Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 19. september 2013

Enn ein peysan - prjónuð úr afgöngum

 

Ég held áfram að prjóna úr afgöngum, því eitthvað verður maður jú að hafa á prjónunum. Nú var það úr einföldum plötulopa, og ég kláraði rauða litinn áður en ég var búin með peysuna, og ég ætlaði ekki að kaupa meira. Þá var bara að róta í körfunni, og þessi grái varð endanlega fyrir valinu, og ég held bara að peysan sé betri fyrir vikið.

Uppskriftin er frá Drops.

 

mánudagur, 16. september 2013

Lítið bútasaumsstykki

 

Í þessu stykki ákvað ég að sleppa uppáhaldslitnum mínum, rauðum, og nota lit sem ég er alls ekkert fyrir, appelsínugulan. Ég held ég reyni þetta ekki aftur. Mér finnst ég stundum dálítið föst í uppáhaldslitunum mínum, en það er skemmtilegra að sauma úr þeim.

Svo stakk ég í höndum, mér finnst það alveg ótrúlega gaman.

 

mánudagur, 9. september 2013

Mr.Greenjeans - prjónuð úr uppraki

Ég rakst á þessa peysu á netinu, og varð að prjóna hana.

Uppskriftin er á Ravelry og heitir Mr.Greenjeans. Ef þetta nafn er slegið inn koma upp alls konar útgáfur af henni. Ég vildi helst hafa eitthvað annað en ull í henni, og mundi þá eftir peysu sem ég nota aldrei, og ákvað að rekja hana upp og nota garnið. Það er frá Dalegarn og er blanda úr bómull, hör og silki.

Tölurnar keypti ég hjá Heimilisiðnaðarfélaginu, en þær eru úr endurunnu efni.

Ég valdi að hafa peysuna hneppta alveg niður en uppskriftin gerir ráð fyrir einni tölu.

Þetta er peysan sem ég rakti upp.

 

mánudagur, 2. september 2013

Saumaður toppur

Þessi toppur var m.a handavinnan mín um helgina. Efnið keypti ég í Vogue, og sniðið í Föndru. Þetta er Onion snið nr. 5032. Ég ætla að sauma annan úr einlitu efni, sem ég á, því sniðið er mjög gott.