Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 29. janúar 2009

Húfur og handstúkur

Þessar handstúkur prjónaði ég nýlega úr Lanett ungbarnagarni. Uppskriftin er frá Garnstudio.

 

Hér er uppskriftin að þessum.
Í gegnum áratugina hafa safnast fyrir hjá mér alls konar afgangar af efni og garni. Á síðasta ári safnaði ég saman öllu ungbarnaullargarninu mínu og prjónaði þessar húfur úr þeim.Húfurnar urðu 24 talsins. Ég fór með þær í Rauða krossinn í Kópavogi, þar sem þær koma að góðum notum. Kannski enda þær á litlum kollum í Afríku. Reyndar fóru bara 23 stykki þangað, því Úlfhildur Sjöfn, frænka mín, fékk eina.
Þegar næstum ekkert var eftir af garninu, vigtaði ég það, og það voru 32 grömm eftir, og ég vissi að húfan vó 26 grömm, þannig að ég hafði garn í eina enn. Afgangurinn af garninu liggur svo til hliðar.

Hér er uppskriftin.


 

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Saumavélarhlíf og "Red Sky at Night"

Þá er saumavélarhlífin tilbúin. Ég hef átt þrjár saumavélar um ævina, en þetta er í fyrsta sinn sem ég læt verða af því að sauma hlíf, þótt ég hafi alltaf ætlað að gera það. Ég gerði útreikninga og munstur í EQ6, og saumaði með pappírssaum. Myndin framan á er frá Bareroots, keypti sniðið í Virku.
Gerði smá rauf fyrir snúrurnar, og líka fyrir hnélyftarann framan á. Dálítið mál að setja kantinn á vegna þessa.

Að sjálfsögðu valdi ég svo uppáhaldslitina mína fyrir bútasauminn, og af því að vélin hefur ógrynni af skrautsaumum, þá vélsaumaði ég bryddinguna til hliðanna. Undir hana setti ég strauflíselín, sem var hægt að rífa burt.

Ég saumaði myndina með perlugarni, og hafði vatt undir þegar ég saumaði með aftursting


Svona lítur "Red Sky at Night" út þegar búið er að ganga frá því.Ég er vön að nota bómullarvatt í allt sem ég geri, en keypti polyestervatt af rælni í þetta sinn, en mér fannst ekki jafn gott að stinga í það og í bómullarvattið. Kannski er þetta spurning um vana.
þriðjudagur, 27. janúar 2009

Dúkkuteppi og myndir

Ég hef alltaf haldið upp á húsamyndir og stjörnur, og því var ekki erfitt að velja myndir til að sauma í rammana. Ég fann myndirnar í EQ6 forritinu mínu, og lét þær passa í rammana og saumaði svo auðvitað með pappírssaumi. Ég setti mjög þunnt vatt á bak við, en stakk ekkert. Svo get ég alltaf skipt út myndum!

Svo fá þær auðvitað að hanga saman á vegg.


Mig langaði alltaf að sauma þetta munstur, en ákvað bara að gera "dúkkuteppi". Ég gerði skapalón eftir munstri úr EQ6, og notaði afganga að mestu.


Ég hef stundum séð þetta kallað glasamunstur.


Teppið er stungið í saumförin, eða "in the ditch"
mánudagur, 26. janúar 2009

Vettlingar

Þessa vettlinga lauk ég við um helgina. Uppskriftin er úr norska blaðinu Familien nr. 27/2008. Garnið heitir Sisu. Ég hafði þá heldur lengri en uppskriftin sagði til um.

sunnudagur, 25. janúar 2009

Saumaherbergið

Síðunni minni hef ég gefið nafnið Saumaherbergið, og er því við hæfi að fyrsta myndin sé tekin þar. Hér er ég að stinga teppi, sem kallað er "Red Sky at Night" og er úr júlí/ágúst 2007 hefti af blaðinu "Fons and Porters Love of Quilting". Þessa æðislegu saumavél keypti ég í byrjun árs, og er þetta það fyrsta, sem ég vann í henni. Áður saumaði ég teppið saman með gömlu vélinni minni, sem er Husqvarna Lily 545, sem reyndist mér mjög vel. En þessi langi armur, þráðklippur, handfrjáls upplyfting á fæti ofl. og fl. á þessari nýju vél gerði útslagið. Vélin heitir Pfaff quilt expression 4.0.