Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 27. júní 2012

Könnumottur - mug rugs og "give away" hjá LeKaQuilt

Nú er ég búin að sauma fjórar könnumottur til viðbótar við þær sem ég átti. Það er gott að eiga nóg af þeim fyrir tefólk eins og okkur, sem berum með okkur tebolla út um allt hús.
Ég nota alltaf sama grunnsniðið, en breyti bara myndum og litum. Þá passa þær allar saman.


LeKaQuilt er með "give away" á blogginu sínu, og er með nokkra hluti sem hún hefur saumað.  Hún er ótrúlega flínk bútasaumskona, og er mjög dugleg að applíkera í höndum.  Endilega skoðið bloggið hennar.

  Hér er slóðin : http://lekaquilt.blogspot.com/

þriðjudagur, 19. júní 2012

Edinborg - London


Í haust fórum við hjónin til Edinborgar ásamt hópi fólks, og á röltinu rákumst við á litla hannyrðabúð, sem var að sjálfsögðu heimsótt. Þar keypti ég þessa mynd, sem ég er nú búin að sauma. Ég bætti reyndar nafninu við 
svo hún passaði betur í rammann.


Fyrir fjórum árum vorum við í London, og þar rakst ég á þessa mynd í Liberty.
Ég á líka útsaumaðan klukkustreng frá Færeyjum, en þar vann ég eitt sumar rúmlega tvítug. Hann á ég reyndar eftir að setja upp.


sunnudagur, 17. júní 2012

Peysukjólar

Ég saumaði mér tvo svona peysukjóla um daginn. Hún Lóa (Lóa-design á facebook, endilega skoðið) kenndi okkur kennurunum þetta. Efnið keypti ég í Twill, og teygjuskáböndin líka.

Rauði kjóllinn er úr teygjuefni, sem er æskilegra, en hinn ekki, samt er hann mjög fínn líka. Maður kaupir 80-90 cm af efni, 140 cm breiðu, og brýtur saman, saumar ermar úr teygjanlegu blúnduefni eða jerseyi á, gerir gat fyrir hálsmál, faldar það með teygjuskábandi og saumar saman í hliðum, þ.e. ferningur með ermum og hálsmáli.

Ég saumaði svo 15 cm teygju frá faldi upp í hliðarnar og teygði hana yfir 30 cm til að fá rykkingu. Ég notaði overlockvélina að sjálfsögðu, en það er enginn vand að gera þetta í venjulegri saumavél.

fimmtudagur, 14. júní 2012

Síð peysa

Einhvers staðar á netinu sá ég peysu sem var prjónuð úr kambgarni og einbandi, og að sjálfsögðu varð ég að prófa það. Sniðið af peysunni er af "Keðju" úr bókinni Prjónað úr íslenskri ull, og munstrið er úr "Röngu".

Ég notaði prjóna nr. 4,5 og fékk sömu prjónafestu og með léttlopa. Í munstrinu hafði ég grátt kambgarn og brúnt einband.

Kragann prjónaði ég á grófari prjóna, 5,5, og notaði " bændamarkaðsstroff", þ.e. tvær sléttar umferðir sú þriðja slétt og brugðin.