Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 10. desember 2020

Vesti


Þetta verður jólavesti á litla 15 mánaða ömmustrákinn minn. 
Fyrst gerði ég stærð á 12-18 mánaða en það varð alltof lítið á alla kanta. Sennilega hef ég prjónað það of fast, mér hættir til þess. Svo ég prjónaði annað, þetta á myndinni, og notaði stærð á tveggja ára og prjónaði lausar, á alveg von á að þetta smellpassi. Verður fínt með hvítri skyrtu og slaufu.

Ég var svo heppin að eignast lítinn frænda fyrir nokkrum dögum og ætla að klára minna vestið fyrir hann.

Ég notaði tvær dokkur af Drops baby merino.
Uppskriftin er frá Garnstudio.com.

föstudagur, 20. nóvember 2020

Verkefnataska


Enn ein verkefnataskan orðin til. Ég hef alltaf þörf fyrir þessar undir prjónadót og ýmislegt annað.  Þessi er stór og góð.

Munstrið saumaði ég í útsaumsvélinni minni góðu í hör, og er það eins framan og aftan á töskunni. 


 

sunnudagur, 15. nóvember 2020

Barnasokkar úr Fabel


 Þá eru öll barnabörnin búin að fá ullarsokka fyrir veturinn.  Ég fór eftir uppskrift frá Garnstudio.com og notaði Fabel garn eins og gefið er upp í uppskriftinni. Stroffið er hátt og gott, en sokkbolurinn varð alltof þröngur miðað við lengd, svo ég fækkaði verulega úrtökum eftir stroffið og hælinn. Þá urðu þeir fínir. Þeir eru á tvær fimm ára og eina þriggja ára skvísur og ársgamlan gæja.

Uppskriftin er hér.

þriðjudagur, 10. nóvember 2020

Dúkkukjólar


 Dúkkurnar fengu aftur föt fyrir nokkru. Efnin eru öll afgangar af kjólum sem ég saumaði á ömmustelpurnar. Ég vatt mér í þetta til að prófa nýja overlockvél sem ég fékk mér fyrir rúmum mánuði. Segi betur frá henni seinna. En þetta var ágætis æfing. Dúkkufötin hér aðeins neðar á síðunni voru líka saumuð næstum alfarið á þessari nýju vél.
Sniðið af kjólunum er frá Norlin.

miðvikudagur, 4. nóvember 2020

Vörðuklettur

Ég tók þátt í samprjóni Svalra sjala á fb í september. Mjög skemmtilegt samprjón sem er reyndar nýlokið, en ég var frekar fljót með sjalið. Garnið keypti ég hjá Kristínu í Vatnesyarn í sumar, ætlaði reyndar að prjónað annað úr því en fannst það passa vel í þetta sjal. Mjög ánægð með afraksturinn og nota það mikið. 

fimmtudagur, 22. október 2020

Snær sokkar


 Ég hef áður prjónað eftir þessari uppskrift á ömmustrákinn en mamman vildi fá sömu sokka aftur, bara aðeins stærri. Ég ákvað þá að prjóna bara á öll börnin fyrir veturinn.

 Uppskriftin er frá Petit Knitting. Ég prjónaði úr Drops merio extra fine. Uppgefin prjónastærð er nr. 4 og prjónaði ég fyrst allan sokkinn með þeim, en leistinn varð alltof laus þannig. Þess vegna hafði ég legginn með prjónum nr. 4 en leistann með 3,5, og svo var bara mátað. Þetta eru frekar þykkir sokkar, en fínir innan í rúm stígvél eða kuldaskó.

mánudagur, 19. október 2020

Heimferðarsett

Þetta heimferðarsett prjónaði ég í september fyrir lítið skyldmenni sem væntanlegt er í heiminn eftir örfáar vikur.  Þetta er fimmta barnabarn yngri bróður míns, og kynið opinberast fyrst við fæðingu.  Móðirin valdi litinn og ég valdi uppskrift sem mér finnst passa á bæði kynin. Uppskriftin er úr Klompelompe - strikk til hele familien, nema hjálmhúfan, sem er úr Babystrik på pinde 3 og hin húfan er úr Ungbarnahefti Prjónajónu. Grunnurinn að sokkunum er reyndar frá henni líka, en ég hef breytt þeirri uppskrift aðeins.  Garnið er frá Gallery Spuna, Drops baby merino, og réttu tölurnar finn ég alltaf í Litlu Prjónabúðinni.


 

þriðjudagur, 13. október 2020

Bútasaumsteppi á vegginn

Mig hefur vantað eitthvað fallegt á vegginn í forstofunni sem passaði í stærð.
Einhvers staðar á netinu sá ég svona blokkir og féll alveg fyrir þeim.
Ég veit ekki hvaðan þær eru eða hvað þær heita, en ég teiknaði svipaðar upp i EQ8 forritinu mínu og saumaði með pappírssaum.

Þær urðu 90 talsins.
Ég ákvað lika að hafa þetta svokallað “charm quilt” en þá er ekkert efni notað tvisvar.
Það þýddi að ég þurfti að taka fram 270 búta til að sníða úr auk efna í himinn, kant og bak, samtals 273 tegundir af efnum.

En það var gaman að sauma þetta og teppið lífgar svo sannarlega upp á vegginn í forstofunni.
Ég stakk í öll saumför og stakk svo með krákustíg með marglitum Gunold útsaumstvinna úr Pfaff.
Teppið er 101x147 cm að stærð. 

sunnudagur, 4. október 2020

Myrull sjal

Þetta sjal prjónaði ég síðsumars. 

Það er úr norskri bók, sem heitir Sjal og skjerf, strikking hele året, eftir Bitta Mikkelborg. Ljósgráa garnið er frá Vatnsnesyarn, liturinn heitir Brot, og það svarta er Yaku frá Litlu prjónabúðinni. Fyrst fannst mér full mikið af gulum lit í ljósa garninu, en þegar ég setti svart með fannst mér þetta smella saman. Prjónarnir voru nr. 4. 

 

 


 

fimmtudagur, 1. október 2020

Dúkkuföt


Núna datt ég í smá dúkkufatasaum. 
Dúkkunum hefur fjölgað á heimilinu, því ekki dugir að eiga eina dúkku þegar ömmustelpurnar þrjár koma í heimsókn. Nú deilist líka fataeignin á þrjár dúkkur svo ég verð að eiga meira til skiptanna. 
Efnin sem ég notaði eru afgangar af kjólunum mínum og gamlir bolir af okkur hjónum.

Sniðin eru úr bókinni Sy & strikk dukkeklær eftir Anne Grethe Gaaserud.

miðvikudagur, 30. september 2020

Hjálmhúfa


Litli ömmudrengurinn fékk þessa húfu í sumar, stærðin er á eins árs. 
Prjónaði hana í bílnum á ferðalagi í sumar og hélt ég myndi ekki hafa hana af, var stöðugt að ruglast og rekja upp. Hentar greinilega ekki sem bílaprjón, enda mikið um útaukningar og úrtökur. 
 

þriðjudagur, 22. september 2020

Gammósíur

 


Í sumar prjónaði ég gammósíur fyrir veturinn á ársgamlan ömmustrákinn.
Ég sauð þær saman úr nokkrum uppskriftum og byrjaði ofanfrá.
Prjónaði úr Lanett.

fimmtudagur, 3. september 2020

Sokkar


Nú á ég nýja ullarsokka fyrir veturinn.


Þeir eru mjög einfaldir, og studdist ég við uppskrift sem heitir Vanilla socks.
Prjónastærð er 2,25.


Garnið keypti ég hjá Kristínu í Vatnsnesi, í gróðurhúsi þeirra hjóna á Laugabakka.
Frúin keypti garn og bóndinn grænmeti.
Reyndar kom ég þangað tvisvar í sumar.


mánudagur, 31. ágúst 2020

David jakke


Litli sonarsonurinn, sem verður eins árs eftir fjóra daga, fékk þessa peysu. Hann vantaði létta gollu.


Það var alltaf planið að prjóna þessa uppskrift einhverntíma svo ég skellti mér bara í hana núna.
Peysan er prjónuð ofan frá og niður, fram og til baka, sem þýðir að frágangur var sama og enginn. 


Ég prjónaði úr Klompelompe tynn merinoull úr Rokku á prjóna 3.
Stærðin er á eins og hálfs árs.
Uppskriftin er úr Klompelompes sommerbarn.

föstudagur, 28. ágúst 2020

Peysan Mist í þríriti


Tvær ömmustelpnanna minna, systurnar, báðu mig í sumar að prjóna á sig bleikar peysur.
Ömmuhjartað var mjög stolt yfir að þær skyldu biðja um þetta sjálfar, og leyfði ég þeim sjálfum að velja liti.


Akkúrat á þessum tímapunkti var að koma út uppskrift hjá Prjónaklúbbnum að peysunni Mist, og meira að segja var blásið til samprjóns. Ég skellti mér í það, og prjónaði þrjár peysur. Þriðja ömmustelpan varð auðvitað að vera með og fékk hún bláa, enda á hún fjórar peysur frá mér í bleiku, sem hún er að nota.


Þarna eru þær komnar í peysurnar, staddar í afmæli einnar þeirra.
Peysurnar eru prjónaðar ofan frá og niður, og finnst mér það snilld þegar maður prjónar á börn. Ég gat mátað sídd á axlastykki, bol og ermum á meðan þær voru í vinnslu og mátaði oft. Ljósbleiku peysuna prjónaði ég reyndar tvisvar, var búin en fannst axlastykkið of sítt, og rakti upp bol og ermar, stytti axlastykkið og prjónaði hitt aftur. Þá var ég líka ánægð.


Ég á reyndar ekkert í barninu á þessari mynd, heldur voru myndin af því í peysu og mynd af mínum peysum dregnar út í samprjóninu, og mátti ég velja mér uppskrift af síðunni þeirra.

Ég prjónaði peysurnar úr Drops cotton merino sem ég held mikið upp á.
Stærðirnar voru á 4 og 6 ára, en stelpurnar eru 3 og 5 ára.

miðvikudagur, 12. ágúst 2020

Heklaðar hreinsiskífur


Einhvern tíma í sumar þegar ég hafði ekkert á prjónunum, tók ég alla litla hnykla úr bómullargarni og heklaði hreinsiskifur.


Ég notaði samt bara hnykla yfir ákveðinni þyngd þannig að ég þyrfti ekki að skeyta saman endum.


Samtals heklaði ég úr 247 grömmum af garni sem samsvarar tæpum 5 dokkum.
Hér er linkur í uppskriftina.

þriðjudagur, 14. júlí 2020

Kjólar

  
Ég sauma mér föt öðru hvoru og hef alltaf gert. 
Það mætti samt halda að ég teldi það ekki til handavinnu því mér dettur oft ekki einu sinni í hug að sýna það hér eins og aðra handavinnu sem ég geri.


En ég ætla að bæta úr því og sýna þessa tvo kjóla sem ég saumaði í vetur og vor.
Sá svarti er mjög paktískur að skella sér í, og líka fínn undir kimono.
Munstraði kjóllinn er sumarkjóllinn í ár.
Báðir eru eftir sama sniði, Onion 2035, sem er uppáhalds hjá mér, og er ég búin að gera breytingar á berustykkinu til að hann passi betur.
Efnin eru bæði úr Föndru.

þriðjudagur, 7. júlí 2020

Saumað á Baby Born


Ég hef nú meira verið fyrir það að prjóna dúkkuföt en að sauma þau, þótt það sé ólikt fljótlegra.
En nóg á ég af sniðunum, þannig að það er fínt að gera þetta í bland.


Í vor saumaði ég þessar flíkur fyrir ömmustelpurnar þrjár og gaf þeim þegar sú yngsta átti afmæli, gef alltaf öllum eitthvað smá þegar ein fyllir ár.


Sniðið af samfellunni og tjullpilsinu eru frá Norlin, en hringskorna pilsið er úr bókinni 
Sy & strikk dukkeklær eftir Anne Grethe Gaaserud, sem vinkona mín keypti fyrir mig í Ósló.


Efnin eru öll úr Föndru.

miðvikudagur, 10. júní 2020

Peysan Frost í mini útgáfu


Tengdadóttur mína langaði í græna peysu á soninn.
Ég fann lopapeysu á netinu sem var í grænum litum og sýndi henni, og þetta var nákvæmlega peysan sem hana langaði í.
En ekki úr lopa.


Ég þurfti að aðlaga munstrið að ungbarnagarni.
Það tókst ótrúlega vel. Ég studdist við ungbarnapeysu úr Klompelompebók til að gera mér grein fyrir lykkjufjölda, og svo gekk munsturbekkurinn upp í minnstu stærðinni á lopapeysumunstrinu. Sleppti öllum umferðum sem munstrið leyfði, og lykkjufjöldinn í lokin var alveg passlegur.
Það eina sem olli mér verulegum heilabrotum var að finna út nákvæman lykkjufjölda á peysu sem var prjónuð ofan frá og niður og aðlaga að peysu sem er prjónuð neðanfrá og upp. En allt stemmdi.


Húfuuppskriftin er úr Prjónablaðinu Ýr nr. 66, nema munstrið er það sama og í peysunni.
Lopapeysumunstrið er Frost úr Lopa 29.
Ég prjónaði úr Rauma babygarni frá Rokku á prjóna nr. 3.
Stærðin er á eins árs.

sunnudagur, 10. maí 2020

Billebælue


Þá er litli ömmustrákurinn búinn að fá sína kanínulambhúshettu eins og ömmustelpurnar.
Uppskriftin er í Klompelompe strikk året rundt og heitir Billebælue.
Stærðin er á 1-2 ára, og ég prjónaði úr Klompelompes merino ull og tynn merino ull.

sunnudagur, 3. maí 2020

Prjónaðir bangsar og svefnpokar


Í þessum faraldri, sem nú geisar, hef ég ekki séð barnabörnin í tvo mánuði.
Hugsa samt stanslaust um þau og finnst það næstum óbærilegt að sjá þau ekki nema á skjánum.


Þess vegna reyni ég að finna leiðir til að gleðja þau.
Þannig urðu þessir bangsar til.
Uppskriftin er af síðu Sjúkrabílabangsa á fb.
Ég notaði afganga af Drops merino extra fine að mestu og prjóna nr. 4.


Svo kíkti ég á Pinterst og fékk þar hugmyndina af svefnpokunum.
Mældi og sneið eftir stærð bangsanna.
Efnin i þeim eru öll frá Panduro.
Þeir eru saumaðir með vatti og stungnir, og tróð í koddum.


Svo útbjó ég pakka og hengdi á útihurðir á heimilum þeirra.

fimmtudagur, 30. apríl 2020

Vesti


Það var kominn tími til að ömmustrákurinn, sem verður átta mánaða eftir 4 daga, fengi nýtt vesti.
Hann getur reyndar ennþá notað þau sem ég prjónaði í þriggja mánaða stærð, því þau teygjast.

Uppskriftin að þessu heitir NORD-vest og er frá hyggestrikk.dk.
Það er á níu mánaða.
Garnið er Lanett frá Sandnes, og prjónarnir nr. 3,5.

miðvikudagur, 22. apríl 2020

Alma, Víðir og Þórólfur


Þær hjá Prjónakistunni hafa boðið upp á samprjón á fb frá því snemma á tímum samkomubannsins.
Þær voru svo rausnarlegar að gefa uppskriftir, og eru enn að.
Þetta er það sem ég gerði í samprjóninu.
Þær nefna uppskriftirnar eftir þríeykinu okkar.
Fyrsta uppskriftin, sú hér að ofan, heitir Alma.
Prjónaði úr léttlopa á prjóna nr. 3,5. Urðu heldur litlir, hefði þurft nr. 4, en þeir voru líka gefnir upp í uppskriftinni.


Svo var það Víðir.
Þessir vettlingar eru úr tvöföldum lopa, á prjóna nr. 5. Ætla að þæfa þá.


Prufaði líka að prjóna þá úr afgöngum af Spuna.


Þá kom sokkauppskriftin Þórólfur.
Í hana ákvað ég að nota Robust sokkagarn sem ég hef lengi átt, og í munstrið afganga af Drops merino extra fine. Prjónastærðin var 3,5, og passa sokkarnir á stálpað barn.


Það síðasta sem ég prjónaði í þessu samprjóni í bili voru vettlingarnir Þórólfur.
Hér notaði ég sama garn og í sokkana og með sömu prjónastærð.
Ég gerði þá með ömmustelpurnar í huga og hafði eitt parið aðeins minna, en þurfti þá að breyta mynstrinu og hnoðaði saman annað sem minnti á það upprunalega.
Þarf eitthvað geyma þessa, eru á aðeins eldri en mínar eru núna.