurnýtti ég.

 

fimmtudagur, 25. mars 2021

Bútasaumsteppi í bleiku


Ég gerði teppi handa ömmustráknum í fyrra að beiðni tengdadóttur minnar. Systir hans hafði tekið ástfóstri við teppi sem ég saumaði fyrir tuttugu árum handa eldri syni mínum og föðurbróður hennar. Það var orðið slitið svo það lá ljóst fyrir að hún yrði líka að eignast teppi.
   
Ég hafði það í fullri stærð eins og stráksins, það er þá bara sett tvöfalt yfir rúmið til að byrja með. Munstrið er líka þannig að það er sama hvernig það snýr. Sú stutta er fimm ára, að verða sex í sumar, og elskar allt bleikt og fjólublátt.

Ég stakk fyrst í öll saumför og stakk svo með löngum saumum á ská. Svo notaði ég málningarlímband til að fá beinar línur og það er bara snilld. Ég hef gert það áður, og það vinnst mjög vel þannig. Fór með eina og hálfa rúllu.

 Efnin keypti ég í Panduro í Smáralind fyrir rúmu ári þegar þau voru að loka versluninni. Ég keypti slatta af efnum sem passa vel saman í þetta munstur, sem ég held að heiti Sól og skuggi. Bakefnið keypti ég hins vegar í Bóthildi. Grófa stungutvinnan fékk ég í Pfaff, kemur vel út í teppinu. Mikilvægt að velja lit sem passar við alla bútana. Merkið saumaði ég í útsaumsvélinni minni góðu. 

þriðjudagur, 16. mars 2021

Húfur og hálskragar

Stelpurnar mínar stækka og þurfa ný föt. Ég hef prjónað húfu eftir þessari uppskrift á eina þeirra áður en hún er úr Klompelompe - Strikkefest og heitir Lillemors duskelue.

Ég náði ekki að mynda þær allar saman því sú síðasta var prjónuð þegar búið var að afhenda hinar tvær.

Kragarnir eru úr Prjónað af ást og heitir uppskriftin Hálskraginn Bella. Ég prjónaði úr Drops merino extra fine.


 Ein daman vildi ekki hafa dúsk á sinni húfu. Ég nota alltaf smelludúska, langbest að festa þá á og auðvelt að losa ef það þarf að þvo húfuna.

þriðjudagur, 9. mars 2021

Vettlingar

Eftir áramót prjónaði ég tvö pör af vettlingum. Herravettlingarnir eru eftir uppskrift úr litlu hefti sem Ístex gaf út þar sem lettnesk prjónamunstur eru aðlöguð að íslenska kambgarninu. Að sjálfsögðu notaði ég kambgarn og prjóna nr. 2,5 og prjónaði stærð L. Mér fundust þeir ætla að verða heldur langir svo ég stytti þá um hálft munstur eða sex umferðir og þurfti þá að teikna munstrið fremst á þeim aftur upp með nýrri úrtöku. En þeir smellpössuðu líka á eigandann.

Dömuvettlingarnir eru hins vegar upp úr nýju vettlingaprjónabókinni, Íslenskir vettlingar, sem kom út fyrir jólin og heitir uppskriftin Salka. Í þá notaði ég Drops Flora. Eigandinn er frekar handsmár svo ég notaði prjóna nr. 2,25, en þeir urðu heldur þröngir yfir hendina á móts við þumalinn, en passlega langir. Það er líka alltaf hættan þegar þumallinn er settur í án þess að aukið sé út við hann, þ.e. prjónaður kíll. Ég ætla að hafa það í huga í framtíðinni.