Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 22. mars 2018

Litla könglahúfan


Ég er búin að eiga uppskriftina af þessum húfum í dálítinn tíma, og ákvað að nú væri rétti tíminn til að prjóna þær. Reyndar ætlaði ég að vera búin með þær fyrir um mánuði síðan, en þurfti að bíð eftir garninu.
Mér fannst tímabært að ömmustelpurnar, komnar hátt á þriðja ár, fengju húfur fyrir stórar stelpur, sem ekki þyrfti að binda undir hökunni.

Uppskriftin gefur upp Nepal garn frá Drops, sem er fyrir prjónastærð 5, en ráðlagði að nota prjóna 3,5 því húfan átti að verða mjög þétt. Ég hlýddi þessu, og prjónaði báðar húfurnar með harmkvælum, því þetta var varla gerandi. Mig verkjaði í hendurnar á því að prjóna eins fast og ég gat. Og húfurnar urðu alltof massífar og stórar.

Ég rakti þær upp og gerði legghlífar úr Nepal garninu, og prjónaði húfurnar svo aftur úr Lima frá Drops, sem er sama garn og Nepal en fínna, ætlað fyrir prjóna 4. Nú gekk þetta miklu betur, og húfurnar miklu eðlilegri fyrir litlu höfuðin.

Dúskana fékk ég í Gallerý Spuna í Kópavogi, þeir eru með smellu.

Uppskriftina er hægt að kaupa hér á norsku, en ég man ekki alveg hvar ég fékk þá íslensku.

föstudagur, 9. mars 2018

Útsaumur

Þessar myndir saumaði ég til að hengja upp í þvottahúsinu.
Ég keypti munstrið í Virku fyrir nokkrum árum, og eru myndirnar sjö alls, og myndefnið er heimilisstörf af ýmsu tagi á þeim öllum. 
Útsaumsgarnið er eldgamalt, arfur frá mömmu.
Í rauninni á að sauma þær á viskastykki.
Myndarammarnir eru ósamstæðir, en ég átti þá inni í skáp.

sunnudagur, 4. mars 2018

Hettupeysur, peysan Hvoll

Þetta er peysan Hvoll úr Lopa 37. 
Ég notaði Lamaull úr Litlu prjónabúðinni í staðinn fyrir léttlopa.
Í uppskriftinni er ekki gert ráð fyrir neinum frágangi innan á listanum, en ég tók upp lykkjur og prjónaði kant, sem ég saumaði svo niður.
Hettuna átti líka að prjóna í hring og klippa upp, en ég prjónaði hana fram og til baka, sem mér finnst miklu fallegra.

Svo er ég farin að merkja prjónaföt leikskólastelpnanna minna með svona taumiða.
Lengi var ég að spá í að kaupa tilbúna miða, en ákvað svo bara að gera þá sjálf.
Peysurar eru að sjálfsögðu á eldri ömmustelpurnar mínar tvær, sem eru tveggja og hálfs árs, en stærðin er á þriggja ára í uppskriftinni.