Heildartala yfir síðuflettingar

föstudagur, 26. ágúst 2011

Skólataska

Mig bráðvantaði tuðru til að hafa með í vinnuna fyrir nestið, pappíra og prjónana (þeir eru nauðsynlegir á löngum fundum og námskeiðum - skerpa athyglina). Ég fann ekkert sem mér líkaði, og þá var ekki annað í boði en að sauma hana sjálf.
Ég átti efni með gamaldags skólamyndum sem ég keypti fyrir 12-14 árum í Glugghúsi í Hafnarfirði, en vissi aldrei hvað ég átti að gera við það. Ég tók það fram í gær og saumaði þessa tösku, og fór með hana í vinnuna í morgun - og er ánægð með útkomuna.
Ég er svakalega veik fyrir svona panelum, og þetta efni með saumavélunum keypti ég í Virku fyrir stuttu, og er búin að plana veggteppi með myndunum. Ég er líka svo hrifin af saumavélamótívinu sem slíku.
Svo kom ekkert annað til greina en að kaupa þetta í Quiltkörfunni í vetur, en hvað ætti ég að gera úr því? Mér dettur eitthvað í hug þótt síðar verði.
Mér finnst bara gaman að taka þetta efni upp og skoða það af og til.
Svo stóðst ég ekki mátið og keypti þetta jólaveggteppi í Bót á Selfossi í sumar. Mér finnst það bara svo fallegt, og hlakka til að búa til ramma og fá svo að stinga það af hjartans lyst.

mánudagur, 22. ágúst 2011

Mug Rug

Þessa könnumottu saumaði ég eftir pöntun. Þetta er bara önnur mottan sem ég sauma, en sú fyrri hefur verið í daglegri notkun síðan hún var saumuð. Gerði þessa eftir sama formi og hina í EQ7 en skipti bara um mynd.

sunnudagur, 14. ágúst 2011

Motta undir rokkinn

Fyrr í sumar var ég svo heppin að fá rokkinn hennar ömmu til eignar, en móðursystir mín hafði varðveitt hann. Amma var fædd árið 1899, og fékk rokkinn 15 ára gömul og spann á hann alla sína ævi. Hann er nettari en margir rokkar.
Ég heklaði mottu undir hann eins og ég sá undir rokkunum á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi í sumar. Uppskriftina fann ég í eldgömlu, sænsku heklublaði, Marks, en við mamma söfnuðum þeim hér áður fyrr og hekluðum í gríð og erg.

Hlaupastelpan á rokknum var týnd, en hún kemur ábyggilega í leitirnar síðar. Ég fékk hins vegar rokkasmið í Grafarvoginum, sem þær hjá Heimilisiðnarðarfélaginu bentu mér á, til að smíða nýja hlaupastelpu, og tókst það svona vel.
Svo fylgdi snældustokkurinn með, en ég á eftir að setja á hann hnykla.
Hér eru myndir af rokkunum frá Blönduósi,
og þar fékk ég hugmyndina að mottunni. Hún er hekluð úr léttlopa.

mánudagur, 8. ágúst 2011

Ný lopapeysa

Ég get ekki sagt að mig hafi VANTAÐ nýja lopapeysu, en bætti þó þessari í safnið í sumar af því að mig langaði í ljósa peysu. Ég prjónaði dökka í fyrra, og er hún mikið notuð. Þessi er prjónuð á prjóna nr. 7 úr tvöföldum plötulopa. Tölurnar eru úr skelplötu.